Drög að vegalögum til umsagnar
Samgönguráðuneytið óskar umsagna vegna draga að frumvarpi til vegalaga
Nefnd sem skipuð var að samgönguráðherra 17. janúar 2006 til að endurskoða vegalög nr. 45/1994 hefur skilað niðurstöðum í formi frumvarps til nýrra vegalaga. Þrír nefndarmenn skrifuðu undir nefndarálitið með fyrirvara og skiluðu séráliti sem er að finna sem fylgiskjal með frumvarpinu. Nefndarálitið ásamt skýringum er hér með lagt fram á veraldarvefnum til umsagnar þeirra sem áhuga hafa. Umsagnir þurfa að hafa borist samgönguráðuneytinu í síðasta lagi 8. nóvember. Umsagnir óskast sendar á tölvupóstfangið [email protected] eða með pósti á Hafnarhúsið við Tryggvagötu, 150 Reykjavík.
Drög að frumvarpi til vegalaga má nálgast hér, einnig fylgja athugasemdir við frumvarpið í heild og einstaka greinar þess (WORD-242Kb)
Hér má nálgast sérálit þriggja nefndarmanna vegalaganefndar (Word-29Kb)
Í nefndarálitinu eru lögð til mörg nýmæli en þau helstu eru eftirfarandi:
1. Hlutverk Vegagerðarinnar skýrt betur.
Lagt er til að kveðið sé á um hlutverk Vegagerðarinnar með skýrari hætti, bæði það að vera veghaldari þjóðvega og annað sem stofnunin hefur gegnt í tengslum við veghaldið og framkvæmd vegamála í umboði samgönguráðherra. Verði frumvarp þetta að lögum verður hraðað þeirri þróun að þjónustu og framkvæmdaverkefni eru unnin af verktökum á almennum markaði. Einnig að lögð er meiri áhersla á umferðaröryggi veganna og hlutverk Vegagerðarinnar við að stuðla að því.
2. Veghald safnvega og hluta tengivega flutt til sveitarfélaga.
Lagt er til að flokkun vega endurspegli betur en nú þær áherslur sem markaðar hafa verið í samræmi við lög um samgönguáætlun og endurspegla breyttar þarfir samfélagsins. Meginbreytingin felst í því að lagður er til nýr vegflokkur, sveitarfélagsvegir. Innan þess flokks eru vegir sem ekki teljast þjóðvegir en eru í umsjón sveitarfélaga, og teljast til þeirra götur innan þéttbýlis og héraðsvegir sem er nýmæli. Héraðsvegir eru vegir sem í núgildandi lögum kallast safnvegir eða í daglegu tali afleggjarar heim að einstöku bæjum ásamt hluta tengivega en tengivegir eru til dæmis hinir dæmigerðu sveitavegir sem tengja viðkomandi sveitir við megonvegakerfið. Lagt er til að veghald þeirra vega verði alfarið hjá sveitarfélögum og gert er ráð fyrir að áfram verði fjárframlag til þeirra ákvarðað í vegáætlun með svipuðu sniði og verið hefur en þó þannig að lágmarksframlag til þeirra verði tryggt sem 5% af mörkuðu tekjum vegamála. Sveitarfélögum er jafnframt tryggð heimild til að leggja á sérstakt vegtengigjald, nokkurs konar gatnagerðargjald, til lagningar héraðsvega fyrst og fremst heim að nýjum íbúðum eða býlum sem eru án tengingar í dag fjarri meginvegakerfinu.
3. Veghald.
Með frumvarpinu er kveðið skýrt á um hver er veghaldari viðkomandi vegflokks og hverjar eru skyldur veghaldara.
4. Gjaldtaka af umferð.
Lagarammi gjaldtöku af umferð er skýrður betur í frumvarpinu og er það meðal annars gert á grundvelli evrópskrar löggjafar sem Ísland hefur tekið yfir. Lagt er til í frumvarpinu að heimilt verði í samgönguáætlun að leggja tvennskonar gjald á umferð til að standa meðal annars straum af byggingu og rekstri samgöngumannvirkja. Annars vegar verður um svokallað veggjald að ræða sem á við einstök mannvirki. Gjald sem nú þegar er tekið í Hvalfjarðargöngunum myndi því flokkast sem veggjald. Hins vegar er lagt til að heimilt verði að setja á svokallað notkunargjald sem er gjald sem greitt er beint fyrir notkun vega en fyrr en seinna mun gjaldtaka af umferð breytast úr núverandi eldsneytisgjöldum í gjaldtöku sem taki meðal annars mið af gerð ökutækis, stað og stund notkunar og ytri kostnaði og byggir á gervihnattatækninni. Gjaldtaka þessi er háð samþykki Alþingis hverju sinni en ákvæði frumvarpsins mynda þann ramma sem miða verður við. Samþykkt frumvarpsins felur því ekki í sér aukna skattheimtu á umferð heldur er gert ráð fyrir að þróunin verði sú að nýjar aðferðir við gjaldtöku verði teknar upp í stað núverandi skatta. Er við þessa gjaldtöku horft til ákvæða tilskipunar númer 1999/62/EB frá 17.06.1999, með síðari breytingum, um álagningu gjalda á þungaflutningabifreiðar og er ætlunin að frumvarpið innleiði ákvæði þar að lútandi í íslenskan rétt sem og aðra samsvarandi löggjöf á EES-svæðinu.
5. Kostnaðarskipting vegna hljóðvarna.
Lögð er til málamiðlun milli mismunandi sjónarmiða varðandi kostnaðarskiptingu milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga þegar að það á við.
6. Stígar.
Lagt er til að heimilt verði að veita fé til almennra stíga, það er göngu- og hjólreiðastíga sem liggja meðfram þjóðvegum og opnir eru almenningi til frjálsrar umferðar. Þetta er nýmæli og mikil endurbót því hér er verið að taka tillit til umferðaröryggis þar sem þessi umferð fer alls ekki saman við hina miklu umferð bifreiða sérstaklega á stofnvegunum í kringum Reykjavík.
7. Umsagnir og tillögur um skipulagsáætlanir.
Lögð er til áherslubreyting hvað snertir málsmeðferð sem felur í sér ríkari aðkomu Vegagerðarinnar að gerð skipulags. Jafnframt að hlutverk Vegagerðarinnar sem umsagnaraðila hvað snertir áhrif skipulags á umferð verði skýrt nánar þannig að ekki leiki vafi á því til hvers er ætlast að stofnuninni að þessu leyti. Er þessu ætlað að stuðla að enn betra samstarfi Vegagerðarinnar og sveitarstjórna við að tryggja greiða og örugga umferð.
8. Eignarnám og bráðabirgðaafnot lands.
Ákvæði þessu eru aðlöguð að réttarþróun en ekki er um efnislegar breytingar að ræða hvað varðar heimildir Vegagerðarinnar. Tillögur frumvarpsins miða að því að auka réttaröryggi borgaranna og árétta skyldur Vegagerðarinnar til að vanda undirbúning eignarnámsákvarðana og málsmeðferð alla.
9. Lagning og viðhald vega.
Kröfur vegna ástands þjóðvegakerfisins, flutningsgetu þess, öryggis umferðar og tillitssemi gagnvart umhverfi hafa farið sívaxandi en ákvæði núgildandi laga eru fáorð um þetta efni. Því er lagt til með frumvarpi þessu að kveða á um með hvaða hætti auknum kröfur til veghaldara verði fundinn lagalegur rammi og er með því stefnt að auknu öryggi vegfarenda og gæðum vegamannvirkja.
10. Öryggi umferðar.
Einn mikilvægasti þátturinn í endurskoðun vegalaganna er öryggi umferðar. Lagðar eru til breytingar sem eiga að stuðla að því, bæði beint og óbeint, með því að leggja aukna áherslu á öryggismálin við framkvæmd vegamála. Má þar sérstaklega nefna heimild ráðherra til að setja reglur um svokallaða umferðaröryggisstjórnun en í því felst meðal annars að fram þarf að fara umferðaröryggismat á nýjum vegum og umferðaröryggisúttektir á vegakerfinu.