Mögulegt verði að gera ökutæki upptæk
Drög að frumvarpi til breytinga á umferðarlögum nr. 50/1987 eru nú tilbúin til umsagnar. Helstu breytingar fela í sér harðari viðurlög vegna hraðakstursbrota, þrepaskiptum ökuleyfisréttindum og mögulega upptöku ökutækja við ítrekuð brot. Umsagnarfrestur er til 10. nóvember næstkomandi.
Í umræðum í þjóðfélaginu undanfarin misseri hefur ítrekað komið fram krafa um að hert verði viðurlög við umferðarlagabrotum, ekki síst vegna ofsaaksturs. Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði sérstaklega hart á hraðakstursbrotum þegar ekið er á og yfir tvöföldum hámarkshraða jafnframt því sem settar verði reglur um auknar sektir þegar í hlut eiga ökumenn sem stjórna stórum ökutækjum.
Meðal annarra nýmæla í frumvarpsdrögunum er að bráðabirgðaökuskírteini verði gefin út til þriggja ára í stað tveggja áður en þó verður enn möguleiki fyrir þann sem ekki hefur gerst brotlegur við umferðarlög að fá fullnaðarskírteini við 18 ára aldur. Þá er þar að finna ákvæði sem heimilar samgönguráðherra að setja reglur um ákveðnar takmarkanir á heimild byrjanda til að stjórna ökutæki. Yrðu þær takmarkanir bundnar við ákveðinn tíma sólarhrings, takmarkaðan fjölda farþega yngri en 20 ára og takmörkunar á afli hreyfils bílsins. Getur ráðherra ákveðið hvort slíkar takmarkanir taki til byrjanda á gildistíma bráðabirgðaökuskírteinisins og allt þar til hann verður 20 ára.
Þá gerir frumvarpið ráð fyrir heimild lögreglu til að gera ökutæki upptækt vegna grófra og ítrekaðra brota. Voru þar höfð til hliðsjónar ákvæði dönsku umferðarlaganna um slíka heimild lögreglu. Ekki eru líkur á að oft muni reyna á slíkt ákvæði, en engu að síður er æskilegt að möguleiki sé fyrir hendi lögum samkvæmt til að grípa til slíkra aðgerða gagnvart síbrotamönnum í umferðinni.
Tölur sýna að 28% af banaslysum í umferðinni á árunum 1998-2005 voru af völdum ökumanna yngri en 24 ára, og er þessu frumvarpi ætlað að gera auknar kröfur til þessa hóps í því skyni að auka öryggi í umferðinni. Ennfremur kemur það nýmæli inn í frumvarpið, að lagt er til að beita skuli akstursbanni ef ungur ökumaður hefur fengið fjóra eða fleiri refsipunkta vegna umferðarlagabrota. Þá myndi ungum ökumanni vera bannað að stjórna ökutæki þar til hann/hún hefur farið í ökunámskeið og tekið ökupróf að nýju.
Drögin að lagafrumvarpinu má sjá hér (Word-190Kb).
Umsagnir óskarst sendar samgönguráðuneytinu með tölvupósti á póstfangið [email protected] eða með pósti á Hafnarhúsið við Tryggvagötu, 150 Reykjavík.