Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 1999 Forsætisráðuneytið

86/1999 Úrskurður frá 17. nóvember 1999 í málinu nr. A-86/1999

Hinn 17. nóvember 1999 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-86/1999:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 18. október sl., kærði [A] hdl. synjun bæjarstjóra Seltjarnarneskaupastaðar og formanns stjórnar Hitaveitu Seltjarnarness, dagsetta 20. september sl., um að veita honum aðgang að upplýsingum um laun og launakjör [B], hitaveitustjóra.

Með bréfi, dagsettu 21. október sl., var kæran kynnt bæjarstjóra Seltjarnarneskaupstaðar og honum veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 29. október sl. Jafnframt var þess óskað að í umsögn kaupstaðarins kæmi fram á hvaða formi umbeðnar upplýsingar væru varðveittar og að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit viðkomandi gagna innan sama frests. Úrskurðarnefnd barst umsögn bæjarstjóra, dagsett 25. október sl., innan tilskilins frests ásamt umbeðnum gögnum.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að kærandi fór fram á með bréfi til bæjarskrifstofa Seltjarnarness, dagsettu 9. september sl., að fá ljósrit skjals, þar sem fram kæmu eftirtaldar upplýsingar um launakjör [B] hjá kaupstaðnum: 1. Föst laun, 2. föst yfirvinnulaun, 3. bifreiðastyrk og 4. aðrar fastar greiðslur sem jafnað yrði til fastra launa. Ef gögnin væri að einhverju leyti undanþegin aðgangi fór kærandi jafnframt fram á að beitt yrði 7. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 til að veita aðgang að þeim að öðru leyti.

Bæjarstjóri Seltjarnarneskaupstaðar synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 20. september sl. Þar kemur fram að bæjarstjóri sé jafnframt stjórnarformaður Hitaveitu Seltjarnarness og að [B] sé ekki starfsmaður kaupstaðarins, heldur Hitaveitunnar. Launalisti Hitaveitunnar sé sambærilegur launalista bæjarsjóðs og hafi að geyma upplýsingar sem varði starfsmanninn persónulega. Á þeim grundvelli sé beiðni kæranda hafnað.
Umsögn bæjarstjóra til úrskurðarnefndar, dagsettri 25. október sl., fylgdi afrit af launalista Hitaveitu Seltjarnarness, dagsettum 2. júlí sl. Þar er að finna þrjú nöfn, þ. á m. nafn [B]. Á listanum kemur fram að heildarlaun hans séu samanlagðar greiðslur fyrir mánaðarlaun, yfirvinnu, álagsvinnu og orlof. Með vísun til þessarar skiptingar fór úrskurðarnefnd fram á að upplýst yrði hverjar þessara greiðslna teldust til fastra launa og annarra fastra kjara hitaveitustjórans. Í svarbréfi bæjarstjóra til nefndarinnar, dagsettu 16. nóvember sl., segir m.a.: "Föst laun ofangreinds starfsmanns koma fram í fyrsta dálki launalista aðrar tölur eru breytilegar eftir vinnuframlagi hvers mánaðar."

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

1.

Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Við skýringu á gildissviði þeirra laga verður að taka mið af því að þau eru sérlög í samanburði við upplýsingalög, en síðarnefndu lögin kveða almennt á um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum stjórnvalda.

Í 1. gr. laga nr. 121/1989 segir orðrétt: "Lög þessi taka til hvers konar kerfisbundinnar skráningar og annarrar meðferðar á persónuupplýsingum. Lögin eiga við hvort heldur sem skráning er vélræn eða handunnin." Úrskurðarnefnd hefur litið svo á að gildissvið laganna sé einskorðað við kerfisbundna skráningu á persónuupplýsingum, hvort sem hún er vélræn eða handunnin, svo og við eftirfarandi meðferð á slíkum upplýsingum sem skráðar hafa verið með þeim hætti.

Samkvæmt því fellur aðgangur að einstökum skjölum utan gildissviðs laga nr. 121/1989 þótt þau hafi að geyma upplýsingar sem skráðar hafa verið með kerfisbundnum hætti. Þar með fer um aðgang að launalista Hitaveitu Seltjarnarness eftir upplýsingalögum, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna.

2.

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr."

Í 5. gr. laganna segir síðan: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á." Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, segir svo um skýringu á þessu ákvæði: "Að því er snertir laun opinberra starfsmanna þá eru upplýsingar um föst laun og önnur föst kjör opinberra starfsmanna ekki undanþegnar aðgangi almennings." Þegar allsherjarnefnd Alþingis afgreiddi frumvarpið frá sér til 2. umræðu er ennfremur svo að orði komist í áliti hennar: "Í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins kemur fram að ákvæði greinarinnar standi ekki í vegi fyrir því að almenningur fái aðgang að gögnum um föst laun og önnur föst launakjör opinberra starfsmanna. Að því leyti sem slík upplýsingagjöf fellur undir ákvæði frumvarps þessa en ekki ákvæði laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, leggur nefndin sérstaka áherslu á að skýra beri ákvæði 5. gr. svo að með lögum þessum sé ekki aðeins tryggður aðgangur að upplýsingum um föst laun opinberra starfsmanna heldur einnig að þeim einstaklingsbundnu samningum sem gerðir hafa verið við starfsmenn um önnur föst kjör þeirra, svo sem fasta (ómælda) yfirvinnu, akstursgjald o.fl."

Bæjarstjóri Seltjarnarneskaupstaðar, sem jafnframt er stjórnarformaður Hitaveitu Seltjarnarness, hefur skýrt frá því í bréfi til úrskurðarnefndar, dagsettu 16. nóvember sl., að mánaðarlaun [B], hitaveitustjóra, séu einu föstu laun hans hjá Hitaveitunni. Aðrar greiðslur til hans séu breytilegar frá einum mánuði til annars. Á launalista Hitaveitunnnar, dagsettum 2. júlí sl., kemur heldur ekki fram að hann njóti fasts bifreiðarstyrks.

Með skírskotun til þess, sem að framan greinir, og með vísun til 7. gr. upplýsingalaga er það því niðurstaða nefndarinnar að veita beri kæranda aðgang að upplýsingum um mánaðarlaun [B], sem fram koma á launalista Hitaveitunnar, en ekki upplýsingar um aðrar greiðslur sem þar er að finna.

Úrskurðarorð:

Bæjarstjóra Seltjarnarneskaupstaðar ber að veita kæranda, [A] hdl., aðgang að upplýsingum um mánaðarlaun [B], sem fram koma á launalista Hitaveitu Setjarnarness, dagsettum 2. júlí 1999.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta