Hoppa yfir valmynd
26. október 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 593/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 26. október 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 593/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17070034

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. júlí 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2017, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér ásamt eiginkonu sinni og barni.Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns og honum veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 5. nóvember 2016. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 19. apríl 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 2. júlí 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 17. júlí 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 14. ágúst 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að honum sé ekki afturkvæmt til […] þar sem hans bíði ekkert þar. Þá geti hann ekki búið annars staðar í […] enda eigi hann hvergi neitt bakland. Þá geti hann ekki leitað ásjár lögreglu eða yfirvalda enda sé almennum borgurum nær ómögulegt að fá frá þeim nokkra vernd.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestar réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.   Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að ástæða flótta hans frá heimaríki sé sú að honum stafi ógn af […]. Kærandi sé fæddur og uppalinn í […] í […] áður en hann hafi flust til […]. Í ágúst 2011 hafi kærandi kvænst eiginkonu sinni sem árið áður hafi flúið borgina […] ásamt börnum sínum vegna ofsókna […]. Hafi […] myrt fyrri eiginmann hennar og barn. Kærandi hafi rekið verslun með snyrtivörum á markaði í […] og hafi eiginkona hans selt mat fyrir framan verslunina með aðstoð stjúpdóttur kæranda. Í maí 2012 hafi sprenging orðið á markaðnum, ekki sé vitað fyrir víst hver hafi verið valdur að sprengingunni en eiginkona kæranda kveðst hafa heyrt að […]. Í kjölfar sprengingarinnar hafi átök breiðst út um borgina og hópar farið ránshendi og unnið skemmdaverk á húsum og öðrum eigum fólks. Hafi kærandi, eiginkona hans og stjúpdóttir öll orðið fyrir áverkum í sprengingunni. Hafi þeim verið komið á spítala í borginni […] í nágrannaríkinu […], en hin börn eiginkonu kæranda hafi orðið eftir hjá mágkonu kæranda í […]. Fregnir hafi borist kæranda og eiginkonu hans þess efnis að bæði vinnustaður þeirra á markaðinum og heimili þeirra hafi verið lagt í rúst. Hafi kærandi, eiginkona hans og stjúpdóttir dvalið um tíma í […] þar sem þau hafi ekki talið öruggt að snúa aftur til […]. Erfitt hafi verið fyrir kæranda og eiginkonu hans að sjá fyrir fjölskyldunni í […] og hafi þau af þeim sökum ákveðið að ferðast til […]. Í […] hafi kærandi starfað við að leggja flísar í hús. Jafnframt hafi eiginkona kæranda og stjúpdóttir fengið vinnu við þrif og hárgreiðslu. Í fyrstu hafi allt gengið vel í […] en árið 2015 hafi bæði kærandi og eiginkona hans hætt að fá greitt fyrir vinnu sína. Í kjölfarið hafi eiginkona kæranda og stjúpdóttir orðið fyrir aðkasti og líkamsmeiðingum af hálfu fólks sem hafi ætlast til þess að þær myndu vinna fyrir sig án þess að fá greitt fyrir. Hafi ungir menn sem kalla sig „[…]“, og séu eins konar mafía í […], ráðist á mæðgurnar og rænt þær. Þá hafi stjúpdóttir kæranda verið numin á brott af mannræningjum sem hafi hótað að drepa hana ef kærandi og eiginkona hans greiddu ekki lausnargjald. Jafnframt hafi kærandi orðið fyrir líkamsmeiðingum eftir að hann hafi neitað að vinna endurgjaldslaust. Í mars árið 2015 hafi fólk komið heim til kæranda og krafist þess að hann kæmi út úr húsi sínu. Þegar kærandi hafi neitað hafi einstaklingarnir hafið skothríð á hús kæranda. Hafi vinur þeirra að nafni […] komið kæranda og fjölskyldu hans til bjargar. Kærandi og eiginkona hans hafi ekki talið sig óhult á heimilinu eftir þetta og um tíma hafi eiginkona kæranda og stjúpdóttir dvalið á heimili […]. Hafi kærandi sjálfur á þessum tíma dvalið hjá öðrum kunningja. Í ágúst 2015 hafi kæranda verið rænt og hafi honum verið ekið út í eyðimörkina þar sem honum hafi verið komið fyrir í bás sem hafi verið svo þröngur að aðeins hafi verið hægt að standa uppréttur. Þar hafi kærandi þurft að dvelja þarna í nokkra daga en á hverjum degi hafi hann verið tekinn út úr básnum og hafi honum verið misþyrmt. Hafi kærandi að lokum verið þvingaður til að snúa aftur til vinnu. Kveður kærandi sig hafa sætt pyndingum í […] ásamt því sem hann hafi verið meðhöndlaður sem þræll. […] hafi að lokum gert ráðstafanir til að koma kæranda, eiginkonu hans og stjúpdóttur úr landi og til Ítalíu. Á Ítalíu hafi þeim verið veitt vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hafi [...] stjúpdóttir kæranda horfið þegar fjölskyldan dvaldi á Ítalíu og hafi kærandi engar upplýsingar um hvar hún sé niðurkomin. Börn eiginkonu kæranda sem hafi orðið eftir í […] dvelji hjá mágkonu kæranda sem flytji á milli staða í […] í von um launaða vinnu.

Kærandi greinir frá því að hann hafi tapað öllum eignum sínum í heimaborg sinni, […]. Borgin sé hættulegur staður þar sem átök geisi á milli [...]. Kærandi heldur því fram í greinargerð að hann njóti ekki verndar yfirvalda eða lögreglu í […], enda hafi lögreglan ekki burði til að veita […] viðnám. Kærandi og fjölskylda hans hafi búið í […] , en þar sé […] fólk í miklum minnihluta og hafi […] á borð við […] til langs tíma ofsótt […] fólk. Eigi kærandi því enga eiginlega fjölskyldu neins staðar í […] enda hafi hann verið eina barn einstæðrar móður sinnar sem sé nú látin. Faðir hans sé einnig látinn en kærandi eigi hálfsystkini sem hann sé í engum samskiptum við.

Í greinargerð er fjallað um aðstæður í […]. Því er haldið fram að frásögn kæranda af ástandinu í […] árið sem þau hafi flúið þaðan komi heim og saman við heimildir frá þeim tíma. Ástand mannréttindamála í […] sé afar slæmt og m.a. hafi […] gerst sekur um gróf mannréttindabrot og þá [...]. Refsilöggjöf landsins sé ábótavant og engin [...]lög séu í gildi í heimaríki kæranda sem banni ofbeldi gegn konum. Jafnframt sé heimilisofbeldi algengt og samfélagslega viðurkennt í […]. Hafi stjórnvöld í landinu reynt að breyta þessu viðhorfi og koma á [...]löggjöf sem snúi að ofbeldi gegn konum, en einungis fáein [...] einkum í suðurhluta […] hafi samþykkt þessa löggjöf. Í greinargerð kæranda er einnig fjallað um stöðu barna í […], en fjölmörg […] börn séu heimilislaus og hafist við á götunni. Af þeim tæplega [...] milljónum einstaklinga sem séu vegalausir innan […] (IDP‘s) séu börn undir 18 ára um 55% þeirra. Barnaþrælkun sé útbreidd í landinu og samkvæmt [...] frá 2016 hafi opinberir aðilar áætlað að um [...] milljón börn séu þátttakendur í barnaþrælkun og þar af um [...] milljónir barna við vinnu sem talin sé hættuleg. Samkvæmt sömu skýrslu sé almenna skólakerfið í […] ófullnægjandi og skortur á aðstöðu geri það að verkum að mörg börn séu útilokuð frá skólakerfinu. Í norðurhluta landsins sé hæsta hlutfall barna á skólaaldri sem séu ekki skráð í viðurkennda skóla, um 35-45%, þar sé m.a. talið að aðgerðir […] komi í veg fyrir að börn sæki sér menntun.

Í greinargerð kæranda er jafnframt fjallað um […]. Sé því ljóst að kærandi og fjölskylda hans eigi í hættu á að verða fyrir frekari ofbeldi og mannréttindabrotum verði þeim gert að snúa aftur til […]. Samkvæmt framangreindu er kærandi flóttamaður skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ber að veita honum alþjóðlega vernd á Íslandi. Einnig byggir kærandi á 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu á maki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára einnig rétt á vernd nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

Þá heldur kærandi því fram í greinargerð að börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd. Því til stuðnings vísar kærandi til 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga sem kveði m.a. á um að ávallt skuli það sem barni sé fyrir bestu hafa forgang þegar ákvarðanir séu teknar um málefni þess.

Varðandi varakröfu kæranda kemur fram í greinargerð að með vísan til ótryggs ástands í […], en ófriðarástand ríki í […]. Vegna trúar sinnar sé kærandi sérstaklega berskjaldaður fyrir slíkri ógn enda tilheyri hann minnihlutahópi sem markvisst sé gerður að skotmarki […]. Stjórnvöld hafi með aðgerðarleysi sínu gegn […] sýnt að þau hafi hvorki getu né vilja til að vernda kæranda. Af ofangreindu sé ljóst að aðstæður kæranda uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því geri kærandi þá kröfu að honum verði veitt viðbótarvernd.

Varðandi þrautavarakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er í greinargerð vísað til athugasemda með frumvarpi með sömu lögum. Með hliðsjón af framangreindri umfjöllun um aðstæður kæranda og fjölskyldu hans í […] telur kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Að lokum kemur fram í greinargerð kæranda að við mat á því hvort einstaklingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta upprunalands þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum viðkomandi og þeim aðstæðum sem séu í landinu. Kærandi ítrekar að hann eigi engar eignir í […] og njóti ekki þar stuðning ættingja eða annars fólks. Kærandi kveður ekki mögulegt fyrir sig að flytjast um set innan […] þar sem hann sé hvergi öruggur, en eins og hafi komið fram sé eins konar refsileysisstefna í gildi í öllu landinu gagnvart [...] ofbeldi. Kærandi telur það augljósan annmarka á ákvörðun Útlendingastofnunar að honum hafi ekki verið veitt augljós og fullnægjandi tilkynning um að stofnunin væri að kanna möguleika á flutningi innanlands. Samkvæmt leiðbeiningum Flóttamannastofnunnar er gerð krafa um að umsækjenda sé gefinn augljós og fullnægjandi tilkynning um að viðkomandi stjórnvald sé að íhuga þann möguleika hvort flutningur innanlands teljist raunhæft og sanngjarnt úrræði.

V.  Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga með áorðnum breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað ferðaskilríki útgefnu af ítölskum stjórnvöldum þar sem m.a. kemur fram nafn hans og að hann sé upprunninn frá […]. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[…]

Efnahagur ríkisins byggist aðallega á útflutningi hráolíu. Þrátt fyrir að olían hafi fært […] mikil auðæfi þá búi meirihluti íbúa landsins við fátækt. Misskipting auðs sé mikil í […] og fjárhagur íbúanna virðist vera mismunandi eftir landshlutum og trúarbrögðum. Mikil óánægja sem tengist efnahag landsins ríki í landinu sem talin sé ein orsök átakanna sem þar geisi. […]. Íbúar landsins hafi þurft að þola mannskæðar árásir […]. Þá hafi […] lögreglan, öryggissveitir og stjórnarher barist gegn […], en spilling í öllum hlutum stjórnkerfisins, pólitískur óstöðugleiki og mannréttindabrot hafi hindrað framgang þeirra. Efling […] hafi leitt til talsverðar eyðileggingar á þessum svæðum. Þá séu þúsundir manna særðir eða látnir og hafi um [...] milljónir […] lagt á flótta […]. Dæmi séu um að öryggisþjónusta landsins hafi gerst sek um tilhæfulaus manndráp, pyndingar og óréttmætar fangelsanir. Árið 2015 hafi verið forsetakosningar í […]. Úrslitum kosninganna hafi verið fagnað þar sem […] hafi verið talinn líklegri til þess að stöðva framgang […] en fyrirrennari hans. Hafi […] miðað áfram í baráttunni gegn […]. Síðastliðið ár hafi yfirvöld hert á sókninni gegn […] og haldi stjórnvöld í landinu því fram að stutt sé í uppgjöf […]. Á næstu vikum eigi um [...] einstaklingar grunaðir um þátttöku í […] að mæta fyrir […] dómstóla. Hafi þegar [...] einstaklingar verið sakfelldir fyrir þátttöku sína í […] og hafi þeir verið dæmdir í allt frá þriggja til þrjátíu og eins árs fangelsi. Vegna öryggis hafi stjórnvöld ákveðið að halda leynd yfir réttarhöldunum og muni fjórir dómarar dæma í hundruðum mála. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað er erfitt að staðfesta […] í dag, en allt bendi til þess að […] hafi enn þá einhver ítök í […] og […] fylki í […].

Af gögnunum má einnig ráða að spilling sé mikið vandamál í […], þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna frá árinu 2016 er gert ráð fyrir að um helmingur íbúa landsins séu […]. Þá komi fram að trúfrelsi sé verndað í stjórnarskrá […] og einnig sé að finna ákvæði sem banni stjórnvöldum að koma á ríkistrú. Flestir íbúar svæða í […] séu […] og í […] séu […] í meirihluta. Bæði […] og […] hafi greint frá mismunun á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta.

Ákvæði 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga á maki eða sambúðarmaki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar einnig rétt á alþjóðlegri vernd, nema sérstakar ástæður mæli því í mót.

Með úrskurði kærunefndar þann 26. október 2017 í máli nr. KNU17070035 var aðila þess máls veitt alþjóðleg vernd. Kærandi og aðili nefnds máls byggðu í umsóknum sínum á því að þau væru í hjúskap. Engin gögn hafa verið lögð fram því til stuðnings. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum þeirra var framburður þeirra talinn trúverðugur að öðru leyti en því að stofnunin taldi kæranda standa til boða aðstoð yfirvalda, þurfi hann á henni að halda. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að byggja á því mati stofnunarinnar og líta svo á að þau séu í hjúskap. Kærunefnd telur ekkert í gögnum málsins benda til þess að sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, mæli gegn því að kærandi fá jafnframt alþjóðlega vernd. Kærandi uppfyllir því skilyrði alþjóðlegrar verndar samkvæmt ákvæðinu. Í ljósi þessi er ekki ástæða til að leggja mat á þann rétt til alþjóðlegrar verndar sem kærandi kann að eiga samkvæmt 37. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laganna.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 45, paragraph 2, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue to the appellant a residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                                  Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta