Hoppa yfir valmynd
24. september 2010 Innviðaráðuneytið

Þriðjungur starfsmanna hefur skrifað undir samgöngusamning

Um þriðjungur starfsmanna samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins hafa nú skrifað undir samgöngusamninga en þeir fyrstu voru gerðir 5. maí síðastliðinn.

Um þriðjungur starfsmanna samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins hafa skrifað undir samgöngusamning.
Um þriðjungur starfsmanna samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins hafa skrifað undir samgöngusamning.

Í tilefni af samgönguviku sem nú er á enda má minna á að tilgangur samgöngusamninga er að hvetja starfsmenn til vistvæns samgöngumáta.

Meðal þeirra sem skrifuðu undir samgöngusamning er Marta Birna Baldursdóttir, skjalastjóri ráðuneytisins, og hvetur hún aðra til að gera það einnig. ,,Ég hef tileinkað mér lífsstíl án bíls og eftir að hafa búið erlendis og kynnst almenningssamgöngum finnst mér það sjálfsögð leið að nýta þær eða ganga eða hjóla í vinnu,” segir Marta Birna. Samgöngusamningur kveður á um að starfsmenn sem afsala sér rétti til að fá afnot af bílastæði á kostnað ráðuneytisins fái þess í stað árlegan styrk sem nemur andvirðiu árskorts í strætó en starfsmönnum er einnig frjálst að nota annan samgöngumáta.

Marta Birna bendir á að það sé í hæsta máta eðlilegt að í ráðuneyti samgöngumála, þar sem er meðal annars á stefnuskrá að hvetja til aukinnar notkunar á almenningssamgöngum, gangi starfsmenn á undan með góðu fordæmi. ,,Með því að starfsmenn eru með styrk hvattir til að ferðast á umhverfisvænan hátt leggjum við okkar að mörkum í þágu umhverfisins fyrir utan hvað þetta er þægileg og holl hreyfing. Þess vegna get ég hvatt alla sem geta nýtt sér þessar leiðir að gera það. Ég notaði styrkinn sem greiðslu uppí reiðhjól og fyrir utan að sækja vinnu á hjólinu er hentugt að geta farið á fundi á hjólinu ef því er að skipta og það hef ég notað talsvert.”

Ekki er Marta Birna eini starfsmaðurinn sem sækir reglulega vinnu á hjóli því að minnsta kosti þrír aðrir hjóla á milli og býr einn þeirra við Grafarvoginn. Aðrir koma gangandi úr næsta nágrenni og nokkrir nýta strætisvagna. Þeim fer því fækkandi sem ferðast til og frá vinnu í einkabíl.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur einnig fest kaup á reiðhjóli sem starfsmenn nota til að sækja fundi vegna starfa sinna og hefur það gefist vel í sumar. Þeir sem ekki nýta reiðhjólið ferðast í strætó eða leigubíl ef um lengri leið er að fara.

Um þriðjungur starfsmanna samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins hafa skrifað undir samgöngusamning.

Marta Birna Baldursdóttir er hér á sínu hjóli og Jóhannes Finnur Halldórsson með fararskjóta ráðuneytisins. Jóhannes Finnur sækir vinnu með strætó frá Akranesi og notar hjólið til fundaferða vegna starfsins og ferðast þannig á ódýran hátt.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta