Hoppa yfir valmynd
16. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Bjarghringur fyrir þá sem höllustum fæti standa

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hefur gefið út ársskýrslu um nýtingu á sveigjanlegum og fyrirsjáanlegum framlögum sem stofnunin fær frá þjóðum eins og Íslendingum. WFP hefur gefið út ársskýrslur um þessa fjármögnunarleið frá árinu 2012 en í þessari sjöttu ársskýrslu er í fyrsta sinn gagnvirkt kort og frásagnir um það hvar og hvernig fjármagnið hefur nýst í neyðaraðstoð víðs vegar um heiminn. Þessi hluti ársskýrslunar sem er sérhannaður fyrir netið ber yfirskriftina: A lifeline for those furthest behind – Bjarghringur fyrir þá sem höllustum fæti standa.

Miðpunktur skýrslunnar er gagnvirka heimskortið sem sýnir hvernig sveigjanleg og fyrirsjáanleg framlög nýttust í hverjum mánuði á síðasta ári og jafnframt hvaðan og í hversu miklum mæli framlögin bárust. Að mati fulltrúa Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna eru slík framlög nauðsynleg til að stofnunin geti brugðist við skyndilegu neyðarástand, þau stytta undirbúningstíma og nýtast sérlega vel til verkefna á neyðarsvæðum sem hafa af einhverjum ástæðum gleymst, fá litla athygli fjölmiðla og teljast undirfjármögnuð.

Síðasta ár, 2017, var grimmilegt ár, segir í skýrslu WFP. Rifjað er upp að hungursneyð var lýst yfir í hluta af Suður-Súdan á árinu, í Sómalíu, Jemen og í norðausturhluta Nígeríu hafi íbúarnir á stundum verið á barmi hungursneyðar. Stríðið í Sýrlandi hafi haldið áfram með tilheyrandi fjölgun flóttafólks á sama tíma og milljónir Sýrlendinga í flóttabúðum þurftu á áframhaldandi utanaðkomandi stuðningi að halda til að draga fram lífið. Ennfremur er minnt á fellibylji í september sem óðu yfir eyjar í Karíbahafi og ollu miklu tjóni, ofbeldiverkin í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Írak og í Mjanmar sem leiddu til flótta þúsunda frá heimilinum sínum, ásamt annarri óöld, loftslagsbreytingum, spillingu og lélegu stjórnarfari. Hörmungarástandið hafi leitt til þess að vannærðum hafi fjölgað og jafnframt þeim sem búa við sult. Þeir hafi í árslok verið 815 milljónir.

Á slíkum tímum, segir í skýrslunni, reiðir Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna sig meira en nokkru sinni áður á sveigjanleg framlög. Staðreyndin sé hins vegar sú að meirihluta opinberrra framlaga sé bundin tilteknum verkefnum. Því er skorað á ríkisstjórnir í skýrslunni að veita fjármagni með sveigjanlegum hætti til stofnunarinnar í þeim tilgangi að WFP geti hikstalaust brugðist við skyndilegri neyð þegar slíkar aðstæður skapast.

Upplýsingasíða um Ísland 

  • Bjarghringur fyrir þá sem höllustum fæti standa - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta