Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2024 Matvælaráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðuneyti láta vinna tillögu að útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa

Matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, í samstarfi við Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), hafa sett af stað vinnu við útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu í áhættuflokki eitt með það að markmiði að koma þeim í viðeigandi úrvinnslu eða förgun.

Aukaafurðir úr dýrum flokkast í þrjá áhættuflokka sem segja til um meðhöndlun svo tryggja megi öryggi lokaafurðar og leyfilega notkun hennar. Ef efni úr þessum flokkum blandast saman fellur öll blandan í sama áhættuflokk og áhættumesta efnið í blöndunni. Almenna reglan er sú að þeir rekstraraðilar sem dýraleifar falla til hjá bera ábyrgð á flutningi leifanna til meðhöndlunar ásamt kostnaði vegna meðhöndlunar.

Viðkomandi sveitarstjórn ber að ákveða fyrirkomulag söfnunar á ónýttum dýraleifum sem ætlunin er að meðhöndla sem úrgang og enda í gasgerð, jarðgerð, brennslu eða urðun. Sveitarstjórnum ber einnig að sjá til að starfræktar séu móttöku– og söfnunarstöðvar fyrir dýraleifarnar, eftir atvikum í samstarfi við aðrar sveitarstjórnir eða aðra. Sérstakar reglur gilda um hræ af dýrum sem felld eru að fyrirskipun stjórnvalda til að útrýma eða hindra útbreiðslu sjúkdóma og ber ríkið þá ábyrgð.

Tillagan verður unnin í samstarfi við finnska ráðgjafa fyrirtækið GMM og byggir á hugbúnaði og verklagi sem notað er bæði í Finnlandi og Noregi. Eins og fyrr segir er málefnið samkvæmt lögum fyrst og fremst á ábyrgð rekstraraðila og sveitarfélaganna en aðgerð þessi er liður í viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA sem og úrskurði EFTA dómstólsins um að Ísland hafi ekki uppfyllt skyldur sínar skv. EES-samningnum. Áætlað er að tillagan liggi fyrir í byrjun sumars.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta