Hoppa yfir valmynd
6. júní 2011 Utanríkisráðuneytið

Skráning fyrir Íslendinga sem dvelja í lengri eða skemmri tíma erlendis

Íslenskir ríkisborgarar sem ferðast til útlanda eða dvelja erlendis í lengri eða skemmri tíma geta nú skráð upplýsingar þar að lútandi á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Fyrirkomulag þetta er sérstaklega hugsað fyrir þá sem fara til fjarlægari heimshluta eða svæða þar sem af einhverjum ástæðum má ætla að sé viðsjárvert ástand. Upplýsingarnar eru færðar í þar til gerðan gagnagrunn og geymdar á meðan á dvölinni stendur.

Ráðuneytið hefur á undanförnum árum ítrekað þurft að virkja neyðaráætlun sína vegna hamfara eða annars hættuástands erlendis. Stór þáttur í því starfi sem þá hefst er að hafa samband við alla íslenska ríkisborgara sem kunna að vera staddir á viðkomandi svæði. Gagnagrunninum er ætlað að auðvelda ráðuneytinu að ná sambandi við þá einstaklinga sem hafa skráð sig, auk þess sem við slíkar aðstæður er hægt að kalla eftir því að Íslendingar sem eru á hættusvæði og hafa ekki þegar skráð sig í grunninn, fari á netið og skrái sig. Er litið svo á að þetta kunni að reynast mikilvægt þar sem við slíkar aðstæður eru gjarnan vandamál með símasamband, en netið virkar.

Gagnagrunnurinn telst eign utanríkisráðuneytisins og verða upplýsingar úr grunninum ekki veittar til þriðja aðila nema öryggi þeirra sem skráðir eru í gagnagrunninn krefjist þess. Upplýsingar í grunninum verða aðeins notaðar í öryggisskyni og til að utanríkisráðuneytið eða íslenskt sendiráð geti náð sambandi við viðkomandi.

Þeim sem hyggja á ferðalög til viðsjárverðra svæða er sérstaklega bent á að skrá sig en öllum sem vilja láta vita af sér er það velkomið.

  • Skráningarform fyrir ferðamenn má finna með því að smella hér (þjónusta ekki lengur fyrir hendi)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta