Opinbert hlutafélag um nýja spítalann
Opinbert hlutafélag vegna byggingar nýs Landspítala við Hringbraut tekur til starfa í júlí. Alþingi samþykkti í dag frumvarp sem kveður á um stofnun félagsins, en góð samstaða var um málið í þinginu.
Gert er ráð fyrir því að nýja félagið hefji rekstur 1. júlí næstkomandi. Tilgangur þess er að standa að undirbúningi og útboði á byggingu nýs Landspítala. Markmiðið er að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu þegar byggingaverktaki hefur lokið umsömdu verki.
Áætlanir gera ráð fyrir að heildarkostnaður við verkið verði um 51 milljarður króna, þar af um 33 milljarðar króna til nýbygginga og 7 milljarðar króna í tækja- og búnaðarkaup. Auk þess er gert ráð fyrir að 11 milljarðar króna fari í endurbætur á núverandi húsnæði spítalans við Hringbraut sem nýtt verður áfram undir rekstur hans.
Ein veigamikil breyting var gerð á frumvarpinu í meðförum Alþingis. Í henni felst að leigusamningar sem fela í sér endurgreiðslu kaupverðs og þóknun til leigusala verði lagðir fyrir fjárlaganefnd og Alþingi áður en verkefninu verður endanlega hleypt af stokkunum. Markmiðið með þessu er að þingið geti lagt mat á hvort þær forsendur sem lagt var upp með standist og skuli því leita samþykkis Alþingis með almennum lögum fyrir undirritun samninga að loknu útboði. Ekki verði því heimilt að hefja framkvæmdir fyrr en Alþingi hefur heimilað þær með lögum.