Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 81/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. febrúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 81/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21120051

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 24. desember 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. desember 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. Gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 13. september 2021. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 13. og 26. október 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 6. desember 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 24. desember 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 13. janúar 2022. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu sökum aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi sem og vegna ofsókna af hálfu hryðjuverkahópsins […].

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi starfað sem […] í heimabæ sínum […] í Sómalíu. Hann tilheyri ættbálkinum […] sem sé minnihlutahópur sem vinni flest óeftirsóknarverðustu störfin í Sómalíu. Kærandi hafi greint frá því að meðlimir […] samtakanna hafi reglulega komið á hársnyrtistofu hans til að innheimta svokallað Zakat gjald, sem nýtist að sögn kæranda eingöngu samtökunum en ekki nærsamfélaginu í kring. Þrátt fyrir að meðlimir samtakanna haldi því fram að peningarnir komi til með að gagnast fólkinu sé það ekki raunin, heldur sé féð notað í hryðjuverkastarfsemi. Þá hafi kærandi einnig greint frá því að hann hafi þjónustað opinbera starfsmenn á hársnyrtistofu sinni. Í ársbyrjun 2019 hafi kærandi verið hnepptur í hald meðlima […] vegna ásakana um að hafa brotið af sér með margvíslegum hætti. Honum hafi fyrst verið gefið að sök að dreifa trúarbrögðum öðrum en íslam, sem og að brjóta gegn íslamskri trú með starfi sínu, en samkvæmt kæranda séu eingöngu vissar klippingar boðlegar í hinu íslamska ríki […]. Kærandi hafi einnig verið sakaður um að þjónusta opinbera starfsmenn og fela peninga ætluðum í greiðslur á Zakat.

Í kjölfar ásakananna hafi kærandi verið dæmdur til dauða af íslömskum dómstól. Kærandi hafi getað komist hjá því með því að ganga til liðs við samtökin og taka upp íslamtrú. Kærandi hafi fengið umhugsunarfrest í haldi samtakanna en þá sætt pyndingum. Meðlimir […] hafi lagt teppi yfir andlit hans og hellt yfir hann köldu vatni, sem og barið fætur hans. Þrátt fyrir það hafi kærandi neitað að starfa með samtökunum, en að lokum látið til leiðast svo hann gæti séð fjölskyldu sína aftur. Kærandi sé óviss um hve lengi hann hafi verið í haldi samtakanna en að hann giski á um tvo mánuði. Eftir að kærandi hafi komist í samband við fjölskyldu sína hafi hann farið í felur. Þrír meðlimir samtakanna hafi fundið hann og gert tilraun til að skera hann á háls. Kærandi hafi borið hendur sínar fyrir sig svo hann hafi hlotið skurð á hendi. Árásarmennirnir hafi flúið vettvang þegar annað fólk hafi borið að en skilið kæranda eftir liggjandi í blóði sínu. Vegna ótta við ofsóknir […] hafi kærandi yfirgefið heimaríki sitt í kringum septembermánuð 2020 og komið hingað til lands hinn 13. september 2021.

Í greinargerð kæranda koma fram ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. er varða trúverðugleikamat stofnunarinnar. Kærandi telur Útlendingastofnun hafa brotið ýmsar reglur, m.a. málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar og málsmeðferðarreglur laga um útlendinga. Þá hafi ákvörðunin verið efnislega röng og í andstöðu við bæði lögmætisreglu og form- og efnisreglur stjórnsýsluréttarins. Jafnframt hafi aðgerðir Útlendingastofnunar farið gegn lögum og alþjóðlegum skuldbindingum. Rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið ófullnægjandi, sem og rökstuðningur stofnunarinnar og sé það til marks um að brotnar hafi verið öryggisreglur stjórnsýslulaga. Kærandi telur að ákvörðun Útlendingastofnunar brjóti m.a. í bága við rannsóknarregluna, leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, lögmætisreglu, réttmætisreglu, jafnræðisreglu og regluna um skyldubundið mat stjórnvalda.

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Kærandi telur að ákvörðun Útlendingastofnunar sé ógildanleg bæði samkvæmt almennum mælikvarða vegna brots á öryggisreglum en einnig samkvæmt sérstökum mælikvarða vegna þess að brot á málsmeðferðarreglum hafi leitt til rangrar niðurstöðu. Þá sé ákvörðunin jafnframt ógildanleg sjálfstætt vegna þess að hin ranga niðurstaða sé í andstöðu við framangreindar efnisreglur og þar með lögmætisreglu og réttmætisreglu.

Kærandi byggir á því að hann hafi skýrt ósamræmi í frásögnum sínum með rökréttum og trúverðugum hætti. Hann tali ekki góða ensku og hafi verið mikið niðri fyrir og stressaður við komu sína til landsins. Telur kærandi að lögreglan hafi ekki sinnt skýrslutöku sinni með fullnægjandi hætti og að láta kæranda bera hallann af því sé ósanngjarnt og ómannúðlegt. Kærandi hafi útskýrt allan misskilning á sannfærandi og rökréttan hátt. Kæranda hafi ekki verið tilkynnt um réttindi sín á tungumáli sem ætla megi með sanngirni að hann skilji, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um útlendinga, og telur kærandi rétt að stjórnvöld beri hallann af því. Þá gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi metið frásögn kæranda, um árás sem hann hafi orðið fyrir af hálfu þriggja manna, ótrúverðuga.

Kærandi mótmælir staðhæfingu Útlendingastofnunar um að heimaþorp kæranda sé á yfirráðasvæði ríkisstjórnar Sómalíu. Í skýrslunni sem Útlendingastofnun vísi til í því samhengi komi þvert á móti fram að […] sé með yfirráð yfir stórum hluta Sómalíu í suðurhluta landsins og fyrir miðju þess. Sómalska ríkisstjórnin og bandamenn hennar hafi náð á sitt band tveimur þorpum, þ.e. […] og […], en heimabær kæranda nefnist […]. Með vísan til korts sem fram komi í tilvísaðri heimild Útlendingastofnunar sé miklu heldur ástæða til að leggja til grundvallar að heimabær kæranda sé á yfirráðasvæði […] samtakanna. Þar að auki mótmælir kærandi röksemdarfærslu Útlendingastofnunar þess efnis að sökum nálægðar heimaþorps kæranda við borgina […] megi gera ráð fyrir því að aðstæður þar séu með sambærilegum hætti. Með sömu röksemdarfærslu megi segja að vegna nálægðar Gaza-svæðisins við Tel Aviv megi leggja til grundvallar að ástandið á Gaza sé sambærilegt því í Tel Aviv. Nálægð heimaþorps kæranda við höfuðborg Sómalíu hafi ekkert að segja um ástandið í þorpinu. Þá gerir kærandi athugasemd við mat stofnunarinnar að almennum borgurum stafi almennt ekki ógn af […]. Kærandi mótmælir jafnframt því að eina ástæða flótta hans hafi verið vegna ofsókna […]. Kærandi tilheyri einnig minnihlutahópi og bjóðist kæranda ekki úrræði í heimaríki sem geti tryggt honum vernd.

Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni, andmælarétti kæranda og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar með því að hafa komist að þeirri niðurstöðu að frásögn kæranda væri ótrúverðug án þess að gera tilraun til að afla gagna eða kalla kæranda til viðtals. Útlendingastofnun hafi jafnframt virt að vettugi skyldu sína til að meta vafa kæranda í hag. Þá hafi stofnunin ekki tekið nægt tillit til framlagðra gagna sem sýni ör eftir ofsóknir sem kærandi hafi sætt af hálfu […].

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að sæta alvarlegum skaða, þ.e. ofbeldi, pyndingum, frelsissviptingu og jafnvel að verða tekinn af lífi sökum aðildar sinnar að minnihlutaættbálki sem og vegna þvingana til að ganga til liðs við [..].

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um öryggisástand í Sómalíu, m.a. um þá ógn sem stafi af […], stöðu minnihlutahópa og liðhlaupa […].

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þar komi fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í greinargerð kæranda kemur fram að gróf mannréttindabrot eigi sér stað í Sómalíu og að kærandi geti ekki treyst á vernd stjórnvalda. Þá sé ljóst að kærandi sjái fram á erfiðar félagslegar aðstæður verði honum gert að snúa aftur. Þá verði að horfa til þess að á tímum heimsfaraldurs sé heilbrigðiskerfið í Sómalíu afar veikburða.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð mála. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann beri fyrir sig.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera fæddur og uppalinn í þorpinu […] í Suður-Sómalíu. Ráða má af ákvörðun Útlendingastofnunar að það hafi verið lagt til grundvallar. Útlendingastofnun taldi kæranda hins vegar ekki hafa tekist að sýna fram á að hann ætti á hættu að sæta ofsóknum í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga né eiga á hættu að sæta meðferð sem félli undir 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Í rökstuðningi Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að heimaþorp kæranda, sem tilheyri neðra-Shabelle umdæmi (e. Lower Shabelle region) í Sómalíu, sé í um það bil sjötíu til níutíu kílómetra fjarlægð frá höfuðborg Sómalíu, Mogadishu, þar sem öryggisástand hafi farið batnandi á undanförnum árum. Því var það mat Útlendingastofnunar, í ljósi tiltölulega stuttrar fjarlægðar milli þessara tveggja staða, að ætla mætti að ástandið í heimaþorpi kæranda væri sambærilegt því sem viðgengist í Mogadishu. Þá vísar Útlendingastofnun í ákvörðun sinni m.a. til skýrslu útlendingaeftirlits Danmerkur og tekur fram að sómölsku ríkisstjórninni hafi tekist að ná völdum af […] í neðra-Shabelle umdæmi og fari nú með völd þar.

Kærunefnd gerir athugasemd við framangreint mat Útlendingastofnunar. Í þeim heimildum sem kærunefnd hefur skoðað, m.a. skýrslu útlendingaeftirlits Danmerkur frá 2017 sem Útlendingastofnun vísar til í ákvörðun sinni, kemur fram að […] fari með yfirráð yfir flestum dreifbýlissvæðum í Suður- og Mið-Sómalíu, m.a. bæjum og þorpum í neðra-Shabelle umdæmi. Sómalska ríkisstjórnin fari hins vegar með yfirráð yfir Mogadishu að mestu leyti þrátt fyrir að […] hafi talsverð ítök þar. Að mati kærunefndar samrýmist það ekki skilyrðum rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar að byggja mat á aðstæðum í heimaþorpi kæranda, sem staðsett er í dreifbýli í neðra-Shabelle umdæmi, á aðstæðum í höfuðborg landsins, sem er stórborg í öðru umdæmi. Ljóst er að aðstæður geti verið mjög breytilegar eftir landsvæðum, óháð fjarlægð. Þá bera heimildir skýrlega með sér að þorp, einkum í Suður-Sómalíu, séu mun berskjaldaðri fyrir árásum af hálfu […] en t.a.m. Mogadishu. Samkvæmt landakorti Mapcarta er þorpið […] í um 90 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Mogadishu eða í tæplega tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá borginni.. Með vísan til framangreinds tekur kærunefnd ekki undir það með Útlendingastofnun að álykta megi að aðstæður í heimaþorpi kæranda séu sambærilegar aðstæðum í Mogadishu.

Þá gerir kærunefnd alvarlega athugasemd við tilvísun Útlendingastofnunar í skýrslu útlendingaeftirlits Danmerkur. Í ákvörðun sinni fullyrðir Útlendingastofnun að fram komi í skýrslunni að sómölsku ríkisstjórninni hafi tekist að ná völdum af […] á nýjan leik í neðra-Shabelle umdæmi. Sú fullyrðing Útlendingastofnunar er bæði villandi og röng, en í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að sómalska ríkisstjórnin hafi náð völdum yfir tveimur tilteknum þorpum í neðra-Shabelle umdæmi og er heimaþorp kæranda ekki þar á meðal. Samkvæmt skýrslunni er því meiri hluti umdæmisins enn undir yfirráði hryðjuverkasamtakanna. Ekki verður betur séð en að heimaþorp kæranda sé þar á meðal þegar horft er til landakorts Political Geography Now sem sýnir hvar ítök hryðjuverkasamtakanna voru í desember 2021.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar bera framangreind vinnubrögð Útlendingastofnunar í máli kæranda með sér að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á aðstæðum kæranda með hliðsjón af aðstæðum í heimaþorpi hans. Telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar. Rökstuðningur ákvörðunar í máli kæranda er, með vísan til framangreinds, enn fremur ekki í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur þessa annmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar verulega og að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar. Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um aðra þætti ákvörðunar Útlendingastofnunar.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta