Úrskurður nr. 7/2020
I. Beiðni um undanþágu.
Með tölvupósti, dags. 13. mars 2020, barst heilbrigðisráðuneytinu beiðni frá Svalbarðsstrandarhreppi, vegna leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu, um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.
Í beiðninni kemur fram að unnin hafi verið viðbragðsáætlun og aðgerðaáætlun. Leikskóli og grunnskóli séu stoðirnar í starfsemi sveitarfélagsins, það sé fámennt og þar sé góð yfirsýn með bæði starfsmönnum og nemendum, ferðum foreldra og aðstæðum á heimilum. Í leikskólanum séu innan við 30 börn og í grunnskólanum séu 49 börn, í fimm samkennsluhópum. Starfsmenn séu samtals um 35. Bent sé á að í fámennum skóla eins og þessum, í fámennu sveitarfélagi komi upp áhugaverðar aðstæður á tímum eins og þessum. Starfsmenn séu margir hverjir foreldrar barna í skólanum og foreldrar eiga börn á ólíkum aldri, bæði innan leikskóla og grunnskóla. Málið verði því örlítið flókið þegar kemur að aðgreiningu. Nú þegar sé aðgreining milli leik- og grunnskóla á vinnutíma en hlutirnir fari heldur betur af stað þegar skólatíma lýkur. Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir þremur viðbragðsáætlunum, fyrsta er óbreytt skólahald, annað stig er aðgreining námshópa og stytt skólahald og það verði gert eftir tilmælum eða ef ekki fæst undanþága og þriðja áætlunin gerir ráð fyrir lokun skóla og kennslu barna í gegnum Netið. Í því ljósi sé óskað eftir undanþágu um aðgreiningu skólahópa. Sveitarfélagið sé viðbúið ef viðbúnaðarstig hækkar að fara í þá framkvæmd en eins og fram komi sé í raun um tvennt að velja, venjulegt skólahald með aðlögun að staðháttum eða lokun. Ekki fáist séð að miðstigið skili þeim aðskilnaði sem stefnt er að.
II. Umsagnir.
Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir umsögnum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og sóttvarnasviðs Embættis landlæknis um undanþágubeiðnina. Í umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir meðal annars eftirfarandi:
„Samkvæmt beiðninni er tekið fram að sveitarfélagið sé fámennt og að aðgreining mun ekki ná að halda þegar leik- og grunnskólabörn koma heim til sín að skólatíma loknum. Af beiðninni má ekki ráða að aðstæður í Svalbarðsstrandarhreppi geri það að verkum að unnt sé að skipuleggja skólastarf skv. fyrirmælum um takmörkun á skólastarfi. Þvert á móti má ráða af beiðninni að skólastarf í Valsárskóla henti mjög vel til að koma til móts við auglýsingu um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur til að beiðni verði hafnað á þeim rökum að fámenni sveitarfélags eigi ekki einungis að vera rök fyrir undanþágu frá takmörkun skólastarfs vegna farsóttar. Ráðuneytið gerir umsögn þessa á þeim forsendum sem snýr að menntamálum í landinu en ef umsögn sóttvarnarlæknis er önnur mun ráðuneytið ekki leggjast gegn niðurstöðu hans.“
Af hálfu sóttvarnasviðs landlæknis kom fram að það teldi í góðu lagi að veita undanþáguna.
III. Niðurstaða.
Samkvæmt 3. gr. auglýsingar nr. 216/2020 er leikskólum heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi leikskólastarfi að þeim skilyrðum uppfylltum að börn séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og kostur er. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag. Þá kemur fram í 4. gr. að grunnskólum sé heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, svo sem í mötuneyti eða frímínútum. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.
Samkvæmt 6. gr. auglýsingar nr. 216/2020 getur heilbrigðisráðherra veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana. Við mat á því hvort heimila eigi undanþágu samkvæmt ákvæðinu þarf því meðal annars að líta til þess hvort undanþágan sem slík setji í hættu ráðstafanir til að varna útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins en jafnframt hvort undanþágan yrði fordæmi sem ekki væri unnt að fylgja eftir vegna þess að samþykkt allra sambærilegra tilvika myndi grafa undan framangreindum ráðstöfunum.
Að mati ráðuneytisins kemur einkum til greina að veita undanþágur þegar um mjög sérstakar aðstæður er að ræða og að takmörkun á skólahaldi kæmi sérstakleg þungt niður á viðkomandi nemendum, kennurum eða aðstandendum, svo sem í tilvikum þeirra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Enn fremur þegar aðstæður á viðkomandi stað gera það mun erfiðara en annars staðar að fylgja fyrirmælum ákvörðunarinnar.
Heilbrigðisráðuneytið hefur farið yfir umsóknina og umsagnir umsagnaraðila auk þess að afla frekari upplýsinga um umsóknina hjá Svalbarðsstrandarhreppi. Ráðuneytið telur að eins og umsóknin er fram sett og í ljósi aðstæðna í Svalbarðsstrandarhreppi standi ekki rök til þess að heimila sveitarfélaginu algera undanþágu frá ákvörðun um takmörkun skólahalds að teknu tilliti til þeirra almannahagsmuna sem ákvörðunin byggir á. Aftur á móti telur ráðuneytið í ljósi aðstæðna unnt að veita sveitarfélaginu undanþágu frá skilyrði 4. gr. um að grunnskólanemendur blandist ekki milli hópa að því marki að grunnskólinn skal þó tryggja að nemendum skuli haldið í a.m.k. tveimur álíka stórum aðskildum hópum á skólatíma, svo sem í mötuneyti og frímínútum. Hið sama skuli eiga við í leikskóla sveitarfélagsins. Þá skuli leik- og grunnskólanemendur aðskildir á skólatíma. Að öðru leyti beri að fara eftir ákvæðum auglýsingar nr. 216/2020.
Ráðherra getur, svo sem vegna breyttra aðstæðna í skóla, í viðkomandi landshluta eða á landinu öllu, í tengslum við útbreiðslu farsóttar afturkallað ákvörðun þessa.
ÚRSKURÐARORÐ
Beiðni Svalbarðsstrandarhrepps um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, er samþykkt með þeim skilyrðum að a.m.k. tveir aðskildir nemendahópar verði í leikskóla og tveir aðskildir nemendahópar í grunnskóla auk þess sem aðskilnaður verði milli leikskóla- og grunnskólanemenda á skólatíma.