Fyrstu áfangaskýrslur í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð komnar á vefinn
Áfangaskýrslur ráðuneyta og stofnana sem unnið hafa að meginmálaflokkum með aðferðum kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar eru komnar út.
Greind eru kynjaáhrif af rúmlega 150 mia.kr. veltu fjárlaga.
Innleiðing kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar (KHF) hófst á Íslandi árið 2009 og voru í fyrstu unnin tilraunaverkefni á vegum ráðuneyta. Í apríl 2011 samþykkti ríkisstjórnin þriggja ára áætlun um innleiðingu KHF. Aðgerðirnar miða annars vegar að því að nota KHF sem greiningartæki og ramma utan um verkefni. Hins vegar er unnið að því að skapa þá umgjörð sem til þarf svo KHF verði samþætt allri stefnumótunarvinnu, ákvarðanatöku og daglegum störfum innan stjórnsýslunnar.
Meginmálaflokkarnir komu í kjölfarið á tilraunaverkefnum sem unnin voru á árunum 2010-2011 en þau voru fyrsta skrefið í að þróa tæki og aðferðir fyrir Ísland ásamt því að byggja upp þekkingu og efla vitund um mikilvægi kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar.
Undanfarið ár hafa öll ráðuneytin unnið að meginmálaflokkunum, en alls eru þeir tíu talsins. Verkefnin eru afar fjölbreytt og leiða mörg hver í ljós töluverðan mun á stöðu kynjanna. Í töflunni hér á eftir er að finna yfirlit yfir verkefnin og niðurstöður úr fyrsta áfanga.
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2013 er að finna greinargerð um framvindu KHF. Þar kemur fram að á fyrstu árum innleiðingarinnar megi merkja vitundarvakningu um mikilvægi þess að greina hvaða áhrif öflun og ráðstöfun opinberra fjármuna hefur á stöðu og möguleika kynjanna. „Eitt af markmiðunum með KHF er að skapa þekkingu sem stuðlar að upplýstari ákvörðunum og þar með að betri nýtingu opinberra fjármuna og betri efnahagsstjórn. Verkefnin sem unnin hafa verið á síðastliðnum tveimur árum hafa leitt til betri þekkingar og greiningar á kynjasjónarmiðum en þau hafa einnig leitt í ljós ýmsar hindranir, s.s. að víða er skortur á kyngreindum gögnum. Miðað er við að lokaskýrslur fyrir meginmálaflokka ráðuneytanna verði tilbúnar um mitt ár 2014 og er mikilvægt að marka næstu skref áður en þeim lýkur. Á árinu 2013 verður innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar haldið áfram í samræmi við þriggja ára áætlun,“ segir í greinargerðinni.
Ráðuneyti og verkefni | Fyrstu niðurstöður |
---|---|
Forsætisráðuneytið: Mat á jafnréttisáhrifum stjórnarfrumvarpa | Unnið er að kafla í handbók. |
Mennta- og menningarmálaráðuneytið: Háskólar og rannsóknir, sérstaklega rannsóknasjóðir þar sem samkeppni er um fé og umgjörð þeirra | Verið er að kortleggja tölfræði. Í þeim sjóðum sem búið er að afla gagna fyrir er árangurshlutfall karla að jafnaði hærra en kvenna, með nokkrum undantekningum þó. |
Utanríkisráðuneytið: Þróunarsamvinna | Markmið utanríkisráðuneytisins er að hlutfall eyrnamerktra framlaga til þróunarsamvinnu sem ætlað er að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna sé ekki lægra en 75%. Árið 2011 var hlutfallið 79,4% |
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið: Búnaðarsamningar, nánar tiltekið beingreiðslur vegna mjólkurframleiðslu | Árið 2011 er hlutfall karla sem handhafa beingreiðslna 82,5%, hlutfall kvenna er 8,7% og blandað hlutfall 8,8%. |
Innanríkisráðuneytið: Gjafsóknir og önnur opinber réttaraðstoð | Konur frá frekar gjafsókn en karlar og má ætla að það sé vegna þess að þær eru líklegri til að vera undir lágtekjumörkum. Konur fá gjafsókn vegna þess að fjárhagur þeirra var undir viðmiðunarmörkum í 82,5% tilvika á móti 76,7% tilvika karla. Karlar fá frekar lögbundna gjafsókn, eða 20,8% tilvika en konur í 15,5% tilvika. Konur fá oftar gjafsókn sem er takmörkuð við tiltekna fjárhæð, eða í 38,8% tilvika, á meðan karlar fá slíka takmörkun í 22,6% tilvika. |
Velferðarráðuneytið: Málefni aldraðra, nánar tiltekið aldraðir í hjúkrunarrýmum á hjúkrunarheimilum | Greiðsluþátttaka karla í rekstri hjúkrunarrýma er meiri að meðaltali en kvenna. Athyglisvert var einnig að sjá að konur eru í meirihluta þeirra sem ekkert greiða til rekstursins eða 72%. Það rennir frekari stoðum undir að tekjumunur karla og kvenna sem dvelja í hjúkrunarrými er nokkur. |
Fjármálaráðuneytið: Greining á kynjaáhrifum virðisaukaskattskerfisins | Hlutdeild karla í álögðum virðisaukaskatti er nokkuð meiri en nemur hlutfallslegum fjölda þeirra í álagningarskrá sem við fyrstu sýn bendir til þess að karlar séu að jafnaði nokkuð umsvifameiri en konur, hvort sem um einstaklinga eða lögaðila er að ræða. |
Iðnaðarráðuneytið: Styrkjaúthlutun úr sjóðum iðnaðarráðuneytis sem ætlað er að styðja við atvinnulíf og nýsköpun | Ráðgert er að fyrstu niðurstöður verði tilbúnar í lok september samkvæmt verkáætlun. |
Efnahags- og viðskiptaráðuneytið: Efnahagsmál | Í fyrstu áfangaskýrslu ráðuneytisins er tekið dæmi um mælikvarða og hvernig nota má þá til að greina stöðu kynjanna og til stefnumótunar í þessu tilfelli á mótun atvinnu-stefnunnar bæði m.t.t. atvinnuþátttöku, aðgreindum vinnumarkaði og byggðasjónarmiðum. |
Umhverfisráðuneytið: Loftslagsmál og kynjaáhrif þeirra | Kynjagreiningin á aðgerðaráætlun ríkis-stjórnarinnar í loftslagsmálum leiddi í ljós að aðgerðir sem boðaðar eru í áætluninni skapa einkum störf á karllægum sviðum svo sem í landbúnaði og við ýmsa véla- og tæknivinnu. Einnig kom í ljós að svokölluð vistspor kvenna eru minni en karla sem þýðir að lífsstíll kvenna er mun umhverfisvænni en karla. Þannig nota konur til dæmis frekar almenningssamgöngur en karlar og aka vistvænni bifreiðum. |