Sértækur húsnæðisstuðningur við íbúa í Grindavík framlengdur til ársloka
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja til við Alþingi að framlengja til ársloka því úrræði að veita íbúum í Grindavík sértækan húsnæðisstuðning.
Lög um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ nr. 94/2023 voru samþykkt á Alþingi í desember 2023. Markmið þeirra er að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga, en bera á sama tíma kostnað af eignum sínum í Grindavík sem þau geta ekki nýtt. Lögin gilda til 31. ágúst nk., en nú hefur verið ákveðið að leggja til við Alþingi að framlengja gildistíma þessa úrræðis til loka þessa árs.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra: „Framlenging þessa úrræðis til ársloka er mikilvægt skref í þá átt að auka húsnæðisöryggi Grindvíkinga á krefjandi tímum.“
Meirihluti íbúðareigenda í Grindavík hefur nú óskað eftir því að Þórkatla kaupi fasteignir sínar og því má ætla að þörf fyrir þetta úrræði minnki í ljósi þess að þeim fækkar sem ekki bera lengur tvöfaldan húsnæðiskostnað.
- Sértækur húsnæðisstuðningur var fyrst kynntur (frétt 24. nóvember 2023)
- Sértækur húsnæðisstuðningur uppfærður (frétt 22. janúar 2024)