Hoppa yfir valmynd
22. mars 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Heildarúttekt gerð á fyrirkomulagi upprunaábyrgða raforku á Íslandi

Heildarúttekt á kerfi upprunaábyrgða með tilliti til íslenskra hagsmuna, innlendra fyrirtækja og notenda bendir ekki til þess að  ástæða sé til að gera breytingar á upprunaábyrgðarkerfinu á Íslandi, nema í samráði við önnur EFTA-ríki. Þetta kemur fram í skýrslunni  Fyrirkomulag upprunaábyrgða raforku á Íslandi, sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið lét vinna. Við gerð skýrslunnarvar leitað til innlendra og erlendra hagaðila.

Með upprunaábyrgð fæst staðfesting á því að tiltekið magn raforku hafi verið framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum en raforkunotandi getur valið að kaupa upprunaábyrgð vegna sinnar notkunar. Regluverk um upprunaábyrgðir var innleitt hér á landi árið 2008 á grundvelli EES- samningsins. Meginmarkmið kerfisins er að stuðla að aukinni endurnýjanlegri orkuframleiðslu.

Virði upprunaábyrgðanna og mikilvægi þeirra hefur vaxið mikið með meiri áherslu atvinnulífs og neytenda á orkuskipti og grænar afurðir. Miðað við uppsett afl endurnýjanlegrar orku hér á landi ætti fræðilegt virði upprunaábyrgða raforku árið 2023, fyrir utan varmaorku, að vera um €122,7 milljónir eða um 18,3 milljarða króna.

Líklegt er talið að eftirspurn eftir upprunaábyrgðum eigi eftir að aukast verulega á næstu árum, þá einnig frá innlendum aðilum þar sem meiri eftirspurn er eftir framleiðsluvörum sem framleiddar eru með endurnýjanlegri orku. Í skýrslunni er mælst til þess að lagalegt og efnahagslegt svigrúm verði skoðað til að koma til móts við hagsmuni íslensks iðnaðar og tryggja að samkeppnishæfni hans verði tryggð til framtíðar með samkeppnishæfu orkuverði.

Fyrirkomulag upprunaábyrgða raforku á Íslandi 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta