Ráðstefna til samræmingar rafrænna reikninga
Tækninefnd Staðlasamtaka Evrópu (CEN) nr. 434 héldu ráðstefnu í Barcelona 12-13. október síðastliðinn.
Fulltrúar 19 Evrópulanda mættu á þingið, en löndin sem áttu fulltrúa voru þessi: Ísland, Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Eistland, Pólland, Þýskaland, Holland, Frakkland, Bretland, Írland, Tékkland, Slóvakía, Austurríki, Rúmenía, Ítalía, Spánn og Portúgal.
Auk þess mættu fulltrúar sex tengdra vinnu- og tækninefnda, þ.á.m. tækninefnd nr. 440 um rafræn innkaup og tækninefnd nr. 445 um stafræn gögn tryggingarfélaga.
Fjallað var um yfirlit yfir afurðir tækninefndarinnar og umfang. Verkefni nefndarinnar er að útbúa:
- Evrópustaðal (EN) fyrir merkingarlegt gagnalíkan (semantic data model) fyrir kjarnastök rafrænna reikninga
- Tækniforskrift (TS) yfir lista málskipana (syntaxes), sem fylgja staðlinum
- Tækniforskrift (TS) fyrir bindingu málskipana, þ.e. leiðbeiningar um birtingu gagna í hverri málskipan
- Tækniskýrslu (TR) um samvirkni rafrænna reikninga og burðarlagsins, til að tryggja uppruna og innihald
- Tækniskýrslu (TR) leiðbeiningar um notkun viðauka við staðalinn m.t.t atvinnuvega og ríkja
- Tækniskýrslu (TR) um prófanir staðalsins í raunumhverfi
Stefnt er því að ljúka vinnunni í mars 2017.
Sex vinnuhópar gerðu grein fyrir vinnu sinni.
- WG1 - Grunngerð merkingarlegs gagnalíkans
- WG2 - Listi yfir málskipanir (syntaxes)
- WG3 - Binding málskipana
- WG4 - Leiðbeiningar um burðarlagið
- WG5 - Aðferðafræði um viðauka
- WG6 - Aðferðafræði prófana og niðurstaðna
Á fundinum var ákveðið að skipta vinnuhóp WG3 í fimm undirhópa, þ.e. fyrir kjarnastök og fjórar málskipanir: UBL 2.1 (Universal Business Language) og CII D.16B (Cross Industry Invoice) sem verða bindandi og EDIFACT D.16B og Financial Invoice byggð á ISO-20022 sem verða valkvæðar.
Fundir CEN/TC-434 framundan:
- 21-22. mars 2017 í Delft í Hollandi, útgáfa staðalsins
- september 2017 í Kaupmannahöfn, undirbúningur innleiðingar
- nóvember 2017 í Brussel, kynningarfundur framkvæmdastjórnar ESB
Samræming við íslenskar aðstæður ætti ekki að vera stórmál að því er best verður séð. Íslensk fyrirsæki og stofnanir nota flest tækniforskrift TS-136 frá Fagsaðlaráði í upplýsingatækni. Sú tækniforskrift byggir á CEN/BII, sem er undirstaðan í nýja staðlinum frá CEN/TC-434. Eigi að síður þarf að yfirfara lagasetningu og undirbúa innleiðingu hérlendis. Ætla má að Fagstaðlaráð (FUT) boði til fundar á næstunni um málið. Upplýst verður um stað og stund þegar að því kemur.