Nr. 79/2019 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 21. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 79/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU18120040
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 11. desember 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. nóvember 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 27. febrúar 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 24. október 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 22. nóvember 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 11. desember 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 4. janúar 2019, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn í málinu dagana 17., 22. og 30. janúar 2019. Kærandi óskaði eftir því í greinargerð að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Kærandi kom fyrir nefndina þann 7. febrúar sl., ásamt talsmanni sínum og símatúlki. Þá lagði kærandi fram fyrir kærunefnd frekari viðbótargögn þann 14. febrúar sl.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann eigi á hættu að verða þolandi heiðursmorðs þar sem hann hafi átt í ástarsambandi við stúlku utan hjúskapar, sem hafi verið álitið atlaga að heiðri fjölskyldu stúlkunnar.
Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann ætti á hættu að verða þolandi heiðursmorðs. Frásögn kæranda væri í heild sinni ótrúverðug og ætti sér ekki stoð í fyrirliggjandi landaupplýsingum. Væri því ekki hægt að leggja hana til grundvallar í málinu.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að ástæður flótta hans megi rekja til þess að hann hafi átt í ástarsambandi við stúlku utan hjúskapar. Hún sé af ættbálknum [...], en sá ættbálkur tileinki sér strangar reglur. Þegar upp hafi komist um samband kæranda við stúlkuna hafi hann fengið líflátshótanir frá föður hennar, föðurbróður og bræðrum. Þeir hafi jafnframt beitt foreldra hans ofbeldi, brennt hús hans og pyndað vin hans. Þeir líti svo á að hann sé búinn að smána fjölskylduna og heiður stúlkunnar og ekki komi annað til greina en að taka hann af lífi. Kærandi kveður að föðurbróðir stúlkunnar hafi verið yfirmaður öryggissveitar [...], er nefnist [...], á heimasvæði kæranda. Þá kveður kærandi að hann viti ekki hvort stúlkan sé lífs eða liðin og hann sé viss um að hann verði tekinn af lífi verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi kveður að niðurstaða kvarðaprófs (e. refugee health screener), sem lagt hafi verið fyrir hann í þjónustuviðtali hjá Útlendingastofnun, hafi gefið til kynna að hann glími við andlega erfiðleika. Hann hafi verið í sálfræðitímum síðan þá, fyrst á Göngudeild sóttvarna og nú hjá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.
Kærandi byggir aðal- og varakröfu sína á því að hann sé flóttamaður skv. skilgreiningu 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi skv. því að hljóta alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 40. gr. laganna. Til stuðnings þrautavarakröfu sinni byggir kærandi á því að hann uppfylli skilyrði dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Þá rekur kærandi í greinargerð sinni ástand mannréttindamála í [...] og vísar í því sambandi til ýmissa skýrslna og gagna þar um, þ. á m. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mannréttindi í [...] fyrir árið 2017. Í framangreindri skýrslu komi m.a. fram að helstu mannréttindabrot í landinu á árinu 2017 hafi verið manndráp af hálfu öryggissveita ríkisins, mannshvörf og kúganir, pyndingar, illvígar og lífshættulegar aðstæður í fangelsum, handahófskenndar frelsissviptingar, inngrip í einkalíf fólks, takmarkanir á tjáningarfrelsi, ofbeldi gegn fjölmiðlafólki, víðtæk spilling hins opinbera, mildun refsinga vegna heiðursmorða, þvingaðar fóstureyðingar af hálfu [...], takmarkanir á ferðafrelsi kvenna, mansal og morð vígahópa á hinsegin fólki. Í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 2016 komi fram að stofnunin hvetji ríki til að snúa ekki til baka [...], gegn vilja þeirra, sem komi frá svæðum í [...] sem séu undir áhrifum af stríðsátökum, teljist óörugg eða séu undir stjórn [...]. Þá séu aðstæður og lífskjör fólks í [...] afar slæm og ástand mannúðarmála með því bágasta sem gerist í heiminum.
Kærandi fjallar enn fremur um aðstæður á yfirráðasvæði [...] í [...], en samkvæmt gögnum málsins sé kærandi frá bænum [...] í [...]. Kveður kærandi m.a. að svokallað heiðurstengt ofbeldi sé algengt meðal [...] í [...]. Konur séu þó almennt líklegri til að verða fyrir heiðurstengdu ofbeldi en þegar karlar séu myrtir í tengslum við slíka deilu hafi það meira að gera með hefnd heldur en endurreisn heiðurs fjölskyldunnar.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir þar sem hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi tilheyri hópi einstaklinga sem hafi, eða séu taldir hafa, tekið þátt í athæfi sem sé fordæmt af samfélaginu og verði ekki tekið til baka. Kærandi óttist heiðursmorð vegna ástarsambands sem hann hafi átt við stúlku utan hjúskapar. Með tilliti til þess að föðurbróðir stúlkunnar sé háttsettur innan öryggissveitar [...], faðir hennar starfi á skrifstofu stjórnmálaflokks [...] og bræður hennar hjá lögreglunni, séu meiri líkur á því að kærandi eigi á hættu slíkt ofbeldi og lögreglan muni ekki veita honum vernd. Kærandi hafi greint frá alvarlegum hótunum og ofbeldi af hálfu föður stúlkunnar, föðurbróður og bræðra. Þeir hafi beitt kæranda ofbeldi, brennt hús fjölskyldunnar, hótað honum lífláti, pyndað vin hans og handtekið mág hans. Þá stendur kærandi í þeirri trú að þeir hafi bundið enda á líf stúlkunnar. Enn fremur sé fjölskylda kæranda í hættu. Í ljósi þess hafi kærandi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af þeirra hendi en hann sé viss um að hann verði myrtur verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Um þá sem séu valdir að ofsóknunum vísar kærandi til a- og c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og þess að aðilar þeir sem hann óttist séu valdamiklir í [...]. Þá taki ríkið þátt í ofsóknum á þeim þjóðfélagshópi sem kærandi tilheyri með því að umbera, vernda eða jafnvel hvetja gerendur heiðursmorða. Þá séu engin úrræði í boði fyrir karlkyns þolendur heiðurtengds ofbeldis. Kærandi telji að með endursendingu hans til [...] yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.
Til stuðnings varakröfu sinni um viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, vísar kærandi m.a. til 3. og 4. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuráðsins nr. 2004/83/EB frá 29. apríl 2004, um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Það að kærandi hafi þegar orðið fyrir ofsóknum sé vísbending um raunverulega hættu á því að verða fyrir alvarlegum skaða. Sem fyrr segir hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum til [...] vegna vopnaðra átaka sem hafi átt sér stað þar. Með tilliti til þess hversu óstöðugt ástandið sé telji kærandi ótímabært að líta svo á að stríðsástandi í landinu sé lokið.
Til stuðnings þrautavarakröfu sinni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, vísar kærandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu þar sem m.a. komi fram að grundvöllur mannúðardvalarleyfis geti verið alvarlegar aðstæður í heimaríki, s.s. viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá geti útlendingur einnig þurft á vernd að halda vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Vísar kærandi í þessu sambandi til aðstæðna í heimaríki sínu svo og persónulegra aðstæðna sinna, en hann glími m.a. við alvarlega áfallastreituröskun, mikinn kvíða og [...].
Þá gerir kærandi í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. að stofnunin hafi lagt til grundvallar að svæði sem heyri undir [...] stjórnvöld í [...] séu almennt örugg og að lögreglan veiti almennt skilvirka vernd á þeim svæðum. Kærandi gerir enn fremur athugasemd við það mat stofnunarinnar að karlmenn í [...] eigi almennt ekki á hættu að verða þolendur heiðursglæpa heldur blóðhefndar eða annars konar hefndar. Enn fremur telji kærandi það ekki skipta máli þar sem bæði blóðhefnd og heiðursglæpir geti verið heiðurstengdir. Þá gerir kærandi ýmsar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar, þ. á m. áherslu stofnunarinnar á framlagningu gagna af hans hálfu til stuðnings framburði sínum. Vísar kærandi í því sambandi m.a. til handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna.
Kærandi kveður þá að niðurstaða Útlendingastofnunar í máli hans sé ekki í samræmi við aðrar fyrri ákvarðanir stofnunarinnar í sambærilegum málum og vísar í því sambandi til ákvarðana stofnunarinnar í stjórnsýslumálum nr. 2017-03110 frá 27. febrúar 2018, nr. 2017-04757 frá 6. apríl 2018, nr. 2017-04411 og 2017-04412 frá 27. ágúst 2018, nr. 2017-08890 frá 7. september 2018 og nr. 2017-04767 frá 13. september 2018, svo og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Þá lagði kærandi fram ýmis gögn til stuðnings kæru sinni, þ. á m. myndir og myndband sem hann kveður vera af sér og stúlkunni sem hann hafi verið að hitta, svo og myndir af húsi fjölskyldu hans fyrir og eftir meinta íkveikju, myndir af ætluðum föður og föðurbróður stúlkunnar, útprentun samskipta úr smáforritinu Viber, sem hann kveður vera milli sín og stúlkunnar, staðfestingu á komu í viðtöl til sálfræðings og komunótur frá Göngudeild sóttvarna.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hefði kærandi lagt fram ljósrit af [...] skilríkjum sínum. Kærandi hefði ekki sannað hver hann hver hann væri með fullnægjandi hætti og því yrði leyst úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika. Þá kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að þegar tekið hefði verið tillit til niðurstöðu tungumála- og staðháttaprófs, ljósrita skilríkja sem kærandi hefði lagt fram, ásamt því að hann talaði og skildi [...], væri það mat stofnunarinnar að rétt væri að leggja til grundvallar að hann væri frá [...]. Hefur kærunefnd ekki forsendur til að hnekkja því mati Útlendingastofnunar og verður byggt á því í máli þessu að kærandi sé frá [...]. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
• [...].
Samkvæmt framangreindum gögnum er [...] lýðræðisríki með rúmlega [...] milljónir íbúa. [...] varð til eftir fyrri heimsstyrjöldina þegar sigurvegarar stríðsins skiptu [...] á milli sín. Ríkið var [...] yfirráðasvæði fram til ársins [...], þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið [...] þegar komið var á fót lýðveldi. Árið [...] gerðist [...] aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið [...]. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið [...], alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið [...] og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið [...].
Í framangreindum gögnum kemur fram að frá árinu [...] til [...] hafi [...] verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn [...]. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar [...]. Frá [...] hafi ástandið á mörgum svæðum í [...] verið óstöðugt. [...]. Frá þeim tíma hafi [...] stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í [...] landsins sem [...] hafi á valdi sínu. Þá hafi [...] yfirvöld ekki fulla stjórn yfir hersveitum sínum og dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda fremji mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í [...] sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum [...] frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt [...]. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í [...], þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að [...] frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.
Ráða má af framangreindum gögnum að spilling sé mikið vandamál í [...], þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu [...] til [...] hafi [...] stjórnvöld unnið í samstarfi við [...] að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist [...] ([...]) og hafi m.a. 1800 lögreglumenn og 900 dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.
Í framangreindum gögnum kemur þá fram að flestir [...] í [...] búi í norðurhluta landsins. Áður en [...] hafi héruð í norðurhluta landsins lotið stjórn pólitískra yfirvalda [...]. Árið [...] hafi [...] verið tryggð [...] og sé norðausturhluti landsins skilgreindur sem [...] (e. [...]). Löggæsla sé mun markvissari í [...], sé það landsvæði borið saman við suður og mið-[...]. Stofnanir eins og lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi séu til staðar á svæðinu og heyri þær undir [...] en ekki ríkisstjórn [...]. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé [...] einnig með öryggissveitir sem nefnist [...]. Hersveitir [...] hersins, [...], tryggi að [...] séu tiltölulega örugg miðað við önnur svæði í [...]. Her [...] og öryggissveitir þeirra hafi unnið hörðum höndum við að verja svæðið gegn uppreisnarmönnum [...] og annarra tengdra samtaka.
Af framangreindum gögnum má ráða að á undanförnum árum og áratugum hafi verið spenna milli [...] og stjórnvalda í [...]. Meðal annars hafi verið deilt um stærð þess svæðis sem lúti [...]. Þann [...] hafi farið fram atkvæðagreiðsla meðal íbúa [...] að tilstuðlan forseta [...] þar sem kosið hafi verið um stofnun sjálfstæðs ríkis [...]. [...] stjórnvöld hafi mótmælt atkvæðagreiðslunni og viðurkenndu ekki niðurstöður kosninganna. Tæplega [...]% kjósenda hafi kosið með sjálfstæði en fréttir hafi borist af því að minnihlutahópar á deilusvæðum hafi verið beittir miklum þrýstingi til að kjósa annaðhvort með eða á móti. Í kjölfar kosninganna hafi [...] stjórnarherinn tekið aftur stjórn yfir ytri landamærum [...] innan [...] og landsvæðum sem hafi verið undir stjórn [...] yfirvalda frá árinu [...], þ. á m. borgina [...]. Þá hafi forseti [...] sagt af sér í [...]. Áratugum saman hafi tveir stjórnmálaflokkar verið ráðandi í [...] en það eru [...] flokkurinn (e. [...]) og [...] flokkurinn (e. [...]). Í [...] hafi orðið talsverðar breytingar þegar [...] flokkurinn hafi misst stöðu sína sem næststærsti flokkurinn til klofningsframboðsins [...] (e. [...]). Í nýafstöðnum kosningum sem hafi farið fram þann [...] hafi [...] flokkurinn endurheimt stöðu sína sem annar stærsti flokkurinn og [...] flokkurinn haldið stöðu sinni sem stærsti flokkurinn í [...]. Samband [...] flokksins og [...] hafi jafnan verið stirt og einkennst af vantrausti sem og vopnuðum átökum.
Í framangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að heiðurstengt ofbeldi sé refsivert samkvæmt landslögum þá sé það nokkuð útbreitt í menningu [...]. Heiðursmorð sé yfirleitt morð á kvenkyns ættingja sem framið sé í því skyni að endurheimta heiður fjölskyldunnar þar sem þolandinn hafi á einhvern hátt vanvirt fjölskylduna. [...] tilheyri mismunandi ættbálkum og lifi eftir fornum ættbálkasiðum, venjum og lögum, en hefðbundin fjölskyldugildi séu rótgróin í menningunni. Séu konur í miklum meirihluta þeirra sem verði fórnarlömb heiðursglæpa og þá yfirleitt fyrir að hafa, að mati fjölskyldna þeirra, fært skömm yfir fjölskylduna með einhverjum hætti. Einnig séu heimildir um að karlmenn eigi á hættu að verða fórnarlömb heiðursglæpa en ástæður fyrir því séu einkum þegar karlmenn neiti að ganga í skipulagðan hjúskap, séu opinberlega samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir eða neiti að taka þátt í heiðurstengdu ofbeldi gegn öðrum. Í framangreindri skýrslu [...] segir m.a. að karlmenn sem eigi í samböndum utan hjúskapar séu ekki taldir smána heiður fjölskyldunnar og að karlmenn í slíkum aðstæðum eigi oft auðvelt með að komast hjá deilum. Hins vegar séu karlmenn undir þrýstingi um að giftast og dæmi séu um að menn hafi verið drepnir. Þá segir að þegar karlmaður sé myrtur í heiðursdeilu eigi það frekar rætur að rekja til hefndar eða blóðhefndar en heiðurs fjölskyldunnar. Í slíkum málum séu báðar fjölskyldurnar vanalega samþykkar morðinu. Í gögnunum kemur fram að heiðursglæpir séu algengari á dreifbýlli svæðum en í stærri borgum í [...]. Árið [...] hafi [...] yfirvöld breytt [...] hegningarlögum á þann veg að heiðursmorð eru skilgreind sem manndráp og gerendur því saksóttir á þeim grundvelli. Þá hafi verið samþykkt lög árið [...] sem banni mildun refsinga fyrir heiðursglæpi. Hins vegar séu heimildir um það að [...] stjórnvöld hafi látið hjá líða að saksækja gerendur ofbeldisglæpa gegn konum, þar á meðal heiðursglæpa.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kröfur kæranda um alþjóðlega vernd og mannúðardvalarleyfi byggja á því að hann eigi á hættu að verða þolandi heiðursglæps þar sem hann hafi átt í ástarsambandi við stúlku í heimaríki utan hjúskapar. Þá geti hann ekki leitað aðstoðar yfirvalda vegna aðstæðna sinna sökum tengsla fjölskyldu stúlkunnar við stjórnvöld og öryggissveitir í heimaríki.
Svo sem fram hefur komið var niðurstaða Útlendingastofnunar í máli kæranda einkum byggð á því að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann ætti á hættu að verða þolandi heiðursglæps. Að mati stofnunarinnar væri framburður kæranda þar um ótrúverðugur en samkvæmt fyrirliggjandi landaupplýsingum væri sjaldgæft að karlmenn væru þolendur heiðursmorða. Heimildir bæru með sér að þegar um samvistir utan hjúskapar væri að ræða væri heiður fjölskyldunnar bundinn við konur. Þá hefði kærandi ekki lagt fram haldbær gögn til stuðnings framburði sínum.
Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 7. febrúar sl. Var vitnisburður kæranda í meginatriðum sambærilegur þeim sem hann gaf í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Í viðtali hjá kærunefnd var hann m.a. spurður nánar út í samband sitt við téða stúlku, ætlaðar árásir og ofsóknir gegn honum sjálfum, fjölskyldu hans og tengdum aðilum vegna sambands hans við stúlkuna, ætluð tengsl föður og föðurbróður stúlkunnar við stjórnmálaflokkinn [...] og öryggissveit [...], framlögð gögn hans o.fl. Aðspurður kvað kærandi að fjölskylda hans, nágrannar eða aðrir nærstaddir hefðu ekki tilkynnt lögreglu um meintar árásir af hálfu aðila tengdum stúlkunni, þ. á m. íkveikju og skothríð. Þá kvað kærandi, aðspurður, að hann gæti ekki sýnt fram á tengsl milli stúlkunnar og starfsmanns stjórnmálaflokksins [...] eða yfirmanns öryggissveita [...].
Hefur kærunefnd lagt mat á trúverðugleika kæranda með tilliti til endurrita af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, framburðar hans fyrir kærunefnd þann 7. febrúar sl. og annarra fyrirliggjandi gagna. Við mat á trúverðugleika framburðar kæranda tekur kærunefnd tillit til þess að umsækjendur hafa í mörgum tilvikum upplifað atburði sem gera það að verkum að minni þeirra um tiltekin atvik, sem leiddu til flótta þeirra frá heimaríki, getur verið reikult. Við þær aðstæður og þegar er langt er um liðið síðan atvik áttu sér stað lítur kærunefnd ekki svo á að misræmi, t.d. að því er varðar nákvæma tímaröð atburða og dagsetningar þeirra, hafi þau áhrif að framburður umsækjenda verði í heild sinni metinn ótrúverðugur af þeim sökum eingöngu. Á hinn bóginn verður ekki horft fram hjá því að mikilvæg atriði í framburði kæranda stangast á við opinberar og aðgengilegar upplýsingar um aðstæður í [...].
Kærandi hefur lagt fram ýmis gögn til stuðnings kæru sinni, einkum varðandi samband hans við téða stúlku. Þá hefur kærandi lagt fram myndir af ætlaðri fjölskyldu sinni og húsi þeirra fyrir og eftir meinta íkveikju, svo og myndir af ætluðum föður- og föðurbróður stúlkunnar. Hins vegar sýna framlögð gögn ekki fram á tengsl meintra valdamanna innan [...] og [...] við stúlkuna, né heldur ofsóknir sem hann og fjölskylda hans hafi sætt af hálfu aðila tengdum henni. Í ljósi fyrirliggjandi landaupplýsinga, þess efnis að karlmenn í [...] og fjölskyldur þeirra séu alla jafna ekki þolendur heiðursglæpa, telur kærunefnd ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu að kærandi styðji framburð sinn þar um haldbærum gögnum.
Af framburði kæranda og framlögðum gögnum verður ekki útilokað að hann hafi átt í ástarsambandi í heimaríki við konu utan hjúskapar. Að mati kærunefndar hefur kærandi hins vegar ekki sýnt fram á að hann eða fjölskylda hans hafi þolað eða átt á hættu að þola ofsóknir í heimaríki vegna þess.
Eins og rakið er í greinargerð kæranda hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum einstaklinga til [...] sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa; þar sem ástandið er óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn [...] eða þeim svæðum þar sem [...] er enn við völd. Þá telur Flóttamannastofnun óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan [...]. Samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að heimabær kæranda, [...], sé á öruggu svæði í [...]. Verður því ekki talið að viðvörun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eigi við um einstaklinga sem séu í sambærilegri stöðu og kærandi.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir eindregið til þess að svæði [...] sé talið öruggt og að lögregla og öryggissveitir [...] séu öflugar og vel búnar. Þá sé heimabær kæranda, [...], langt inni í landi [...] þar sem lögregla og öryggissveitir hafi stjórn á aðstæðum. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, á heimasvæði sínu í [...], á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til [...].
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við 74. gr., í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um útlendinga, kemur m.a. fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi kveður að hann eigi á hættu að verða þolandi heiðursmorðs þar sem hann hafi átt í ástarsambandi við stúlku í heimaríki utan hjúskapar. Vegna tengsla valdamikilla aðila innan fjölskyldu stúlkunnar geti kærandi ekki leitað aðstoðar þarlendra yfirvalda vegna aðstæðna sinna. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna, þ. á m. upplýsinga um aðstæður í [...], framburðar kæranda, framlagðra gagna hans og annarra gagna sem hafa orðið til við meðferð máls hans fyrir stjórnvöldum, er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á slíkar aðstæður í heimaríki.
Þá segir jafnframt, í lögskýringargögnum að baki 74. gr., að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í heimalandinu en viðkomandi hefur ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm er að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Líkt og fram hefur komið lagði kærandi m.a. fram með kæru sinni staðfestingu á komu í sálfræðiviðtöl og komunótur frá Göngudeild sóttvarna. Í ofangreindum heilsufarsgögnum kemur m.a. fram að kærandi hafi sýnt einkenni áfallastreitu, þunglyndis og kvíða. Ekki liggur þó annað fyrir en að kærandi sé að öðru leyti almennt heilsuhraustur. Þá gefa fyrirliggjandi gögn um aðstæður í [...] til kynna að grunnheilbrigðisþjónusta standi almenningi þar til boða endurgjaldslaust.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar
Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar. Kveður kærandi m.a. að niðurstaða Útlendingastofnunar í máli hans sé ekki í samræmi við aðrar fyrri ákvarðanir stofnunarinnar í sambærilegum málum. Vísar kærandi í því sambandi til sex ákvarðana stofnunarinnar, svo og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.
Í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að við úrlausn mála skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í athugasemdum í greinargerð við frumvarp það er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að í ákvæðinu felist að mál sem séu sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta sams konar úrlausn. Í þessu sambandi verði þó að hafa í huga að ekki er um að ræða mismunun í lagalegu tilliti jafnvel þótt mismunur sé á úrlausn mála, byggist sá mismunur á frambærilegum og lögmætum sjónarmiðum. Það leiðir af texta 11. gr. stjórnsýslulaga að við mat á því hvort jafnræðisreglan hafi verið brotin er það grundvallaratriði að taka afstöðu til þess hvort tilvik tveggja borgara séu sambærileg „í lagalegu tilliti“.
Ákvarðanir Útlendingastofnunar hafa ekki fordæmisgildi fyrir kærunefnd útlendingamála. Þá telur kærunefnd rétt að árétta að niðurstaða um veitingu alþjóðlegrar verndar skv. 37. gr. laga um útlendinga byggir á mati stjórnvalda á mörgum þáttum. Þótt tveir einstaklingar byggi mál sín á ástæðum sem við fyrstu sýn virðast sambærilegar geta málin reynst mismunandi í grundvallaratriðum, svo sem vegna trúverðugleika frásagnar umsækjanda og nýrra upplýsinga um aðstæður í heimaríki hans. Að því er varðar stjórnsýsluframkvæmd sem kærandi vísar til gefur skoðun kærunefndar til kynna að niðurstaða málanna hafi að miklu eða öllu leyti ráðist af trúverðugleikamati. Af skoðun kærunefndar verður því ekki ráðið að hin kærða ákvörðun sé í ósamræmi við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Þá hefur kærunefnd farið yfir hina kærðu ákvörðun með tilliti til annarra athugasemda kæranda og telur nefndin ekki tilefni til að gera athugasemdir við ákvörðunina að öðru leyti. Kærunefnd hefur enn fremur endurskoðað alla þætti málsins, þ. á m. trúverðugleika kæranda, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands 27. febrúar 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Anna Tryggvadóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir