Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna tillagna um sameiningu sveitarfélaga
Í ljósi aðstæðna tengdum Covid-19 faraldrinum, eru kjósendur vinsamlegast beðnir um að panta tíma áður en þeir koma á kjörstað, með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected] eða í síma 020 7259 3999. Að jafnaði verður hægt að kjósa í sendiráði Íslands í London, 2A Hans Street, SW1X 0JE , á opnunartíma sendiráðsins.
Kjósendur eru beðnir um að framvísa íslenskum persónuskilríkjum með mynd, þ.e. vegabréfi eða ökuskírteini.
Kosningarrétt eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag, 5. júní 2021, og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi á Íslandi, þremur vikum fyrir kjördag, þ.e. 15. maí 2021.
Einnig eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, enda fullnægi þeir að öðru leyti framangreindum skilyrðum.
Atkvæðagreiðslan fer þannig fram að kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðil orðið „já“ ef hann er hlynntur tillögu um sameiningu sveitarfélaganna eða „nei“ ef hann er mótfallinn tillögunni.
Athygli kjósenda er vakin á því, að þeim ber sjálfum að póstleggja atkvæði sín eða koma þeim á annan hátt í tæka tíð til viðkomandi kjörstjórnar á Íslandi. Kjósendur eru því hvattir til að vera tímanlega á kjörstað í ár, þar sem póstsendingar gætu tekið lengri tíma en vant er.