Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íslenskt menntakerfi sækir fram

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti Svíþjóð í vikunni ásamt fulltrúum frá Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Menntamálastofnun, Samfés, samtökunum Heimili og skóla, skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og menntavísindasviðum Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér menntaumbætur sem sænsk stjórnvöld hafa ráðist í undanfarin ár og skilar þeim góðum árangri. Mótun nýrrar menntastefnu Íslands til 2030 stendur nú yfir en hún ávarpar og setur í forgang þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í mennta- og velferðarmálum.

„Þetta var gagnleg ferð í mörgu tilliti og mikilvæg þeirri vinnu sem nú stendur yfir vegna nýrrar menntastefnu. Með í för var fagfólk sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu á ólíkum sviðum menntamála, og við fengum greinargóðar og nytsamlegar upplýsingar og ákveðinn innblástur í þessari ferð. Ég hef trú á því að með góðu samstarfi og viljann að vopni munum við ná miklum árangri með íslenskt menntakerfi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Í heimsókninni fundaði ráðherra með Önnu Ekström menntamálaráðherra Svíþjóðar og Roger Haddad varaformanni menntamálanefndar sænska þingsins. Meðal annarra viðkomustaða hópsins voru menntamálastofnun Svía (s. Skolverket), skólaeftirlitsstofnun þeirra (s. Skolinspektionen) og skóla- og menntasvið Stokkhólms. Þá fór hópurinn einnig í heimsókn í Oxhagsskóla sem hefur vakið athygli fyrir góðan árangur en 98% nemenda þar hafa sænsku sem annað móðurmál, þar er lögð mikil áhersla á lestur og að fá til sín hæfa og reynda kennara.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta