Hoppa yfir valmynd
18. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 626/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 626/2020

Fimmtudaginn 18. mars 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Erla Guðrún Ingimundardóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. nóvember 2020, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um greiðslur úr sjóðnum.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barnsfæðingar X. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. nóvember 2020, var fallist á umsókn kæranda. Í greiðsluáætlun með ákvörðun kom fram að mánaðarleg greiðsla til hennar yrði 184.119 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 30. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 3. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 4. desember 2020, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. desember 2020. Athugasemdir lögmanns kæranda bárust 27. desember 2020 og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi, dags. 5. janúar 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kærenda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar/Fæðingarorlofssjóðs frá 17. nóvember 2020 verði felld úr gildi og ákvarðað verði að kærandi eigi rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við ákvörðun Hæstaréttar um að lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 séu lög til að styðja við þá sem standa höllum fæti fjárhagslega og félagslega, samanber dóm Hæstaréttar nr. 13/2020, og í samræmi við dóm Hæstaréttar nr. 125/2000 um að með greiðslu eins og samkvæmt lögum nr. 95/2000 beri ríkinu að tryggja lágmarksframfærslu og slíkar greiðslur skuli njóta jafnréttis í samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Í samræmi við framangreint er þess krafist að tekin verði ný ákvörðun þar sem Fæðingarorlofssjóði verði gert að greiða kæranda hæstu fjárhæð sem lög nr. 92/2000 kveða á um. Verði ekki fallist á það sé þess krafist að kæranda verði greidd fjárhæð sem dugir til lágmarksframfærslu. Samkvæmt reiknivél á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins sé lágmarksframfærsla móður með tvö börn um 341.000 krónur án húsnæðis sem er í kringum 200.000-250.000 krónur svo að ekki er fjarri lagi að áætluð lágmarksframfærsla sé um 550.000 krónur ef miðað sé við viðmið Félagsmálaráðuneytisins.

Kærandi eigi rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, samanber 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Þetta hafi Fæðingarorlofssjóður staðfest með því að senda kæranda greiðsluyfirlit sem jafnframt innifelur tekjuyfirlit kæranda. Rökstuðningur, málsástæður, sé byggður á stjórnarskránni. Stjórnvöld hafa á stundum reynt að koma sér undan því að afgreiða slík mál með því að vísa til þess að það sé ekki á þeirra færi og hafa vísað til stjórnskipunarvenju þar að lútandi, þ.e. að einungis dómstólar hafi úrskurðar- og endurskoðunarvald um hvort lög fari í bága við stjórnarskrána. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9937/2018 kemur fram að úrskurðarnefndum beri að fjalla um slíkar málsástæður og geti ekki vísað máli frá sér.

Í dómi Hæstaréttar númer 13/2020 segir:

„Til samræmis við áskilnað 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar hefur með almennum lögum verið komið á fót velferðarkerfi sem ætlað er að styðja við þá sem standa höllum fæti fjárhagslega og félagslega. Í því sambandi er fyrst að geta laga nr. 100/2007 sem kveða meðal annars á um rétt öryrkja og ellilífeyrisþega til bótagreiðslna. Í öðru lagi eru lög nr. 99/2007 sem stefna einnig að því markmiði sem fram kemur í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og lög nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Í þriðja lagi eru lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof…...“

Í reifun í dómi Hæstaréttar nr. 125/2000 segir:

„Þá var talið að skýra bæri 76. gr. stjórnarskrárinnar til samræmis við alþjóðasamninga, sem ríkið hefur staðfest, þannig að skylt væri að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarks framfærslu eftir fyrirfram gefnu skipulagi, sem ákveðið væri á málefnalegan hátt. Yrði slíkt skipulag að uppfylla skilyrði 65. gr. stjórnarskrárinnar um að hver einstaklingur nyti samkvæmt því jafnréttis á við aðra sem réttar njóta, svo og almennra mannréttinda.“

Af framangreindu sé alveg ljóst að samkvæmt Hæstarétti hefur til samræmis við áskilnað 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, verið komið á fót velferðarkerfi með almennum lögum sem ætlað er að styðja við þá sem standa höllum fæti fjárhagslega og félagslega. Hluti af framangreindum almennum lögum samkvæmt Hæstarétti eru lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Skýra ber 76. gr. stjórnarskrárinnar til samræmis við alþjóðasamninga, sem ríkið hefur staðfest, þannig að skylt er að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu. Jafnframt telur Hæstiréttur að lög og skipulag sem eiga að tryggja þá sem standa höllum fæti verði að vera í samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar um að hver einstaklingur njóti jafnréttis á við aðra sem réttar njóta svo og almennra mannréttinda.

Krafa kæranda byggir á því að lög nr. 95/2000 séu lög til að styðja við þá sem standa höllum fæti fjárhagslega og félagslega, séu hluti af velferðarkerfinu eins og Hæstiréttur orðar það og samkvæmt 1. mgr. 76. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar beri að skýra lög nr. 95/2000 með þeim hætti að þau tryggi, að sjálfsögðu fyrst og fremst þá sem standa höllum fæti, en einnig að þau tryggi lágmarksframfærslu og að hver einstaklingur njóti jafnréttis á við aðra svo og njóti almennra mannréttinda. Að auki sé rétt að telja til 2. gr. laganna þar sem kveðið er á að markmið laganna sé að tryggja barni samvistir við foreldra.

Hér sé því haldið fram að lög nr. 95/2000 standist ekki skilyrði Hæstaréttar og stjórnarskrárinnar og í raun nái ekki markmiði sínu um að tryggja barni samvistir við foreldra. Til að kanna það er rétt að setja lög nr. 95/2000 í próf. Lögin þurfa að:

1. Fela í sér velferð með því að styðja við þá sem höllum fæti standa.

2. Tryggja lágmarks framfærslu.

3. Tryggja að þeir sem standa höllum fæti njóti jafnréttis á við aðra, svo og njóta almennra mannréttinda.

4. Auk framangreinds þarf að tryggja barni samvistir við foreldra.

Enginn veit að sjálfsögðu betur hvað felst í velferð en úrskurðarnefnd velferðarmála. Orðið velferð kemur fram víða í lögum, meðal annars í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Löggjafanum þykir mikilvægt að huga að velferð barna og kemur það fram í mismunandi lögum og löggjafinn telur að allir viti hvað í velferð felst, að minnsta kosti finnur sá er þetta ritar enga skilgreiningu á hugtakinu í lögum. Íslensk orðabók segir að velferð sé velmegun, hagsæld. Að standa höllum fæti merkir að sjálfsögðu að standa illa. Sá sem stendur höllum fæti býr ekki við velmegun og hagsæld. Lög nr. 95/2000 eiga að huga að velferð og styðja þá sem standa höllum fæti samkvæmt Hæstarétti.

Gera lög nr. 95/2000 stöðu kæranda þannig að hún standi höllum fæti? Sá sem stendur höllum fæti sé ekki í góðri stöðu. Meðaltekjur á Íslandi á árinu 2019 hafi að jafnaði verið 573.000 krónur á mánuði. Telja verður að þeir sem hafi verið yfir meðaltalstekjum hafi verið í ágætri stöðu en þeir sem voru undir hefðu greinilega getað verið í betri stöðu.

EES eða EFTA ríkisborgarar, sem hyggjast sækja um lögheimilisskráningu á Íslandi, þurfa að sýna fram á framfærslugetu í að minnsta kosti þrjá mánuði frá skráningardegi. Framfærsluupphæðin miðast við upphæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar. Mánaðarleg lágmarksframfærsla einstaklings er 207.709 krónur. Sé um að ræða afkomanda á aldrinum 18-21 árs sem kemur hingað til lands og mun dvelja hjá foreldrum sínum, þá er mánaðarleg lágmarksframfærsla þeirra 100.634 krónur. Framfærsluviðmið hækkar ekki sé um að ræða börn yngri en 18 ára.

Kærandi sé með tvö börn og samkvæmt framangreindu er lágmarksframfærslu fjárhæð fyrir hana 408.977 krónur. Fæðingarorlofssjóður hafi úrskurðað henni 184.119 krónur í mánaðargreiðslu vegna fæðingarorlofs. Vegna þess hversu lága greiðslu kærandi fær, samanber framangreint, óskaði kærandi eftir því að greiðslu yrði dreift á lengra tímabil en ella. Kærandi sá fram á að hún yrði að fara að vinna fljótlega eftir fæðingu barns til að ná að framfæra sér og börnum sínum. Laun kæranda áður en hún fór í fæðingarorlof og tveggja mánaða veikindaleyfi fyrir fæðingarorlofið hafi verið 414.278 krónur. Kærandi hafi þess vegna í fæðingarorlofi einungis 44% af þeim launum sem hún hafði áður en hún fór í fæðingarorlof sér til framfærslu í fæðingarorlofi. Ekki þurfi að hafa frekari orð um það að miðað við þær greiðslur sem kærandi fær miðað við ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs þá standi hún höllum fæti. Í fyrsta lagi stendur hún höllum fæti vegna þess að mikið hallar á að hún hafi sömu fjárhæð á mánuði og hún hafði í laun fyrir fæðingarorlof, hallinn er yfir 50% sem getur ekki talist annað en að standa töluvert mikið höllum fæti. Ekki er það svo að kærandi hafi verið á háum launum fyrir fæðingarorlof, þrátt fyrir það er mismunur launa fyrir fæðingarorlof og þá greiðslu sem hún fær samkvæmt Fæðingarorlofssjóði yfir 50%. Laun kæranda séu rétt yfir þeirri framfærslu sem krafist sé af EES eða EFTA ríkisborgurum sem hyggjast sækja um lögheimilisskráningu á Íslandi. Laun hennar séu töluvert frá því að vera meðallaun á Íslandi sem og talsvert frá því sem félagsmálaráðuneytið telur lágmarksframfærslu ef tekið er tillit til húsnæðiskostnaðar. Laun kæranda voru við lágmarks framfærslufjárhæð EES, EFTA ríkisborgara áður en hún fór í fæðingarorlof. Fæðingarorlofssjóður ákvað að úthluta henni um 45% af lágmarksframfærslu og um 45% af því sem hún hafði í laun fyrir fæðingarorlofið. Telja verður að það samræmist hvorki áskilnaði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar né áskilnaði 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og að kærandi og börn kæranda standi þrátt fyrir greiðslur ákveðnar af Fæðingarorlofssjóði mjög svo höllum fæti. Öllum má vera ljóst að staða sem þessi stuðlar ekki að aukinni velferð, hvorki barns né móður, þar sem þetta eykur áhyggjur móður sem yfirfærast á barn vegna þess að það skynjar hvernig móður líður. Að auki mun ástandið leiða til þess að móðir og barn ná ekki að uppfylla markmið laga nr. 95/2000 um samveru. Af framangreindu megi sjá að lög nr. 95/2000 stuðla ekki að velferð og bæði móðir og barn munu standa höllum fæti vegna laganna sem sé hvorki í samræmi við 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar né 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Annað skilyrðið sem talið er að þurfi að uppfylla svo að lög nr. 95/2000 séu til samræmis við 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sé að tryggð sé lágmarksframfærsla. Telja verður að sýnt hafi verið fram á það hér að framan að lög nr. 95/2000 tryggja ekki lágmarksframfærslu hjá öllum og mismuna nýbökuðum foreldrum með ómálefnalegum hætti, þ.e. með því að taka mið af löngu liðinni fortíð sem hefur ekkert gildi þar sem fæða þarf og klæða í nútíðinni en ekki fortíðinni. Samkvæmt Hæstarétti ber að skýra 76. gr. stjórnarskrárinnar til samræmis við alþjóðasamninga, sem ríkið hefur staðfest, þannig að skylt er að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu. Ljóst er að kæranda hefur með lögum nr. 95/2000 ekki verið tryggð lágmarksframfærsla.

Í þriðja lagi sé talið að tryggja þurfi að þeir sem standi höllum fæti njóti jafnréttis á við aðra, svo og njóti almennra mannréttinda. Samkvæmt ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs fær kærandi í mánaðargreiðslur 184.119 krónur. Samkvæmt lögum nr. 95/2000 fær annað nýbakað foreldri mikið hærri greiðslur á mánuði, eða allt að 600.000 krónur. Samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Hvað felst í því að vera jafn fyrir lögum án tillits til efnahags? Í dómsorði í dómi Hæstaréttar nr. 125/2000 segir:

„Viðurkennt er, að aðaláfrýjanda, Tryggingastofnun ríkisins, hafi verið óheimilt frá 1. janúar 1994 á grundvelli 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995 að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans í því tilviki, er maki hans er ekki lífeyrisþegi.“

Með þessum dómi sé viðurkennt að það megi skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í samræmi við tekjur hans þannig að því hærri sem tekjurnar eru því lægri er greiðsla ríkisins til örorkulífeyrisþegans en ekki sé heimilt að miða við ómálefnalegan mælikvarða. Þetta sé í samræmi við það sem kemur fram í greinargerð með þeirri grein sem sé nú 65. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir:

„Þannig má t.d. nefna að skilyrðið um að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum án tillits til efnahags kemur ekki í veg fyrir að til séu skattleysismörk fyrir þá sem eru lakast settir fjárhagslega og skattar geti síðan verið stighækkandi eftir því sem efnahagur manna er betri. Þá felst ekki í reglunni að ríkið þurfi að tryggja öllum sömu aðstöðu án tillits til efnahags því nauðsynlegt er að þeir sem búa við rýran hag fái frekar efnahagslegan stuðning frá ríkinu en hinir sem hafa aðstæðna sinna vegna ekki þörf fyrir slíkan stuðning. Dæmum eins og þessum er ætlað að sýna fram á að réttlætanlegt getur verið að gera ákveðnum hópum hærra undir höfði í löggjöf í viðleitni til að rétta skertan hlut þeirra til jafnvægis við aðra þjóðfélagshópa.“

Af framangreindu sé alveg skýrt að 65. gr. stjórnarskrárinnar telur ekki að ríkið þurfi að tryggja öllum sömu aðstöðu án tillits til efnahags þar sem talið er að heimilt sé að þeir sem búa við rýran hag fái efnahagslegan stuðning frá ríkinu umfram hina samanber, framangreindan dóm Hæstaréttar nr. 125/2000. Rétt sé að endurtaka að það er talið heimilt að mismuna eftir efnahag vegna þess að nauðsyn stendur til þess. Nauðsynlegt er að þeir sem búa við rýran hag fái frekar efnahagslegan stuðning frá ríkinu en hinir sem hafa aðstæðna sinna vegna ekki þörf fyrir slíkan stuðning. Framangreind greinargerð um 65. gr. stjórnarskrárinnar gerir með skýrum hætti grein fyrir því að það sé ekki í samræmi við efni greinarinnar að ríkið styðji hina efnameiri umfram hina. Ef úrskurðarnefnd velferðarmála kemst að þeirri niðurstöðu að það sé heimilt að mismuna fólki þannig að ríkið styðji minna við þá sem rýran efnahag hafa, eins og kæranda, en hina sem hafa það betra þá er nefndin í raun að segja að það sé heimilt að mismuna fólki með tilliti til efnahags, kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá mætti segja að 65. gr. stjórnarskrárinnar sé í raun óþörf. Jafnvel þó að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að mismuna, verður að telja að tekjufall kæranda, sem sé 55%, geti ekki verið talið teljast til jafnræðis þegar tekjufall annarra er 20% þegar miðað er við síðasta mánuð (nútímann ekki fortíðina) þar sem foreldri sé í fullri vinnu fyrir fæðingarorlof, laun kæranda síðasta mánuð fyrir veikindaleyfi.

Rétt sé að leggja aftur áherslu á að markmið laga nr. 95/2000 um samveru barns og foreldra næst ekki hjá þeim sem rýrari hag hafa vegna þess að íslenska ríkið neyðir þá til að fara aftur að vinna, frá barninu, þegar þeir sem hafa það betra geta verið lengur heima hjá barninu. Ef stjórnvöld trúa því að það sé betra að foreldrar geti verið með börnum sínum sem lengst, meðal annars vegna þroska barnanna, sé augljóst að með því að veita þeim sem rýrari efnahag hafa lægri bætur eða greiðslur frá ríkinu þá byrjar ójafnræði milli verr stæðra og betur stæðra við fæðingu barns. Um sé að ræða ójafnræði sem byggt er á efnahag og sem ríkið stuðlar að og gæti haft áhrif á barnið alla ævi.

Lög nr. 95/2000 séu lög sem mismuna fólki í sambærilegri stöðu. Hæstiréttur segir lög nr. 95/2000 vera lög sem séu hluti af velferðarkerfi Íslands og að 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar áskilji að fólki sé séð fyrir lágmarksframfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi sem ákveðið væri á málefnalegan hátt og uppfyllti skilyrði 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnrétti.

Spyrja má hvers vegna því sé haldið fram að lög nr. 95/2000 mismuni fólki í sambærilegri aðstöðu. Foreldri eða foreldrar á vinnumarkaði eða í skóla eða jafnvel í einhverri annarri aðstöðu með nýfætt barn, séu allir í sömu aðstöðu. Í fyrsta lagi þarf einhver að gæta að barninu þegar það er fætt alveg sama hvort foreldrarnir höfðu 200.000 krónur eða 800.000 krónur á einhverju viðmiðunartímabili laga nr. 95/2000 sem sé löngu fyrir fæðingu barns. Tekjur falla niður hjá foreldri og allir þurfa á lágmarksframfærslu í fæðingarorlofinu að halda fyrir sig og barnið eða börnin. Í öðru lagi gera lög nr. 95/2000 ráð fyrir að annað foreldri hugi að og gæti barnsins. Það sé alveg sama hvort þetta foreldri hafði 200.000 krónur eða 800.000 krónur í mánaðarlaun á einhverju viðmiðunartímabili laga nr. 95/2000 sem sé löngu fyrir fæðingu barns. Það þarf að gæta að barninu og það þarf að fæða barnið og lög nr. 95/2000 geri ekki ráð fyrir því hvort foreldrið er einstætt eða hvort foreldrar búa saman vegna þess að greiðslur til foreldra miða ekki við hvað hitt foreldrið hefur í laun sem gæti til dæmis verið 5.000.000 krónur á mánuði sem þá hefði getað leitt til þess, ef lögin væru með þeim hætti að engin greiðsla fengist frá ríkissjóði vegna þess að annað foreldrið hefði svo háar tekjur. Greiðslur til foreldra miða einungis við foreldrið sem er í fæðingarorlofi sem og barnið eða börnin. Það séu þess vegna allir í þeirri stöðu að fæða þarf að minnsta kosti eitt foreldri og barn og svo geta verið fleiri börn. Það þarf sem sagt í fæðingarorlofi samkvæmt Hæstarétti að sjá foreldri og barni eða börnum fyrir lágmarksframfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi sem er ákveðið á málefnalegan hátt. Athuga ber að ríkinu ber að sjá foreldri fyrir lágmarksframfærslu, samanber 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, og ef ríkið telur að lágmarksframfærsla fyrir eitthvert foreldri sé 600.000 krónur á mánuði þá ber öðru foreldri sama upphæð samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar vegna þess að foreldrarnir séu í sömu stöðu, það þarf að fæða og klæða foreldri og barn/börn. Önnur niðurstaða væri jafn ómálefnaleg og að segja að rauðhærðir foreldrar þurfi 600.000 krónur í lágmarksframfærslu en ljóshærðir 200.000 krónur.

Hæstiréttur hefur sagt að samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skuli tryggja að lögum lágmarksframfærslu. Kærandi sem fellur úr því að hafa laun sem eru rétt yfir lágmarksframfærslu (EES-EFTA) fyrir fæðingarorlof og yfir í að fá greiðslu samkvæmt Fæðingarorlofssjóði sem sé einungis 45% af lágmarksframfærslu er ekki tryggður réttur til lágmarksframfærslu og þess vegna er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs ekki í samræmi við áskilnað 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og ber í samræmi við það að fella hana úr gildi og ákvarða kæranda að minnsta kosti greiðslur sem í felst lágmarksframfærsla og ef Fæðingarorlofssjóður telur 600.000 krónur lágmarksframfærslu fyrir einhverja foreldra eigi það sama við um kæranda.

Jafnframt hefur Hæstiréttur sagt að skipulag sem tryggði lágmarksframfærslu yrði að vera málefnalegt. Í dómi Hæstaréttar nr. 125/2000 telur Hæstiréttur það ekki málefnalegt og óheimilt þess vegna að miða örorkulífeyri við laun örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja til tekna lífeyrisþegans í því tilviki er maki hans er ekki lífeyrisþegi. Hæstiréttur taldi óheimilt að skerða lágmarksframfærslu örorkulífeyrisþegans með því að taka viðmið af launum maka. Telja verður að það sama eigi við um að það sé ómálefnalegt og óheimilt að skerða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, ríkissjóði, með því að miða við laun foreldra langt aftur í tímann sem koma nútímanum ekkert við. Það getur ekki annað en talist ómálefnalegt að miða við laun löngu fyrir fæðingu barns þegar það sem skiptir máli er í raun það sem gerist við fæðingu og rétt fyrir fæðingu barns. Það er nútíðin sem skiptir máli, ekki fortíðin. Barnið varðar ekkert um fortíðina. Jafnframt verður að telja það ómálefnalegt í lögum sem byggja á velferð að velferðin, í þessu tilfelli lágmarksframfærsla sé miðuð við laun þess sem þiggur velferðina, þ.e. laun með öfugum formerkjum miðað við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Með því er verið að segja að á meðan eitt foreldri og barn þess geti lifað við góðan kost, sé öðru foreldri og barni þess ætlað að lifa við mikið verri kost. Það getur ekki talist málefnalegt. Er það velferð?

Af framansögðu má sjá að staða allra foreldra er eins við og eftir fæðingu. Það þarf að framfæra barn/börn og foreldri og ef löggjafinn hefur ákveðið að þessi framfærsla þurfi að vera fyrir einhverja foreldra og barn/börn 600.000 krónur á mánuði þá getur það með engu móti verið málefnalegt að greiða foreldri sem er í nákvæmlega sömu stöðu og foreldrið sem fær 600.000 krónur, 184.119 krónur á mánuði.

Eins og kemur fram í dómsmáli öryrkjans hér að framan er miðað við stöðu einstaklingsins ekki annarra ómálefnalegra ástæðna eins og laun maka. Einstaklingurinn þarf tiltekna lágmarksframfærslu fyrir sig fyrir hverja mínútu, hvern dag í nútímanum, það borðar enginn fortíðina og enn síður það sem gerðist í fortíðinni. Það sé miðað við stöðu einstaklingsins þegar hann fær greiðsluna frá ríkinu. Einstaklingurinn hefur engin laun og fær þess vegna tiltekna fjárhæð frá ríkinu, fjárhæð sem hann þarf vegna lágmarksframfærslu í nútíðinni. Foreldri nýfædds barns sé eins statt og öryrkinn, foreldrið og barnið eða börnin þurfa að lifa í núinu og ber að fá greiðslu frá ríkinu sem felur í sér lágmarksframfærslu. Löggjafinn hefur talið að lágmarksframfærsla hjá einhverjum foreldrum sé 600.000 krónur vegna núsins, hvernig í ósköpunum ætti þá lágmarksframfærsla hjá öðrum foreldrum að vera lægri í núinu. Hvorki öryrkinn né nýbakaðir foreldrar lifa á fortíðarlaunum og ef svo væri þá ættu þeir sem hærri laun hafa að hafa getað frekar lifað á fortíðarlaunum vegna þess að þeir ættu frekar að geta lagt fyrir en þeir sem eru með lægri laun. Það getur þess vegna ekki verið málefnalegt að löggjafinn segi að tilteknir foreldrar þurfi 600.000 krónur á mánuði til að hafa lágmarksframfærslu en aðrir til dæmis 184.119 krónur. Það sé verið að tala um að lifa í núinu en ekki fortíðinni. Fólk þarf að fæða sig og klæða í núinu, ekki fortíðinni. Af framansögðu sé ljóst að það getur ekki verið málefnalegt og ekki í samræmi við 65. gr. og 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að kærandi fái greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði sem eru langt undir lágmarksframfærslu á meðan aðrir í nákvæmlega sömu stöðu fá 600.000 krónur á mánuði frá Fæðingarorlofssjóði sem ríkið telur þá lágmarksframfærslu. Telja verður að greiða beri kæranda 600.000 krónur á mánuði í fæðingarorlofsgreiðslur til að þær greiðslur séu í samræmi við áskilnað 65. gr. og 1. mgr. og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, samanber og framangreinda dóma Hæstaréttar.

Það getur engan veginn verið málefnalegt að segja að fólk lifi á meðaltali einhverrar fortíðar þar sem jafnvel séu ekki einu sinni allar breytur teknar inn í það líf, það lifir enginn á tölfræðinni.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að stofnunin hafi vísað til álits umboðsmanns Alþingis nr. 9431/2017 sem og dóma Hæstaréttar sem umboðsmaður hafi vísað til í framangreindu áliti sínu. Um sé að ræða dóma annars vegar frá 1998 á bls. 2233 og hins vegar dóm nr. 404/2004.

Rétt er að fjalla fyrst um dóm Hæstaréttar frá 1998 á bls. 2233. Sá dómur fjallar um skaðabótarétt og geta ekki átt sömu sjónarmið við um skaðabótaréttindi og réttindi sem heyra undir velferðarmál. Í skaðabótarétti er það meginregla að tjónþoli eigi rétt á að fá tjón sitt bætt að fullu. Í málum sem snúa að velferð er komið á velferðarkerfi sem ætlað er að styðja við þá sem standa höllum fæti fjárhagslega og félagslega. Markmið skaðabótarréttar og velferðarkerfa eru ekki sambærileg. Velferðarkerfi snýr ekki að því að fólk fái tjón sitt bætt að fullu. Rétt sé að minna á nýjasta dóm Hæstaréttar nr. 13/2020 þar sem fjallað sé um velferðarmál og jafnræðisregluna.

Eins og fyrr greinir er það meginregla skaðabótaréttar að tjónþoli fái tjón sitt bætt að fullu. Tilvik eru mismunandi og stundum er auðveldara að meta hvort fullt tjón er bætt eins og á til dæmis við um tvö hús. Annað húsið er metið á 50.000.000 krónur og hitt er metið á 100.000.000 krónur. Tiltekinn aðili kveikir í báðum húsunum og er ljóst að honum ber að bæta tjón annars upp á 50.000.000 krónur en hins upp á 100.000.000 krónur. Erfiðara er að meta tjónið þegar um er að ræða skerta vinnugetu en þá hefur verið talið eðlilegt að miða við launin sem tjónþolar voru með við skerðinguna/tjónið.

Í samræmi við þetta segir Hæstiréttur í dómi 1998, bls. 2233:

„Að því er þó að hyggja, að í aflahæfi manna eru fólgin eignarréttindi, sem njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 3311944, áður 67. gr., en nú 72. gr., sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Löggjafinn hefur engu að síður heimild til að setja reglur um það, hvernig ákvarða skuli bætur, þegar aflahæfi manna er skert, enda sé það markmið slíkra reglna, að fullar bætur komi fyrir. Við setningu þeirra verður að gæta lögmæltra skilyrða, er meðal annars lúta að jafnræði borgaranna, sbr. núgildandi 65. gr. stjórnarskrárinnar og þær ólögfestu meginreglur á þessu sviði, sem áður giltu.“

Hér sé rétt að huga að því að Hæstiréttur segir að löggjafinn hafi heimild til að setja reglur um skaðabótaréttinn, enda sé þær reglur í samræmi við markmið skaðabótareglna, þ.e. að fullar bætur komi fyrir. Sama verður að telja að eigi við um velferðarmál að löggjafanum sé heimilt að setja reglur um velferðarmál en þær reglur verði að vera í samræmi við meginmarkmið velferðarreglna eða velferðarríkja en það er að koma þeim sem minna mega sín til hjálpar, samanber 65. gr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Í framangreindum dómi (Hrd. 1998, bls. 2233) var sératkvæði og þar segir meðal annars:

„Vegna þessa og með vísan til raka héraðsdóms að öðru leyti tel ég, að staðfesta beri niðurstöðu hans um, að jafnræðisregla hafi ekki verið brotin og að sýkna beri stefnda af kröfum áfrýjanda um bætur fyrir varanlega örorku.“

Af þessu má sjá að meirihlutinn taldi að brotið væri á 65 gr. stjórnarskrárinnar, enda segir í dóminum:

„Staða tjónþola með miskastig vegna varanlegrar örorku undir tilteknu lágmarki er augljóslega mismunandi eftir því, hvort þeir falla undir 5.-7. gr. skaðabótalaga eða 8. gr. þeirra. Áður er á það fallist, að aðgreining tjónþola í tvo hópa eftir því, hvort við tekjur á liðinni tíð er að styðjast eða ekki, sé reist á málefnalegum grunni. Þá er og ljóst, að bótaákvörðunum vegna fyrrnefnda hópsins er ætlað að styðjast við fjárhagslegt örorkumat, en hins síðarnefnda við læknisfræðilegt mat. Þessar mismunandi forsendur mega hins vegar ekki leiða til þeirrar niðurstöðu, að annar hópurinn undir tilteknu örorkustigi fái líklegt tjón sitt bætt, en hinn eigi þess engan kost. Slík mismunun fer í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 72. gr., og verður ekki réttlætt með því, að um smávægileg tjón sé að ræða, sem erfitt sé að færa sönnur að.“

Umboðsmaður Alþingis segir að Hæstiréttur hafi talið að aðgreining réttinda einstaklinga í löggjöf eftir því hvort unnt sé að taka mið af fyrri tekjum eða ekki, geti verið reist á málefnalegum grunni og brjóti því ekki í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. dóm réttarins frá 4. júní 1998 (Hrd. 1998, bls. 2233). Það sé rétt hjá umboðsmanni að þetta getur átt við um skaðabótarétt þar sem meginreglan er sú að tjónþoli fái tjón sitt bætt að fullu. Hæstiréttur telur hins vegar að mismunandi forsendur megi hins vegar ekki leiða til þeirrar niðurstöðu að annar hópurinn undir tilteknu örorkustigi fái líklegt tjón sitt bætt en hinn eigi þess engan kost. Hæstiréttur segir samkvæmt því sem fram kemur í dóminum að 1. málslið 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga verði ekki beitt um tjón áfrýjanda. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að það væri ekki í samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar að notast við 1. málslið 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga. Eins og kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis staðfesti þessi dómur það sem átti í raun að vera ljóst, þ.e. að það sé ekki í andstöðu við 65. gr. stjórnarskrárinnar að tjónþoli fái tjón sitt bætt að fullu.

Svohljóðandi er 65. gr. stjórnarskrárinnar: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Af þessu megi sjá að greinin bannar það ekki að tjónþolar fái tjón sitt bætt að fullu og þess vegna fer greinin ekki gegn því að tjónþolar fái tjón sitt bætt að fullu. Það sé hins vegar ekki það sem þetta mál, sem hér er til umfjöllunar, fjallar um. Þetta mál fjallar um velferðarmál en ekki skaðabótamál og er þess vegna ekki ljóst hvers vegna umboðsmaður Alþingis nefnir Hrd. 1998, bls. 2233, þar sem sá dómur á augljóslega við um skaðabótamál en ekki velferðarmál eins og sýnt hefur verið fram á hér að framan. Málið sem hér er til umfjöllunar fjallar um það að foreldrum er mismunað eftir efnahag þótt 65. gr. stjórnarskrárinnar banni það. Stjórnarskráin bannar ekki að tjónþolar fái tjón sitt bætt að fullu og má segja að þvert á móti sé andi hennar á þá leið að tjónþolum beri að fá tjón sitt bætt að fullu, enda segir Hæstiréttur að mismunandi forsendur megi ekki leiða til þeirrar niðurstöðu að tiltekinn hópur fólks undir tilteknu örorkustigi fái líklegt tjón sitt bætt en annar hópur fólks eigi þess engan kost. Hæstiréttur segir slíka mismunun fara í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur styður þau sjónarmið sem sett eru fram í þessu máli, sem hér er til umfjöllunar, varðandi það að mismunandi forsendur megi ekki leiða til mismunandi niðurstöðu. Hér er til umfjöllunar velferðarmál en ekki skaðabótamál eins og í dóminum og ef niðurstaða dómsins um óheimila mismunun er sett á velferðarmál en ekki skaðabótamál, verður að telja að mismunandi forsendur megi ekki leiða til mismunandi velferðar. Í þessu máli leiða mismunandi forsendur til mismunandi velferðar. Um mismunandi niðurstöðu varðandi skaðabæturnar segir Hæstiréttur að mismunun fari í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar og verður að telja að það sama eigi við hér.

Fæðingarorlofssjóður vísar einnig til dóms Hæstaréttar nr. 404/2004. Reifun Hæstaréttar um það mál er eftirfarandi:

„Ekki var fallist á kröfu S um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og 4. gr. þágildandi reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs en greiðslur slysadagpeninga til S höfðu fallið niður tæpum tveimur mánuðum fyrir þann dag. Þá var talið að ekki hefði verið leitt í ljós að T hefði gefið S rangar upplýsingar, vanrækt upplýsingaskyldu sína eða að dráttur hefði orðið á afgreiðslu á umsókn hans um þessar greiðslu er leiða ættu til skaðabótaskyldu T. Var T því sýknað af kröfum S.“

Af reifuninni má sjá að mál nr. 404/2004 er ekki sambærilegt því máli sem hér er til umfjöllunar. Í fyrsta lagi vegna þess að eins og kemur fram í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er óumdeilt að kærandi uppfyllir skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. Tilvísun í þennan dóm í þessu máli sé þess vegna röng vegna þess að ekki sé um sambærileg mál að ræða. Í því máli, sem hér er til umfjöllunar, uppfyllir kærandi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 og á þess vegna rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, um það sé ekki deilt eins og í máli nr. 404/2004 og málin þess vegna ekki sambærileg. Í öðru lagi sé einnig rétt að benda á að umboðsmaður Alþingis segir það málsástæðu hvort reyni á 65. gr. stjórnarskrárinnar. Ekkert kemur fram í dómi nr. 404/2004 um að reynt hafi á þessa málsástæðu um jafnræði og þess vegna sé ekki um sambærileg mál að ræða þar sem ekkert hafi verið fjallað um jafnræði í dómi nr. 404/2004 og þá líklega vegna þess að ekki var minnst á þá málsástæðu. Í þriðja lagi var það mál umboðsmanns Alþingis nr. 9431/2017 sem Fæðingarorlofssjóður vísar til ekki sambærilegt við það mál sem hér er til umfjöllunar og hefði verið auðvelt fyrir Fæðingarorlofssjóð að kanna það. Í því máli hafi verið um að ræða umsókn og afgreiðslu á fæðingarstyrk vegna námsmanna og sú afgreiðsla var ekki byggð á 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000.

Fæðingarorlofssjóður reyni að hrekja þá málsástæðu að kæranda sé mismunað með ólögmætum hætti með því að vísa til framangreindra málsástæðna/röksemda. Í fyrsta lagi vísar Fæðingarorlofssjóður til máls umboðsmanns Alþingis nr. 9431/2017 en í því máli reyndi ekki á hvort 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 færi í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar eins og á við hér. Hér reynir á hvort afgreiða eigi foreldra sem eru algerlega í sömu aðstöðu þar sem 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 á við um þá með mismunandi hætti. Með sömu aðstöðu sé átt við að þeir taka sér frí frá vinnu til að sjá um nýfætt barn. Telja verður að það sé ekki í samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar að mismuna foreldrum út frá efnahag, þ.e. að þeir ríkari fái greiðslu/styrk umfram þá fátækari. Í öðru lagi vísar Fæðingarorlofssjóður til dóms Hæstaréttar frá 1998, bls. 2233. Eins og rakið hafi verið sé það mál, sem til umfjöllunar er í þeim dómi, með engu móti sambærilegt við það mál sem hér er til umfjöllunar. Hér er til umfjöllunar velferðarmál. Í dóminum er til umfjöllunar skaðabótamál. Rétt er þó að minna á niðurstöðu Hæstaréttar í þeim dómi að mismunandi forsendur megi ekki leiða til þess að einum hópi sé hampað með ríflegum greiðslum á meðan litið er fram hjá öðrum hópi þannig að hann þurfi að lifa langt undir því sem íslenska ríkið telur eðlilega framfærslu. Í þriðja lagi er svo dómur Hæstaréttar nr. 404/2004 en eins og rakið hefur verið er það mál ekki sambærilegt við það mál sem hér er til umfjöllunar. Í fyrsta lagi vegna þess að þar var niðurstaðan sú að aðili málsins ætti ekki rétt á greiðslum þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof en kærandi uppfyllir það skilyrði og í öðru lagi vegna þess að ekki var byggt á málsástæðunni um jafnræði samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar. Við mat á því hvort brotið hafi verið gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar skiptir grundvallarmáli hvort mismunun teljist ómálefnaleg.

Í sératkvæði dóms Hæstaréttar 1998, bls. 2233, segir að þegar meta skuli hvort ólögmæt mismunun eigi sér stað, sem brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, þurfi að meta hvort farið hafi verið á mismunandi hátt með tvö sambærileg tilvik og ekkert réttlæti þessa mismunun.

Framangreind greinargerð segir að það sé málefnalegt að mismuna þannig að þeir sem búa við rýran hag fái efnahagslegan stuðning frá ríkinu frekar en hinir sem betur eru settir. Hér er þessu þveröfugt farið, þ.e. afgreiðsla Fæðingarorlofssjóðs mismunar með þveröfugum hætti, þ.e. þeir sem lægri tekjur hafa, búa við rýran hag, fá minni efnahagslegan stuðning frá ríkinu en hinir sem búa við betri hag. Ef miðað er við framangreindan mælikvarða, sem kominn er frá löggjafanum, er ljóst að afgreiðsla Fæðingarorlofssjóð á máli kæranda felur í sér ólögmæta mismunun.

Kærandi fæðir barn og er með um 420.000 krónur í mánaðarlaun áður en hún fer í fæðingarorlof. Fæðingarorlofssjóður ákveður að í fæðingarorlofi skuli hún fá á mánuði til að fæða sig og klæða, sem og börnin, kr. 184.119. Önnur kona sem er með kannski 1.000.000 krónur eða 2.000.000 krónur á mánuði fæðir barn og Fæðingarorlofssjóður ákveður að í fæðingarorlofi skuli hún fá 600.000 krónur á mánuði til að fæða sig og klæða, sem og barnið eða börnin. Þetta sé ákveðið, þrátt fyrir að 65. gr. stjórnarskrárinnar banni að mismuna fólki með lögum út frá efnahag.

Um nákvæmlega eins mál er að ræða:

1.         Báðar konurnar fara af vinnumarkaði.

2.         Báðar konurnar fara í fæðingarorlof

3.         Báðar konurnar fæða barn

4.         Báðar konurnar þurfa að fæða sig og klæða sem og barnið eða börnin á meðan á fæðingarorlofinu stendur.

Allir hljóta að vera sammála um framangreint, þ.e. að um eins mál er að ræða. Er farið eins með þessar nýbökuðu mæður sem eru í þessum sambærilegu málum? Nei! Önnur fær greiðslur frá ríkinu sem eru hærri en framfærslukostnaður samkvæmt íslenska ríkinu. Hin fær greiðslur frá ríkinu sem eru langt undir framfærslukostnaði samkvæmt íslenska ríkinu. Það getur varla nokkur neitað því að þarna afgreiðir íslenska ríkið sambærileg mál með mismunandi hætti. Slík ómálefnaleg mismunun er ólögmæt samkvæmt Hæstarétti sem og samkvæmt löggjafanum (1. Hrd. 1998, bls, 2233, mismunandi forsendur mega hins vegar ekki leiða til þeirrar niðurstöðu að annar hópurinn undir tilteknu örorkustigi fái líklegt tjón sitt bætt en hinn eigi þess engan kost. 2. Greinargerð með 65. gr. stjórnarskrárinnar nauðsynlegt er að þeir sem búa við rýran hag fái frekar efnahagslegan stuðning frá ríkinu en hinir sem hafa aðstæðna sinna vegna ekki þörf fyrir slíkan stuðning). Þá er eftir að afgreiða liðinn um réttlætið sem kemur fram í framangreindu sératkvæði. Er eitthvað sem réttlætir þennan mismun sem felst í afgreiðslu Fæðingarorlofssjós? Annarri móðurinni er tryggður réttur til að lifa af ef miðað er við lágmarksframfærslu samkvæmt íslenska ríkinu. Hinni er ekki tryggður réttur til að lifa af ef miðað er við lágmarksframfærslu samkvæmt íslenska ríkinu. Er eitthvað sem réttlætir það að einungis annarri móðurinni er tryggður réttur til að lifa og þá barni hennar einnig? Það er að minnsta kosti alveg ljóst að Hæstiréttur styður það ekki, samanber dóm réttarins nr. 13/2020 þar sem segir að til samræmis við áskilnað 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar hafi með almennum lögum verið komið á fót velferðarkerfi sem ætlað er að styðja við þá sem standa höllum fæti fjárhagslega og félagslega og eru þau lög sem ætlað er að styðja við þá sem standa höllum fæti lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Hæstiréttur segir að lögum nr. 95/2000 sé ætlað að styðja þá sem standa höllum fæti. Að styðja launahærri móður umfram þá launalægri getur með engu móti stutt þá sem standa höllum fæti fjárhagslega og félagslega. Ljóst er af dómi Hæstaréttar nr. 13/2020 að það að styðja við þá móður sem stendur ekki höllum fæti umfram þá sem stendur höllum fæti er hvorki til samræmis við 65. gr. stjórnarskrárinnar né 76. gr. stjórnarskrárinnar. Varðandi tilvísun Fæðingarorlofssjóð til máls umboðsmanns Alþingis og tilvísun til dóma sem þar eru nefndir er rétt að benda á að dómur nr. 13/2020 er tilkominn eftir umfjöllun umboðsmanns Alþingis og er þess vegna nýrra fordæmi en þau fordæmi sem Fæðingarorlofssjóður fjallar um. Þrátt fyrir það ákveður Fæðingarorlofssjóður að fjalla ekkert um þetta nýja fordæmi.

Dómur Hæstaréttar nr. 125/2000 segir að skýra beri 76. gr. stjórnarskrárinnar til samræmis við alþjóðasamninga, sem ríkið hefur staðfest, þannig að skylt væri að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu.

Fæðingarorlofssjóður hefur ekki tekið mið af 76. gr. stjórnarskrárinnar við afgreiðslu á máli kæranda og þannig ekki uppfyllt þá skyldu ríkisins um rétt sérhvers einstaklings um lágmarksframfærslu.

Í dómi Hæstaréttar nr. 13/2020 segir að til samræmis við áskilnað 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar hefur með almennum lögum verið komið á fót velferðarkerfi sem ætlað er að styðja við þá sem standa höllum fæti fjárhagslega og félagslega. Lög nr. 95/2000 eru meðal þessara laga sem ætlað er að styðja við þá sem standa höllum fæti.

Fæðingarorlofssjóður hefur við afgreiðslu á máli kæranda ekki litið til þess að kærandi stendur mikið hallari fæti en sá sem hefur til dæmis 1.000.000 krónur í mánaðarlaun og fær um 600.000 krónur á mánuði úr Fæðingarorlofssjóði á meðan kærandi fær 184.119 krónur. Fæðingarorlofssjóður hefur ekki tekið tillit til þess sem kemur fram í dómi Hæstaréttar nr. 13/2020 um að styðja þá sem standa höllum fæti.

Fæðingarorlofssjóður rökstyður afgreiðslu sína með því að vísa til máls umboðsmanns Alþingis nr. 9431/2017 þar sem umboðsmaður vísaði meðal annars til tveggja dóma Hæstaréttar. Umboðsmaður segir: „Sjá til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands frá 10. mars 2005 í máli nr. 404/2004 þar sem rétturinn byggir niðurstöðu sína á 13. gr. laga nr. 95/2000. Í málinu reyndi á lögmæti mismunandi greiðslna úr fæðingarorlofssjóði eftir því hvort umsækjandi var á vinnumarkaði eða ekki.“

Í því máli, sem hér sé til umfjöllunar, reynir ekki á lögmæti mismunandi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir því hvort umsækjandi var á vinnumarkaði eða ekki, tilvísunin á þess vegna ekki við.

Hér reyni á það hvort tveir einstaklingar í nákvæmlega sömu stöðu, þ.e. fæða barn og taka frí frá vinnumarkaði lögum samkvæmt, fái annars vegar styrk/greiðslur frá ríkinu sem dugar fyrir lágmarksframfærslu og jafnvel umfram það og hins vegar styrk/greiðslur frá ríkinu sem eru langt undir lágmarks framfærslu.

Hæstiréttur hefur sagt að mismunandi forsendur megi ekki leiða til mismunandi niðurstöðu og að það sé í andstöðu við 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Að ríkið greiði nýbökuðu foreldri annars vegar 600.000 krónur á mánuði og hins vegar 184.119 krónur á mánuði felur í sér að mismunandi forsendur leiða til mismunandi niðurstöðu og það er ekki í samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 1998, bls. 2233. Auk þess er það hvorki í samræmi við orðalag 65. gr. stjórnarskrárinnar né í samræmi við það sem segir um 65. gr. stjórnarskrárinnar í greinargerð með greininni og óþarfi er að endurtaka það sem þar segir. Einnig sé rétt að minna á að 184.119 krónur er undir lágmarksframfærslu og þess vegna ekki í samræmi við 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Fæðingarorlofssjóður útskýrir ekki í greinargerð sinni hvernig mál Hæstaréttar nr. 404/2000 og mál dómsins frá 1998, bls. 2233, styður málstað Fæðingarorlofssjóðs. Hér að framan hefur hins vegar verið sýnt fram á að svo er ekki og jafnvel hið gagnstæða, til dæmis að dómur frá 1998 bls. 2233 styður málstað kæranda, enda segir í dóminum að mismunun sé óheimil.

Kærandi telur að afgreiðsla Fæðingarorlofssjóðs hafi sýnt fram á eftirfarandi í máli kæranda:

•          Styður ekki þá sem standa höllum fæti og er þess vegna ekki til samræmis við áskilnað 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar samanber dóm Hæstaréttar nr. 13/2020.

•          Fól í sér að ekki er farið að eins við sambærileg tilvik og slík mismunun fer í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar, samanber dóm Hæstaréttar frá 1998, bls. 2233.

•          Fer klárlega gegn orðalagi 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til meðal annars efnahags en ljóst er að svo er ekki þegar þeir tekjuhærri fá styrk umfram þá tekjulægri. Fæðingarorlofssjóður segir að það réttlæti það að þeir tekjuhærri fá aukinn styrk/greiðslur frá ríkinu umfram þá tekjulægri að ákvæðið þar um sé almennt og mæli meðal annars fyrir um að greiðslur skuli vera 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu tímabili. Eins og gerð hefur verið gerð grein fyrir hér að framan og samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar er þar um ólögmætan mælikvarða að ræða, samanber til dæmis niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 125/2000 þar sem sagt er að eðlilegur mælikvarði sé að þeir með hærri tekjur fái lægri greiðslur frá íslenska ríkinu en hinir sem eru með lægri tekjur.

•          Fer klárlega gegn því sem kemur fram í greinargerð með þeirri grein sem er nú 65. gr. stjórnarskrárinnar.

•          Allt framangreint hefur Hæstiréttur stutt í dómi nr. 125/2000, en þar segir:

„Talið var að réttur sá sem almannatryggingalöggjöfin tryggði öryrkjum væri almennur og tæki tillit til jafnræðissjónarmiða milli þeirra sem eins væru settir í þröngum skilningi. Hins vegar væri mælt fyrir um mismunandi skerðingu lífeyris vegna tekna eftir því um hvaða tekjur er að ræða. Var talið að þrátt fyrir svigrúm almenna löggjafans til mats á því, hvernig lágmarksréttindi samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár skyldu ákvörðuð, gætu dómstólar ekki vikið sér undan því að taka afstöðu til þess, hvort það mat samrýmdist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. Var það skipulag réttinda örorkulífeyrisþega samkvæmt almannatryggingalögum, að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka hans á þann hátt sem gert væri, ekki talið tryggja þeim þau lágmarksréttindi, sem fælust í 76. gr. stjórnarskrárinnar, svo að þeir fengju notið þeirra mannréttinda, sem 65. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um.“

Í framangreindu máli telur Hæstiréttur það málefnalegt að miða við laun öryrkjanna þegar reiknaðar eru út greiðslur sem þeim ber. Samkvæmt dóminum er um það að ræða að þeir sem hafa hærri laun fá lægri greiðslur frá ríkinu en þeir sem hafa lægri laun, samanber það sem segir í greinargerð með 65. gr. stjórnarskrárinnar og samanber einnig það sem almennt er viðurkennt í velferðarmálum, þ.e. að eðlilegt sé að styrkja þá launalægri umfram þá launahærri. Hæstiréttur telur það hins vegar ómálefnalegt að miða við annan mælikvarða og í því máli sem fjallað er um hér er miðað við annan mælikvarða og verður að telja það ómálefnalegt, samanber dóm Hæstaréttar sem og greinargerð með 65. gr. stjórnarskrárinna sem og orðalag 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Af framansögðu má sjá að afgreiðsla Fæðingarorlofsjóðs á máli kæranda hefur verið ómálefnaleg og hvorki til samræmis við 65. gr. né 76. gr. stjórnarskrárinnar. Telja verður þess vegna að kæranda beri að fá hámarksgreiðslur sem lög nr. 95/2000 kveða á um, að öðrum kosti er verið að mismuna henni og er slík mismunun ekki til samræmis við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Telji úrskurðarnefndin að kæranda beri ekki að fá hámarksgreiðslur verður að telja að kæranda beri að fá greiðslur sem duga til lágmarksframfærslu, samanber 76. gr. stjórnarskrárinnar.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærður sé útreikningur sjóðsins á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof sé kveðið á um það að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn komi inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur, sbr. 2. og 5. mgr. 8. gr.

Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna og eigi tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður samkvæmt 2. mgr. 7. gr., sbr. greiðsluáætlun til hennar, dags. 17. nóvember 2020, þar sem fram komi að mánaðarleg greiðsla til hennar, miðað við 100% fæðingarorlof, verði 184.119 krónur.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 sé meðal annars kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanna, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, greiðslur samkvæmt a- og b- liðum 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur samkvæmt III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e liði 2. mgr. 13. gr. a.

Í 2. mgr. 13. gr. laganna segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a., án tillits til þess hvort laun samkvæmt 2. málsl. eða reiknað endurgjald samkvæmt 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000 sé kveðið á um að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingargjaldskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt 2., 5. og 6. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns hafi verið þann X og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem kærandi var á innlendum vinnumarkaði tímabilið maí 2019 til apríl 2020.

Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda, eða 80% af meðaltali heildarlauna sem gerir 152.841 krónu.

Í 7. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 sé kveðið á um lágmarksgreiðslur til foreldra í 25-49% starfi og 50-100% starfi, sbr. 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 og b- lið 1. gr. reglugerðar nr. 1238/2019, sem eigi við í tilviki kæranda og hafi greiðslur til hennar verið hækkaðar til samræmis við það úr 152.841 krónu í 184.119 krónur.

Í kæru sé þess krafist að kæranda verði ákvarðaðar hæstu mögulegu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða þá að minnsta kosti fjárhæð sem dugi til lágmarksframfærslu með vísan til þess að lög nr. 95/2000 séu lög sem styðja við þá sem standi höllum fæti fjárhagslega og félagslega og að með þeim beri íslenska ríkinu að tryggja lágmarksframfærslu og slík lágmarkframfærsla skuli njóta jafnréttis í samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 21. ágúst 2017 í máli nr. 114/2017, sem staðfesti ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, hafði umboðsmaður kæranda uppi sambærilegar kröfur og í þessu máli. Í framhaldinu kvartaði umboðsmaður kæranda til umboðsmanns Alþingis. Í úrlausn umboðsmanns Alþingis frá 31. desember 2018 í máli nr. 9431/2017 segir meðal annars:

„Af kvörtun […] og í þeim gögnum sem henni fylgdu fæ ég ráðið að í málinu reyni nær eingöngu á hvort reglur um fæðingar- og foreldraorlof um tekjutengdar greiðslur standist 65. gr. stjórnarskrárinnar. […] tel ég, eins og málið liggur fyrir mér, ekki ástæðu til að beina því sérstaklega til nefndarinnar að hún taki málið til meðferðar að nýju. Hef ég þá einkum í huga að ég fæ ekki séð að þótt bætt yrði úr umfjöllun um umrædda málsástæðu af hálfu nefndarinnar hefði það breytt niðurstöðu málsins. Sjá til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands frá 10. mars 2005 í máli nr. 404/2004 þar sem rétturinn byggir niðurstöðu sína á 13. gr. laga nr. 95/2000. Í málinu reyndi á lögmæti mismunandi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir því hvort umsækjandi var á vinnumarkaði eða ekki. Þá bendi ég á að Hæstiréttur hefur talið að aðgreining réttinda einstaklinga í löggjöf, eftir því hvort unnt sé að taka mið af fyrri tekjum þeirra eða ekki, geti verið reist á málefnalegum grunni og brjóti því ekki í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. dóm réttarins frá 4. júní 1998 (H1998, bls. 2233). Ég tel því ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina en að því marki sem ég hef gert í framangreindu áliti.“

Með lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof hafi löggjafinn kveðið á um fjárhagslega aðstoð til foreldra að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Viðurkennt sé að löggjafanum sé heimilt að kveða á um mismunandi skipulag greiðslukerfa eigi slíkt skipulag við málefnaleg rök að styðjast og sé almennt. Þannig hafi eins og áður segir verið kveðið á um útreikninga á greiðslum til starfsmanna í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. Ákvæðið sé almennt og mælir meðal annars fyrir um að greiðslur skuli vera 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu tímabili. Þrátt fyrir þá meginreglu hefur löggjafinn séð ástæðu til þess að setja þak á fjárhæð greiðslna, sbr. 3. mgr., auk þess að tryggja ákveðna lágmarksframfærslu, sbr. 7. mgr. Ekki verði annað séð en að það fyrirkomulag brjóti ekki í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig dóma Hæstaréttar frá 10. mars 2005 í máli nr. 404/2004 og frá 4. júní 1998 (Hrd. 1998, bls. 2233), sbr. úrlausn umboðsmanns Alþingis frá 31. desember 2018 í máli nr. 9431/2017.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 17. nóvember 2020, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hennar.


 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 184.119 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Kærandi krefst þess að greiðslur hennar úr Fæðingarorlofssjóði taki mið af hæstu mögulegu greiðslum sem lög nr. 95/2000 kveða á um. Verði ekki fallist á það sé þess krafist að kæranda verði greidd fjárhæð sem dugir til lágmarksframfærslu sem kærandi telur vera um 550.000 krónur, sbr. framfærsluviðmið félagsmálaráðuneytisins.

Í 1. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir það skilyrði laganna og á tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun samkvæmt 2. málsl. eða reiknað endurgjald samkvæmt 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laganna skuli mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi þó aldrei nema hærri fjárhæð en 370.000 kr. en sú fjárhæð komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála, sbr. 8. mgr. 13. gr. laganna, og sé nú 600.000 kr., sbr. reglugerð nr. 1207/2018 um breytingu á reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Ráðið verður af kæru að kærandi telji að 2. mgr. 13. gr.laga nr. 95/2000, sbr. reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sé í andstöðu við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þá hefur kærandi einnig vikið að því að lögin séu í andstöðu við 1. og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9431/2017 þar sem umboðsmaður kæranda hafði uppi sambærileg rök fyrir því að ekki skyldi takmarka greiðslur í samræmi við 13. gr. laga nr. 95/2000, er vísað til dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands frá 10. mars 2005 í máli nr. 404/2004 og dóms réttarins frá 4. júní 1998 (Hrd. 1998, bls 2233). Um síðarnefnda dóminn segir í áliti umboðsmanns Alþingis:

„Þá bendi ég á að Hæstiréttur hefur talið að aðgreining réttinda einstaklinga í löggjöf, eftir því hvort unnt sé að taka mið af fyrri tekjum þeirra eða ekki, geti verið reist á málefnalegum grunni og brjóti því ekki í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. dóm réttarins frá 4. júní 1998 (H 1998, bls. 2233). Ég tel því ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina en að því marki sem ég hef gert í framangreindu áliti.“

Ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um að öllum, sem þess þurfi, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Samkvæmt 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal börnum tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur 76. gr. stjórnarskrárinnar verið skýrð svo að skylt sé í lögum að tryggja rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi sem ákveðið er á málefnalegan hátt. Hinn almenni löggjafi hefur vald um það hvernig því skipulagi er háttað að uppfylltum þeim lágmarksréttindum sem í 76. gr. felast. Löggjafinn hefur í samræmi við framangreint sett lög nr. 95/2000 sem kveða á um réttindi foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Samkvæmt 13. gr. laganna hefur löggjafinn tekið afstöðu til þess hvaða greiðslur komi til greiðslu foreldra í fæðingarorlofi. Úrskurðarnefndin fær ekki annað ráðið af ákvæðum laganna en að þau byggi á lögmætum sjónarmiðum. Er til þess að líta að takmarkanir á greiðslum til foreldra, líkt og kveðið er á um í 13. gr. laga nr. 95/2000, styðjast við málefnaleg sjónarmið, eru almennar og gætt hefur verið meðalhófs. Að mati úrskurðarnefndinarinnar fer takmörkunin því ekki gegn þeim markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof um að tryggja barni samvistir við foreldra og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Verður því hvorki fallist á að 13. gr. laga nr. 95/2000 mæli fyrir um skerðingu á greiðslum til kæranda sem sé óheimil samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar né að reglurnar feli í sér mismunun í garð kæranda sem brjóti í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Kærandi hefur vísað til þess að Fæðingarorlofssjóður hafi ekki rökstutt hina kærðu ákvörðun í samræmi við 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati úrskurðarnefndarinnar er rökstuðningur sjóðsins fullnægjandi og verður því ekki fallist á þetta sjónarmið kæranda.

Barn kæranda fæddist þann X. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 skal því mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem kærandi var á innlendum vinnumarkaði tímabilið maí 2019 til og með apríl 2020.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. nóvember 2020, um mánaðarlegar greiðslur til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta