Kenningunni um að þróunarsamvinna dragi úr fólksflutningum kollvarpað?
Kenningar um að þróunarfé nýtist í því skyni að sannfæra fólk um að halda kyrru fyrir í eigin landi eru dregnar í efa í nýrri rannsókn. Leiddar eru líkur að því að stefnan geti haft þveröfug áhrif og aukið fólksflutninga. Rannsóknin var unnin af þróunarhagfræðingunum Michael Clemens og Hannah Postel fyrir fræðasetrið Center for Global Development.
Getur þróunaraðstoð dregið úr fólksflutningum? (Can Development Asssistance Deter Migration?) er heiti ritgerðarinnar þar sem grundvallar kenningunni, sem sögð er vera stefna Evrópusambandsins, er kollvarpað, eins og segir í frétt The Guardian.
Höfundarnir segja í kynningu á rannsókn sinni að stofnanir í alþjóðlegri þróunarsamvinnu hafi fengið skipunina að draga úr fólksflutningum frá fátækum ríkjum í ljósi flóttamannastraumsins yfir Miðjarðarhafið og að landamærum Bandaríkjanna í suðvestri. Þeir benda á að Evrópusambandið hafi til dæmis heitið þremur milljörðum evra til þróunarsamvinnu í því skyni að ráðast að rót þessa vanda. Að mati höfundanna þarf þróunarsamvinna að hafa sérstakar og víðtækar breytingar í för með sér til þess að draga úr fólksflutningum. Þess sjáist ekki merki. Ekki sé heldur sjáanlegur munur á nýtingu þróunarfjár í löndum þar sem fólksflutningar eru tíðir og í öðrum þróunarríkjum.
„Þróunarsamvinna getur aðeins í takmörkuðum mæli stuðlað að hagvexti, atvinnu og öryggi. Að auki hefur árangursrík þróun í nærfellt öllum fyrrverandi lágtekjuríkjum leitt til aukinna fólksflutninga. Í þriðja lagi benda rannsóknir okkar til þess að framlagsríki gætu náð meiri áhrifum með því að draga úr viðleitni til að hefta fólksflutninga og leggja fremur áherslu á það að móta gagnkvæman ávinning,“ segja höfundarnir.
Foreign aid 'less effective than expected' at curbing migration, study says/ The Guardian
Deterring Emigration with Foreign Aid: An Overview of Evidence from Low-Income Countries/ CGDev