Breyting á lista öruggra ríkja hefur ekki verið staðfest
Frá því í júní 2020 hafa Schengen-ríkin stuðst við lista yfir svokölluð örugg ríki þegar kemur að ferðatakmörkunum vegna Covid-19 inn á Schengen-svæðið. Þriðja ríkis borgarar sem koma frá og hafa búsetu í öruggu landi, þurfa þá ekki að sæta takmörkunum á ónauðsynlegum ferðum. Það þýddi í tilfelli Íslands að óbólusettir ferðamenn sem komu frá slíkum ríkjum, þar á meðal Bandaríkjamenn, gátu komið til landsins en þurftu að framvísa PCR-vottorði við brottför, ásamt tvöfaldri PCR-sýnatöku og 5 daga sóttkví á milli við komu til landsins. Ísland hafði frumkvæði að því í mars á þessu ári að láta almennt bann við ónauðsynlegum ferðum ekki ná til einstaklinga með fullnægjandi bólusetningarvottorð. Sú breyting var í kjölfarið innleidd í öðrum Schengen-ríkjum.
Listinn yfir örugg ríki hefur tekið stöðugum breytingum í samræmi við þróun Covid-19 faraldursins í löndum heimsins og þann 30. ágúst sl. voru Bandaríkin, Ísrael, Kósóvó, Líbanon, Svartfjallaland, og Norður-Makedónía tekin af lista yfir örugg ríki. Sú ráðstöfun er tekin í ljósi stöðu Covid-19 í þessum löndum.
Dómsmálaráðherra hefur ekki staðfest þessa breytingu fyrir Íslands hönd. Tilmælin eru ekki lagalega bindandi. Þessi breyting á lista yfir örugg ríki hefði aðeins áhrif á óbólusetta ferðamenn sem eru ekki að koma hingað vegna vinnu eða vegna fjölskyldutengsla. Slík breyting hefði engin áhrif á bólusetta ferðamenn sem er langstærsti hópurinn sem hingað kemur.
Á síðu ríkislögreglustjóra er að finna gildandi reglur um ferðatakmarkanir vegna Covid-19.og sömuleiðis er bent á handhæga leið til að feta sig í gegnum reglurnar miðað við stöðu og brottfararstað hverju sinni á slóðinni island.is/entry
Ferðatakmarkanir vegna Covid-19 eiga ekki við um útlendinga sem ferðast til landsins vegna brýnna erindagjörða, þ.á.m. eftirtaldir:
- farþegar í tengiflugi,
- starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu,
- starfsfólk sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu,
- einstaklingar sem hafa þörf á alþjóðlegri vernd,
- einstaklingar sem þurfa að ferðast vegna brýnna aðstæðna í fjölskyldu sinni,
- einstaklingar og sendinefndir sem koma til landsins á vegum íslenskra stjórnvalda, starfsmenn sendiskrifstofa og aðrir fulltrúar erlendra ríkja, starfsmenn alþjóðastofnana og einstaklingar í boði þeirra sem þurfa að koma til landsins vegna starfsemi þessara stofnana, fulltrúar herliðs, og starfsmenn sem sinna mannúðaraðstoð og almannavörnum og fjölskyldur framangreindra aðila.
- námsmenn,
- einstaklingar sem þurfa nauðsynlega að ferðast vegna viðskipta eða starfa sem eru þess eðlis að þau er ekki hægt að framkvæma síðar eða erlendis.