Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2000 Forsætisráðuneytið

A-098/2000 Úrskurður frá 25. júlí 2000

ÚRSKURÐUR



Hinn 25. júlí 2000 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-98/2000:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 30. júní sl., kærði […] hdl., f.h. [A], meðferð Borgarbyggðar á ítrekaðri beiðni hans um aðgang að gögnum um kostnað af skólaakstri á Mýrum á nánar tilgreindum tímabilum.

Með bréfi, dagsettu 6. júlí sl., var kæran kynnt Borgarbyggð og því beint til bæjarins að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið og ekki síðar en 14. júlí sl. Jafnframt var þess óskað að ákvörðun bæjarins yrði birt kæranda og nefndinni ekki síðar en kl. 16.00 þann dag. Yrði kæranda synjað um aðgang að umbeðnum gögnum var þess ennfremur farið á leit að nefndinni yrðu látin í té afrit þeirra sem trúnaðarmál innan sama frests. Í því tilviki var bænum gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Umsögn bæjarstjóra Borgarbyggðar, dagsett 14. júlí sl., barst innan tilskilins frests ásamt hluta af þeim gögnum sem beiðni kæranda lýtur að.

Málsatvik

Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með samhljóða bréfum til bæjarstjóra Borgarbyggðar, dagsettum 19. apríl og 8. júní sl., fór umboðsmaður kæranda fram á að fá ítarlegri upplýsingar um kostnað af skólaakstri á Mýrum, á skólaárinu 1998/1999 annars vegar og 1999/2000 hins vegar, en fram höfðu komið í bréfi bæjarstjóra til umboðsmanns kæranda, dagsettu 9. mars sl. Þá hafði kæranda verið sent yfirlit um samanburðartölur vegna kostnaðar við þennan akstur fyrir og eftir breytingu sem gerð hafi verið á skipulagi hans í upphafi skólaárs 1998/1999 og leiddi, að því er ráðið verður af gögnum málsins, til þess að eldri samningi við kæranda um aksturinn hafði verið sagt upp. Á yfirliti þessu er að finna upplýsingar um fjölda skólabarna og ekna kílómetra á hverri leið, á dag og á mánuði, á hvoru skólaári um sig. Í bréfinu frá 9. mars sl. koma að auki fram upplýsingar um kostnað af skólaakstri á mánuði á sömu tímabilum. Jafnframt er tekið fram að tveir bílstjórar keyri á sömu töxtum og áður. Taxti annars þeirra hafi hækkað um tiltekna krónutölu á kílómetra, en taxti hins lækkað. Þá hafi ein leið bæst við eftir að skipulagi á akstrinum var breytt. Ekki er hins vegar talin ástæða til að gefa upp taxta einstakra skólabílstjóra.

Í áðurnefndum bréfum frá 19. apríl og 8. júní sl. kemur fram að umboðsmaður kæranda telur framangreindar upplýsingar ekki fullnægjandi til þess að umbjóðandi hans geti staðreynt sparnaðaráhrif þeirra breytinga sem leitt höfðu til uppsagnar hans. Fer hann því fram á að fá aðgang að reikningum skólabílstjóra vegna skólaaksturs frá byrjun skólaárs 1998 til áramóta 1998/1999 annars vegar og frá byrjun skólaárs 1999 til áramóta 1999/2000 hins vegar. Bréfum þessum var ekki svarað af hálfu Borgar-byggðar.

Í umsögn bæjarstjóra Borgarbyggðar til úrskurðarnefndar, dagsettri 14. júlí sl., er áréttað að í bréfi bæjarins til umboðsmanns kæranda, dagsettu 9. mars sl., hafi falist synjun um að veita upplýsingar um taxta einstakra skólabílstjóra, enda sé litið svo á að samningar við einstaka bílstjóra um einingarverð sé trúnaðarmál milli viðsemjenda. Þess í stað hafi kæranda verið látin í té gögn er sýni fram á að breytingar á fyrirkomulagi skólaaksturs skólaárið 1999/2000 hafi skilað áætlaðri hagræðingu í formi færri ekinna kílómetra en áður.

Umsögninni fylgdi sams konar yfirlit og kæranda hafði áður verið látið í té, að við-bættum upplýsingum um kílómetrataxta hvers bílstjóra og kostnað af akstri á hverri akstursleið um sig, á hvoru nefndra tímabila um sig. Auk þess fylgdu í ljósritum sýnishorn mánaðarreikninga frá hverjum bílstjóra um sig á skólaárinu 1999/2000. Í umsögninni er jafnframt tekið fram að einingarverð á kílómetra ráðist m.a. af fjölda nemenda sem ekið er á hverri leið.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Eins og fram kemur í atvikalýsingunni her að framan, hefur kærandi óskað eftir að fá aðgang að fyrirliggjandi gögnum um kostnað Borgarbyggar af skólaakstri á Mýrum á nánar tilgreindum tímabilum. Þau gögn, sem um er að ræða, eru annars vegar yfirlit, þar sem er að finna upplýsingar um þennan kostnað, og hins vegar reikningar hvers skóla-bílstjóra um sig.

Í bréfi Borgarbyggðar til umboðsmanns kæranda, dagettu 9. mars sl., er því ekki af-dráttar-laust synjað að láta honum í té upplýsingar um taxta einstakra skólabílstjóra. Vegna þess að bærinn lét undir höfuð leggjast að svara bréfum umboðsmannsins frá 19. apríl og 8. júní sl., þar sem beiðni um aðgang að þessum upplýsingum var ítrekuð, verður að telja að mál þetta hafi réttilega verið kært til úrskurðarnefndar um upplýsingamál skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þar eð bærinn hefur nú skýrt bréf sitt frá 9. mars sl. svo, að með því hafi verið synjað um hinar umbeðnu upplýsingar, mun nefndin taka málið til úrskurðar á grund-velli síðastnefnds lagaákvæðis.

2.

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Með hliðsjón af markmiði laganna ber að skýra undantekningar frá þessari meginreglu þröngt, þ. á m. ákvæði 5. gr. þeirra.

Sú grein er svohljóðandi: "Óheimilt er að veita almenn-ingi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila."

Vissulega má við því búast að almenn vitneskja um umsamið endurgjald fyrir verk eða þjónustu geti skaðað fjárhags- og viðskiptahagsmuni, þ. m. t. samkeppnisstöðu þeirra einstaklinga og lögaðila sem taka að sér slík verkefni fyrir ríki og sveitarfélög. Það sjónarmið, að upplýsingar um umsamið endurgjald skuli fara leynt, verður þó að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Í því sambandi er m.a. rétt að líta til þess að einstaklingar og lögaðilar verða hverju sinni að vera undir það búnir að mæta samkeppni frá öðrum aðilum, sbr. meginreglu þá sem fram kemur í 1. gr. sam-keppnis-laga nr. 8/1993.

Í máli því, sem hér er til úrlausnar, hefur kærandi óskað eftir aðgangi að gögnum um kostnað við skólaakstur á vegum sveitarfélags. Í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna, skulu sveitarfélög kosta skóla-akstur og bera ábyrgð á skipulagi hans, eins og tekið er fram í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til þeirra laga. Hér er því um að ræða lögbundið hlutverk sveitar-félaga.

Þá verða greiðslur til einstakra skólabílstjóra ekki lagðar að jöfnu við launagreiðslur í skilningi 5. gr. upplýsingalaga þar að þær fela ekki ein-vörðungu í sér endurgjald fyrir vinnu, heldur er þeim jafnframt ætlað að standa straum af öðrum kostnaði við skóla-akstur.

Með skírskotun til alls þess, sem að framan segir, er það niðurstaða úrskurðarnefndar að veita beri kæranda aðgang að hinum umbeðnu gögnum. Eins og beiðni hans er orðuð, verður að líta svo á að hann óski eftir aðgangi að reikningum frá einstökum skóla-bílstjórum, annars vegar frá upphafi skólaársins 1998/1999 og til 31. desember 1998 og hins vegar frá upphafi skólaársins 1999/2000 og til 31. desember 1999, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð:

Borgarbyggð er skylt að veita kæranda, [A], aðgang að yfirliti um kostnað við skólaakstur á Mýrum, þar sem m.a. koma fram umsamin einingarverð fyrir hvern ekinn kílómetra og áætlaðar greiðslur til hvers skólabílstjóra á mánuði, svo og að reikningum frá einstökum bílstjórum vegna tímabilsins frá byrjun skólaárs 1998/1999 til 31. desember 1998 og frá byrjun skólaárs 1999/2000 til 31. desember 1999.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta