Hoppa yfir valmynd
8. september 2020 Innviðaráðuneytið

Tilraunasamstarf um að knýja stórvirk farartæki með repjuolíu

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, var í dag viðstaddur undirritun viljayfirlýsingar Isavia ohf. og Samgöngustofu um samstarf vegna tilraunaverkefnis um íblöndun repjuolíu á stórvirk tæki á Keflavíkurflugvelli. Við þetta tækifæri hellti Sigurður Ingi repjuolíu á eitt af stóru farartækjunum sem Isavia notar í flugvallarþjónustu sinni. Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia ohf., og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, undirrituðu viljayfirlýsinguna.

„Ræktun repju og nýting afurða hennar hefur marga góða kosti bæði fyrir landbúnað og sem umhverfisvænn orkugjafi. Repjuolía er umhverfisvænn kostur og nýting hennar styður við alþjóðlegar skuldbindingar í loftlagsmálum. Með samstarfi Samgöngustofu og ISAVIA er stigið mikilvægt skref í orkuskiptum með því að auka hlutdeild innlendra orkugjafa,“ segir Sigurður Ingi.

Samgöngustofa hefur um nokkurt skeið unnið að rannsóknum á notkun repjuolíu sem íblöndun í eldsneyti og það er mat stofnunarinnar að repjuolía geti hentað vel til íblöndunar á stórvirkar vinnuvélar og þannig dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, segir spennandi að þróa verkefnið í samstarfi við Isavia. Ræktun orkujurta væri raunhæfur valkostur sem komi ekki endilega í staðinn fyrir önnur orkuskipti. Repjuolían geti hentað mjög vel til íblöndunar á stórvirkar vinnuvélar og þannig dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Jón Gunnar segir að Samgöngustofa hafi lagt áherslu á umhverfismál í þróunarverkefnum.

Eitt af markmiðum Isavia er að minnka notkun jarðefnaeldsneytis innan fyrirtækisins, ekki síst á stórum tækjum í flugvallarþjónustu fyrirtækisins, sem ekki eru enn fáanleg rafmagnsknúin. Með samstarfinu vilji Isavia finna aðra og umhverfisvænni orkugjafa til að knýja þau áfram. Byrjað verði á einu tæki. Útblástur og eyðsla tækisins verðimæld og niðurstöður dregnar saman í skýrslu á vegum Samgöngustofu.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir að félagið hafi sett sér stefnu í samfélagsábyrgð árið 2016 þar sem markið hafi verið sett á að stuðla að jafnvægi milli efnahags, umhverfis og samfélags með sjálfbærni að leiðarljósi. Fyrirtækið hafi frá árinu 2018 kolefnisjafnað alla eigin eldsneytisnotkun og hafi því látið verkin tala. Viljayfirlýsingin væri mikilvægt skref í átt að minni notkun jarðefnaeldsneytis hjá Isavia.

Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri var viðstaddur undirritun viljayfirlýsingarinnar en olían sem notuð verður hjá Isavia í tilraunaverkefninu er ræktuð og framleidd þar.

 
  • Frá undirritun viljayfirlýsingar ISAVIA og Samgöngustofu um samstarf vegna tilraunaverkefnis um íblöndun repjuolíu á stórvirk tæki á Keflavíkurflugvelli. - mynd
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hellir repjuolíu á stóra vinnuvél í eigu ISAVIA. - mynd
  • Ólafur Eggertsson, repjubóndi á Þóroddsstöðum, Jón Bernódusson hjá Samgöngustofu og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd
  • Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar Isavia, Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri, og Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og samfélagsábyrgðar hjá Isavia. - mynd
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, með repjuolíu frá Þóroddsstöðum. - mynd
  • Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia ohf., og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, undirrituðu viljayfirlýsinguna. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta