Samningur um þjónustu við fatlaða
Frá árinu 1997 hefur verið í gildi samningur milli félagsmálaráðuneytisins og Sveitarfélagsins Hornafjarðar um framkvæmd á þjónustu við fatlaða sem er á vegum ríkisins samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.
Samningurinn sem gerður er með heimild í 13. gr. laga um málefni fatlaðra og 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins gildir til 31. desember 2006.
Með samningnum tekur sveitarfélagið að sér verkefni Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi gagnvart íbúum sveitarfélagsins.
Árlegar greiðslur félagsmálaráðuneytisins til Sveitarfélagsins Hornafjarðar vegna samningsins eru um 16 m.kr.