Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 432/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 432/2020

Fimmtudaginn 18. febrúar 2021

A

gegn

Seltjarnarnesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. september 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, afgreiðslu Seltjarnarnesbæjar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 18. júní 2020 í máli nr. 70/2020 var komist að þeirri niðurstöðu að afgreiðsla Seltjarnarnesbæjar vegna umsóknar kæranda um félagslegt leiguhúsnæði hefði ekki verið í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt var fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu máls kæranda og taka afstöðu til réttar hans til félagslegs leiguhúsnæðis svo fljótt sem auðið væri.

Kærandi lagði fram nýja kæru hjá úrskurðarnefndinni 11. september 2020 og vísaði til þess að Seltjarnarnesbær hefði ekki tekið afstöðu til umsóknar hans um félagslegt leiguhúsnæði, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 18. september 2020, var óskað eftir upplýsingum frá Seltjarnarnesbæ um hvernig sveitarfélagið hefði brugðist við framangreindum úrskurði nefndarinnar. Svar barst 21. september 2020 þar sem fram kom að nýjasta umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði væri frá 16. apríl 2020. Þar sem félagslegt leiguhúsnæði hefði ekki losnað eftir að sú umsókn barst hafi staða kæranda ekki breyst og hann hafi verið upplýstur um það í tölvupóstum.

Með bréfi, dags. 23. september 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Seltjarnarnesbæjar vegna kærunnar ásamt málsgögnum. Sú beiðni var ítrekuð 27. október 2020, 26. nóvember 2020 og 11. janúar 2021. Greinargerð Seltjarnarnesbæjar barst ekki.

II.  Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Seltjarnarnesbæjar vegna umsóknar kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Kærandi kveðst hafa verið búsettur á áfangaheimili í tæplega sjö ár og á þeim tíma beðið eftir félagslegu leiguhúsnæði frá sveitarfélaginu. Að sögn kæranda sótti hann upphaflega um félagslegt leiguhúsnæði árið 2006 en lítið hafi verið um svör frá sveitarfélaginu. Kæran byggir á ákvæði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Forsaga málsins er sú að með kæru frá 5. febrúar 2020 kærði kærandi til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Seltjarnarnesbæjar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði, sem hann kvaðst hafa sótt um hjá sveitarfélaginu allt frá árinu 2006. Við meðferð þess máls upplýsti sveitarfélagið í greinargerð sem barst 15. maí 2020 að fyrir lægju umsóknir kæranda frá því í nóvember 2019 og janúar 2020 en engin önnur skrifleg gögn. Þeim umsóknum hefði verið haldið til haga en ekki verið synjað eða brugðist við þeim með formlegum svörum. Eftir það hafi borist ný umsókn frá kæranda sem yrði tekin til efnismeðferðar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þar sé verið að vísa til umsóknarinnar sem sveitarfélagið vísaði til í tölvupósti vegna þessa máls og barst sveitarfélaginu 16. apríl 2020.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 18. júní 2020 var gerð athugasemd við málsmeðferð sveitarfélagsins og áréttað að hver sá sem bæri upp skriflegt erindi við stjórnvald ætti almennt rétt á að fá skriflegt svar, enda uppfyllti erindið skilyrði um að ráðið yrði af efni þess að vænst væri svars og erindið væri á verksviði stjórnvaldsins. Þar sem sveitarfélagið hefði ekki lagt fram viðhlítandi skýringar á þeirri töf sem hafði orðið á afgreiðslu máls kæranda og ekki var séð að hann hafi fengið nein svör við erindum sínum, var það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Lagt var fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og taka afstöðu til réttar kæranda til húsnæðis svo fljótt sem auðið væri.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ástæðu til að gera alvarlega athugasemd við að Seltjarnarnesbær hafi ekki brugðist við ítrekuðum beiðnum úrskurðarnefndarinnar um greinargerð og afhendingu gagna. Sveitarfélaginu er á grundvelli kærusambands við nefndina skylt að veita nauðsynlegar upplýsingar og viðeigandi gögn í tengslum við þau kærumál sem eru til meðferðar hverju sinni. Úrskurðarnefndin brýnir fyrir Seltjarnarnesbæ að þeirri skyldu verði framvegis fullnægt með réttum hætti og þá innan þeirra tímamarka sem nefndin ákveður.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn. Þá segir í 1. mgr. 47. gr. laganna að sveitarstjórn skuli setja sér reglur á grundvelli leiðbeininga ráðherra samkvæmt 4. mgr. 45. gr. um úthlutun félagslegs íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga samkvæmt lögunum, þar á meðal um meðferð umsókna, sem hafi það að markmiði að tryggja þeim sem á þurfi að halda félagslegt íbúðarhúsnæði og lágmarka biðtíma eftir slíku húsnæði eins og kostur er.

Í 7. gr. reglna Seltjarnarnesbæjar um úthlutun félagslegra leiguíbúða kemur fram að ef umsókn er samþykkt sé umsækjandi skráður á biðlista eftir leiguíbúð. Umsækjanda er skylt að endurnýja umsókn sína innan 12 mánaða frá því að hún var lögð inn, sbr. 8. gr. reglnanna. Í 9. gr. reglnanna kemur fram að starfsfólki félagssviðs sé skylt að veita umsækjendum upplýsingar um aðra þá kosti sem til boða kunni að standa í húsnæðismálum. Það skuli gert í formi leiðbeininga og ráðlegginga, auk miðlunar til annarra ráðgefandi aðila sem kunni að hafa yfir úrræðum að ráða. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. reglnanna skal við úthlutun leiguhúsnæðis leggja mat á umsækjendur eftir stigagjöf. Þá segir í 2. mgr. 10. gr. að markmiðið með stigagjöf sé að forgangsraða umsækjendum og tryggja að þeir sem séu í brýnustu þörf fyrir félagslega leiguíbúð fái úthlutun.

Í lögum nr. 40/1991 er ekki kveðið á um almennan lögbundinn frest fyrir sveitarfélög til að úthluta þeim sem þess þurfa húsnæði. Slíkt ákvæði er ekki heldur að finna í reglum Seltjarnarnesbæjar um úthlutun félagslegra leiguíbúða. Mat á því hvort tafir á afgreiðslu umsókna í einstökum tilvikum teljast óhóflegar ræðst því af málshraðareglu 9. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Af þeim upplýsingum sem liggja fyrir hjá úrskurðarnefndinni hefur kærandi verið á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði lengi. Hann hefur verið búsettur á áfangaheimili undanfarin sjö ár og verður því að teljast í brýnni þörf fyrir úthlutun húsnæðis. Í byrjun september 2020 var kærandi upplýstur um að biðlisti eftir félagslegu húsnæði væri í endurskoðun og því væri ekki hægt að segja til um stöðu kæranda. Tekið var fram að engar félagslegar leiguíbúðir væru til ráðstöfunar hjá sveitarfélaginu en umsókninni yrði haldið til haga og ef húsnæði myndi losna yrði hún tekin til skoðunar á ný ásamt öðrum umsóknum, með tilliti til hentugleika húsnæðis og stöðu á biðlista.

Úrskurðarnefnd getur fallist á að skortur á húsnæði valdi töf á úthlutun en að mati nefndarinnar getur það ekki réttlætt bið um ókomna tíð án þess að fyrir liggi einhver áætlun í þeim efnum eða virk upplýsingagjöf til umsækjanda um stöðu hans. Verður þannig að gera þá kröfu til sveitarfélagsins að markvisst sé unnið að lausn í máli kæranda og að gerðar séu ráðstafanir til að hann fái húsnæði eins fljótt og unnt er.

Ekki verður séð að Seltjarnarnesbær hafi unnið sérstaklega í húsnæðismálum kæranda, þrátt fyrir ítrekaðar umsóknir hans um félagslegt húsnæði og úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála frá júní 2020 þar sem lagt var fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og taka afstöðu til réttar kæranda til húsnæðis svo fljótt sem auðið væri. Að því virtu og á grundvelli þess að sveitarfélagið hefur ekki áætlað hvernig og hvenær leyst verði úr máli kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Lagt er fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og veita kæranda samþykkta þjónustu svo fljótt sem auðið er. Ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna, auk þess hvenær þjónustan geti hafist, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Seltjarnarnesbæjar í máli A, var ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt er fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu máls kæranda og taka ákvörðun um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis svo fljótt sem auðið er.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta