Ávarpaði ráðstefnu um stafræna tækniþróun í flutningageiranum
Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ávarpaði í dag ráðstefnu Samtaka verslunar og þjónustu um stafræna tækniþróun í flutningageiranum. Á ráðstefnunni voru flutt erindi um flutningatækni, aðfangastjórnun og mikilvægi skilvirks flutningakerfis.
Með ráðstefnunni leitast SVÞ við að skoða hvað flutningafyrirtæki geti lært af tækni- og nýsköpunarfyrirtækjum til að gera stafræna þjónustu einfaldari og notendavænni. Fyrirlesarar voru þau Sofia Fürstenberg, framkvæmdastjóri hjá nýsköpunarfyrirtækinu BLOC, Anne-Claire Blet, einn af framkvæmdastjórum fyrirtækisins What3words og Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ.
Jón Gunnarsson ræddi meðal annars í ávarpi sínu um breytingar á viðskiptaháttum og hvernig tækniframfarir síðustu áratuga hafa breytt viðskiptaumhverfi fyrirtækja. Hann sagði ný störf verða til og önnur leggjast af og nefndi sem dæmi að með aukinni tækniþróun í fiskvinnslu þyrfti færri starfsmenn en áður til að vinna jafnvel meira verðmæti úr hráefninu. Þá sagði hann vinnumarkaðinn þurfa að laga sig að þessum breytingum og að mikilvægt væri að menntakerfið gæti boðið tæknimenntun þar sem hin stafræna þróun væri annars vegar.