Hoppa yfir valmynd
25. september 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2008

Fimmtudaginn, 25. september 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 15. janúar 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 14. janúar 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 3. janúar 2008 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég undirrituð óska eftir að fella niður mánuðina janúar til ágúst 2005 vegna verknáms í B-iðn hjá D ehf. Einnig var ég í námi í E-framhaldsskóla frá september til 13. desember 2005 og var þá að vinna hjá F ehf. meðfram skóla.

Þegar meðaltal af tekjum er tekið lækka tekjurnar sem ég á að fá í fæðingarorlof alltof mikið, það mikið að ég sé mér ekki fært að taka þetta fæðingarorlof, vegna alltof mikillar tekjuskerðingar mun hreinlega ekki ná endum saman með X kr. á mánuði útborgað en samt skiljanlegt þegar verknámið er tekið inn í planið, enda var ég einungis með X kr. á tímann í verknámi. Sem sagt ég hefi ekki verið í 100% starfi, síðan 15. desember 2005. Svo ég vona að þið sjáið ykkur fært að fella niður þá mánuði sem ég var í verknámi og taka þá meðaltal að þeim mánuðum sem standa eftir. “

 

Með bréfi, dagsettu 25. janúar 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 15. febrúar 2008. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, ódagsett en móttekin 7. nóvember 2007, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 14. desember 2007.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 15. október 2007, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 14. október 2007 og launaseðlar frá G ehf. fyrir september-október 2007. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 3. janúar 2008, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 3. janúar 2008 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hans samkvæmt skrám skattyfirvalda tekjuárin 2005 og 2006.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Enn fremur segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Þessu til fyllingar segir í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að meðaltal heildarlauna miðist við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 3. gr.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Barn kæranda er fætt þann X. desember 2007 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans árin 2005 og 2006.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á árunum 2005 og 2006 og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda.

Með kæru kæranda óskar hann eftir að við útreikning á meðaltali heildarlauna verði mánuðirnir janúar-ágúst 2005 undanskildir þar sem hann hafi verið í verklegu námi á þeim tíma. Einnig óskar kærandi eftir að mánuðirnir september – desember 2005 verði undanskildir þar sem hann hafi verið í námi á þeim tíma en unnið með náminu.

Þann 1. febrúar 2008 var kæranda ritað bréf þar sem óskað var eftir staðfestingu á verknámi á vorönn 2005 og staðfestingu á námsframvindu á haustönn 2005.

Umbeðin gögn bárust 4. og 13. febrúar sl. Á námsferilsáætlun kæranda frá E-framhaldsskóla, dags. 4. febrúar 2008, kemur fram að kærandi var með fullnægjandi námsframvindu á haustönn 2005. Ber því að undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í 3. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, kemur fram að verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur skuli meta sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. II. kafla. Á bréfi, dags. 8. febrúar 2008, frá D ehf. kemur fram að kærandi hafi unnið hjá fyrirtækinu sem nemi í B-iðn frá 1. jan. – 31. ágúst 2005.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki annað ráðið en að kærandi hafi verið starfandi á innlendum vinnumarkaði mánuðina janúar – ágúst 2005. Ekki er hægt að meta verknámið sem fullt nám þar sem það var launað og hefði veitt rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. II. kafla. Er því ekki unnt að undanskilja mánuðina janúar-ágúst 2005 við útreikning á meðaltali heildarlauna. Var kæranda send ný greiðsluáætlun, dags. 5. febrúar 2008.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að búið sé að leiðrétta greiðslur til kæranda og að bréf, dags. 5. febrúar 2008, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 28. febrúar 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar–Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 3. janúar 2008. Í kærubréfi kom fram ósk kæranda um að felldir yrðu niður mánuðirnir janúar til ágúst 2005 vegna verknáms í B-iðn hjá D ehf. og mánuðirnir september til desember þegar kærandi var við nám í E-framhaldsskóla ásamt því að vinna meðfram skóla við útreikning meðaltals heildarlauna hans og greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda dagsettu 5. febrúar 2008 var honum tilkynnt um nýjan útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem við útreikning meðaltals heildarlauna hans var sleppt mánuðunum september til desember 2005 þegar hann var við nám í E-framhaldsskóla. Ágreiningur er því um hvort reikna skuli við útreikning meðaltals heildarlauna með mánuðunum janúar til ágúst þegar hann starfaði sem B-iðnnemi hjá D ehf.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 74/2008 um breytingu á þeim lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaga, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Barn kæranda er fætt þann X. desember 2007. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna hans eru því tekjuárin 2005 og 2006. Eins og áður er komið fram er ágreiningur um hvort laun hans sem B-iðnnema á tímabilinu janúar til ágúst 2005 skuli teljast með við útreikning meðaltals heildarlauna hans.

Um kaup og kjör iðnnema er samið í kjarasamningum fyrir viðkomandi starfstétt. Kærandi fékk mánuðina janúar til ágúst 2005, sem hann vann sem B-iðnnemi hjá D ehf., greidd laun sem tryggingagjald var greitt af. Með hliðsjón af því og skilgreiningu 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 á því hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl. og reglugerðarinnar verður ekki fallist á að kærandi hafi ekki verið á innlendum vinnumarkaði þessa mánuði. Samkvæmt því ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var kæranda með bréfi þann 8. febrúar 2008.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 5. febrúar 2008 um útreikning greiðslu til A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta