Hoppa yfir valmynd
18. mars 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp til barnaverndarmála

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


Helstu nýmæli í frumvarpi til barnaverndarlaga:


a) Meginreglur í barnaverndarstarfi.
Dregnar eru saman meginreglur sem leggja ber til grundvallar í öllu barnaverndarstarfi. Er þar lögð áhersla á réttindi barna og önnur þau grundvallarsjónarmið sem barnaverndaryfirvöldum ber að hafa að leiðarljósi í störfum sínum.

b) Úrskurðarvald í barnaverndarmálum.
Lagt er til það mikilvæga nýmæli að úrskurðarvald í málum vegna sviptingar forsjár flytjist frá barnaverndarnefnd til dómstóla. Einnig er gert ráð fyrir atbeina dómstóla í fleiri tilvikum, enda sé um að ræða ráðstafanir gegn vilja foreldris. Af breytingu þessari leiða enn fremur aðrar breytingar, svo sem sérstakir kaflar um málsmeðferð fyrir dómi og stofnun kærunefndar barnaverndarmála.

c) Kærunefnd barnaverndarmála.
Komið verði á fót kærunefnd barnaverndarmála. Barnaverndarráð verði lagt niður. Þessi breyting helst í hendur við það að frumúrskurðarvald í forsjársviptingarmálum og öðrum málum sem fela í sér hliðstæða skerðingu réttinda verði hjá dómstólum. Til kærunefndar barnaverndarmála má skjóta úrskurðum barnaverndarnefnda.

d) Framkvæmdaáætlanir sveitarstjórna á sviði barnaverndar.
Gert er ráð fyrir að sveitarstjórn skuli fyrir hvert kjörtímabil gera framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar. Með því móti verði stuðlað að því að sveitarstjórn setji sér skýr markmið og vinni að framgangi þeirra.

e) Efling og stækkun barnaverndarumdæma.
Lagt er til að íbúafjöldi að baki hverri barnaverndarnefnd verði ekki undir 1500. Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra verði fengnar tilteknar heimildir til að hlutast til um að barnaverndarnefndir sem fullnægja skilyrðum laganna verði settar á fót.

f) Ráðstafanir barnaverndarnefnda.
Lagðar eru fram róttækar breytingar á framsetningu og flokkun ákvæða um ráðstafanir barnaverndarnefnda frá því sem nú er. Er það gert í því skyni að nefndunum verði gert auðveldara fyrir í vinnu sinni.

g) Upphaf barnaverndarmáls.
Leitast er við að gera ákvæði um upphaf barnaverndarmála mun skýrari en nú er. Gerður er skýr greinarmunur á þeirri ákvörðun barnverndarnefndar að hefja könnun máls annars vegar og öðrum ákvörðunum sem nefndin tekur hins vegar.

h) Afskipti barnaverndarnefnda af þunguðum konum.
Nýmæli er að sett verði sérstakt ákvæði í barnaverndarlögum sem heimili barnaverndarnefnd að hafa afskipti af þunguðum konum. Í fyrsta lagi er lagt til að barnaverndarnefnd geti hafið rannsókn máls vegna tilkynninga sem varða þungaðar konur. Leiði rannsókn síðan í ljós að þunguð kona kunni að stofna heilsu eða lífi ófædds barns síns í hættu með líferni sínu skuli barnaverndarnefnd beita úrræðum laganna.
Tekið skal fram að í reynd hafa gildandi lög verið túlkuð svo að þau heimili afskipti nefndanna að einhverju leyti af slíkum málum og vísast í því efni jafnframt til lögræðislaga. Nýmælið felst því fyrst og fremst í því að um þetta atriði sé kveðið með beinum hætti í barnaverndarlögum.

i) Upplýsingar úr sakaskrá vegna brota gegn börnum.
Nýmæli er að gert er ráð fyrir að Barnaverndarstofa skuli eiga rétt á upplýsingum úr sakaskrá um menn sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga ef brot hefur beinst gegn einstaklingi undir 18 ára. Um er að ræða kynferðisbrot og önnur brot gegn börnum.
Jafnframt er gert ráð fyrir að yfirmenn stofnana þar sem börn koma saman, svo sem skóla, leikskóla, sumaradvalarheimila o.fl., skuli eiga rétt á upplýsingum úr sakaskrá um það hvort tiltekinn maður, sem sótt hefur um störf á þeirra vegum, hefur hlotið dóm á grundvelli ákvæða á þessum sviðum.

j) Málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd.
Lagðar eru til ítarlegri reglur um meðferð mála fyrir barnverndarnefnd en er að finna í gildandi lögum. Einnig sérstakar reglur um málsmeðferð fyrir kærunefnd barnaverndarmála. Sérstök athygli er vakin á skyldu ýmissa aðila til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar.

k) Málsmeðferð fyrir dómi.
Tveir kaflar frumvarpsins fjalla um málsmeðferð fyrir dómi. Ákvæðin eru að öllu leyti nýmæli enda hefur ekki fyrr verið gert ráð fyrir því í íslenskum lögum að barnaverndarmál væru rekin fyrir dómi. Málin sem rekin verða fyrir dómi eru ólík að eðli og er þeim því skipt í tvo flokka.

l) Barn sem aðili máls.
Lagt er til að barn sem náð hefur 15 ára aldri sé aðili barnaverndarmáls. Þetta er mikilvægt nýmæli til að stuðla að því og treysta réttarstöðu barna í barnaverndarmálum.

m) Ákvæði um fóstur.
Lagt er til að fóstur verði nú skilgreint með nokkuð öðrum hætti en í núgildandi lögum. Með fóstri er í frumvarpinu átt við að barnaverndarnefnd feli sérstökum fósturforeldrum umsjá barns í a.m.k. þrjá mánuði. Af því leiðir að hugtakið "varanlegt fóstur" er ekki lengur notað. Ítarlegar reglur um fóstur er að finna í XII. kafla frumvarpsins.

n) Agaviðurlög og þvingun á heimilum og stofnunum.
Lagt er til sérstakt ákvæði um réttindi barna á meðferðarheimilum og stofnunum. Með nýmæli þessu er leitast við að setja lagaramma um beitingu þvingunarráðstafana inni á öllum heimilum og stofnunum sem reknar eru á grundvelli laganna.

o) Almenn verndarákvæði og þátttaka barna í fyrirsætu- og fegurðarkeppnum.
Helsta nýmælið er að kveða sérstaklega á um að skipuleggjendum og ábyrgðaraðilum fyrirsætu- og fegurðarsamkeppna og annarra keppna af því tagi, þar sem þátttakendur eru yngri en 18 ára, sé tilkynnt til Barnaverndarstofu. Þá er tekið fram að börnum yngri en 18 ára skuli óheimilt að taka þátt í nektarsýningum eða öðrum sýningum af kynferðislegum toga.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta