Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 67/2011


Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. júlí 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 67/2011.

 

1. Málsatvik og kæruefni

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í máli A, 2. febrúar 2012. Vinnumálastofnun hafði, á fundi sínum 7. desember 2010, tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann væri í námi samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta, án þess að fyrir lægi námssamningur við Vinnumálastofnun. Var ákvörðunin tekin á grundvelli 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 20. ágúst til 19. október 2010 að fjárhæð 346.165 kr. sem honum bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 22. apríl 2011. Kærandi krafðist þess að hin kærða ákvörðun yrði endurskoðuð. Vinnumálastofnun taldi að staðfesta bæri hina kærðu ákvörðun.

Með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 2. febrúar 2012 var sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda staðfest. Kæranda var einnig gert að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals 301.013 kr.

Kærandi kvartaði yfir þessum úrskurði til umboðsmanns Alþingis. Í bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. júní 2013, til kæranda, var honum tilkynnt að úrskurðarnefndin hefði í tilefni af kvörtun hans ákveðið að taka málið til nýrrar meðferðar. Umboðsmanni Alþingis var sent afrit af umræddu bréfi.

Framangreint bréf Vinnumálastofnunar var sent umboðsmanni Alþingis með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. febrúar 2013.

 

2. Niðurstaða

Kærandi hefur haldið því fram að Vinnumálastofnun hafi ekki veitt honum fullnægjandi leiðbeiningar og hafi ekki rannsakað mál hans sem skyldi, sbr. 1. mgr. 7. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Fallast ber á að Vinnumálastofnun hafi átt að rannsaka mál kæranda nánar í ágúst 2010 áður en sú ákvörðun var tekin að veita honum atvinnuleysisbætur. Þetta byggist á því að upplýsingar um nám kæranda frá B og í umsókn hans um atvinnuleysisbætur stönguðust á. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafa verið brotin í málinu.

Skoða verður leiðbeiningarskyldu Vinnumálastofnunar í þessu samhengi. Ef mál kæranda hefði verið rannsakað með fullnægjandi hætti hefði komið í ljós að hann var í reynd skráður í nám. Það er óhjákvæmilegt að leggja á það mat hvort brot á rannsóknarskyldu hafi þannig leitt til þess að kæranda var ekki leiðbeint með réttum hættu um réttindi sín. Einnig er nauðsynlegt að leggja á það mat hvaða réttindi hefðu staðið kæranda til boða ef það hefði legið fyrir við umsókn hans að hann var í námi.

Úrskurðarnefndin hefur skoðað sérstaklega hvort kærandi hefði átt möguleika á námssamningi ef það hefði legið fyrir við umsókn hans að hann var skráður í nám. Nefndin skoðaði einnig hvort fordæmi séu fyrir því að námssamningur hafi verið gerðir við bótaþega aftur í tímann. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun er nám það sem kærandi stundaði viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði samkvæmt reglugerð nr. 13/2009 og því er ekki unnt að útiloka að kærandi hefði í reynd átt möguleika á námssamningi ef eftir því hefði verið leitað. Það kom einnig fram af hálfu Vinnumálastofnunar að fordæmi séu fyrir því að námssamningar hafi verið gerðir afturvirkt, enda mæli sérstakar ástæður með slíkum afturvirkum samningi.

Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar er ekki hægt að útiloka að brot á rannsóknarskyldu í máli kæranda hafi í reynd leitt til þess að honum var ekki leiðbeint á fullnægjandi hátt um möguleika sína á því að gera námssamning við Vinnumálastofnun. Mistök stofnunarinnar kunna þannig að hafa leitt til þess að hann missti af réttindum sem hann hefði að öðrum kosti geta nýtt sér.

Með hliðsjón af framansögðu telur úrskurðarnefndin rétt að ógilda ákvörðun Vinnumálastofnunar og vísa máli kæranda til löglegrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 20. október 2010 er ógilt og málinu vísað til löglegrar meðferðar.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta