Ráðherra ítrekar stuðning við samkynhneigða í Úganda
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, átti í gær fund með Maríu Kiwanuka, fjármálaráðherra Úganda, í tengslum við vorfundi Alþjóðabankans í Washington. Úganda er eitt a þremur samstarfslöndum Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu.
Á fundinum ítrekaði Gunnar Bragi vonbrigði sín með að forseti Úganda hafi undirritað lög sem herða enn viðurlög við samkynhneigð. Ákvæði laganna brjóta gegn mannréttindum sem tryggð eru í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmála Afríku og í sáttmála SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Úganda hefur fullgilt.
Utanríkisráðherra sagði að íslensk stjórnvöld styðji réttindabaráttu hinsegin fólks á alþjóðavettvangi og að hann harmi að þessi lög hafi tekið gildi. Einnig ítrekaði hann að það sé skylda stjórnvalda að standa vörð um mannréttindi allra þegna sinna, samkynhneigðra jafnt sem annarra. Gunnar Bragi sagði að ekki hafi enn verið tekin ákvörðun um framtíð þróunarsamvinnu ríkjanna í kjölfar lagasetningarinnar.
Ráðherrarnir ræddu þróunarsamvinnu Íslands og Úganda. Tvíhliða þróunarsamvinna ríkjanna felst í samstarfi við héraðsyfirvöld um byggðarþróunarverkefni m.a. á sviði stjórnsýslu, mennta- og fiskimála. Lýsti ráðherra Úganda yfir mikilli ánægju með samstarfið, enda hafi það skilað árangri í bættri menntun og lífskjörum í Kalangala héraði.