Frumvarp um kæruheimild vegna athafna og athafnaleysis í kynningu
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi um sérstaka kæruheimild vegna athafna og athafnaleysis. Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um mat á umhverfisáhrifum, lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Breytingin er tilkomin vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við innleiðingu á tilskipun um mat á umhverfisáhrifum.
Með frumvarpinu er kveðið á um sérstaka kæruheimild vegna athafna- og athafnaleysis í tengslum við þátttökuréttindi almennings vegna ferils mats á umhverfisáhrifum framkvæmda. Undir þátttökuréttindin fellur m.a. réttur til upplýsinga um framgang máls, réttur til að gera athugasemdir og til að þær séu teknar til skoðunar við afgreiðslu máls. Einnig felur frumvarpið í sér breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er gerð skýrari.
Frestur til að skila umsögnum um frumvarpsdrögin er til 24. mars nk. og má senda þær á netfangið [email protected] eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.
Drög að frumvarpi um sérstaka kæruheimild vegna athafna og athafnaleysis (pdf)