Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 43/2004

Mál nr. 43/2004

Þriðjudaginn, 18. janúar 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 25. október 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 18. október 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 29. júlí 2004 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars.:

„Í umsögn Tryggingastofnunar er vísað í 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 til stuðnings synjunarinnar. Við lestur viðkomandi lagagreinar má sjá að einungis fyrsta setning hennar er lögð til grundvallar synjunar, en þar segir að foreldri öðlist rétt til greiðslna „eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs“. Sem megin ástæðu synjunar er vísað til þess að ég var ekki á vinnumarkaði frá febrúar til fæðingardags barns 14. apríl 2003. Framhald lagagreinarinnar hljóðar hins vegar svo: „Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum [eða aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu] 1) hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs“. Í mínu tilviki er um það að ræða að ég vann ekki bara einn mánuð á landinu sem settur er sem lágmarkshluti af sex mánuðunum heldur vann ég fjóra mánuði. Mér þykir því ljóst að réttur minn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er til staðar.

Þá átel ég vinnubrögð Tryggingastofnunar þegar leitað var til þeirra um upplýsingar áður en búferlaflutningur var ákveðinn. Ég hafði starfað á íslenskum vinnumarkaði nær samfellt frá miðju ári 1997 fram til þess tíma er ég flyt búferlum til B-lands í febrúar 2003, þá eigandi von á mínu öðru barni. Sú ákvörðun að flytja á þeim tímapunkti var að stórum hluta byggð á svörum sem ég og barnsmóðir mín höfðum fengið hjá Tryggingastofnun um stöðu okkar og rétt til fæðingarorlofs. Við létum því verða af flutningum þrátt fyrir að stutt væri í væntanlegan fæðingardag barns okkar. Því miður voru þessi samskipti eingöngu símleiðis en við leituðum í fleira en eitt skipti til Tryggingastofnunar í sveitarfélaginu D og í sveitarfélaginu E. Svörin voru öll afgerandi á þann veg að við værum á engan hátt að fyrirgera neinum rétti með því að flytja fyrir áætlaðan fæðingardag. Eftir fæðingu barnsins kom í ljós að samkvæmt gildandi reglum í B-landi á ég sem faðir engan rétt til fæðingarorlofs frá B-lenska kerfinu. Þetta stangaðist á við þau svör er við höfðum fengið fyrir búferlaflutning okkar.

Þykir mér umhugsunarvert að íslenskur ríkis- og skattborgari, verðandi faðir í þessu tilviki, flytji til B-lands einum og hálfum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns sín og hefur þar störf, standi svo frammi fyrir því að hann hafi engan rétt eða möguleika til fæðingarorlofs hvorki frá sínu heimalandi né heldur frá tímabundnu búsetulandi (B-landi); m.ö.o. að allur hans réttur sem faðir einfaldlega hverfi við búferlaflutninginn. Bæði löndin eru aðilar að EES og að auki er í gildi samningur milli Norðurlandanna um sameiginlegt tryggingakerfi. Einnig má benda á Reglur um Almannatryggingar á evrópsku efnahagssvæði þar sem segir: „5.02.01.03 Útflutningsreglan á að tryggja að bætur almannatrygginga séu greiddar hvar sem er innan svæðisins. Þetta þýðir í meginatriðum að hinn tryggði tapi ekki bótum þó að hann flytji til annars lands innan svæðisins.“

Mér þykir miður að finnast ég þurfa að benda á yfirlýst markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof sem eru skv. 2. gr. „að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður. Þá er lögum þessum ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.“

 

Með bréfi, dagsettu 2. nóvember 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 24. nóvember 2004. Í greinargerðinni segir meðal annars:

„Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 29. júlí 2004, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði væri synjað þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga fyrir greiðslum.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr, laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri á innlendum vinnumarkaði rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er kveðið á um samlagningu starfstímabila og þar er í 1. mgr. áréttað það sem fram kemur í 1. mgr. 13. gr. ffl. að taka skuli til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum þegar meta skuli hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, enda hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á þeim tíma. Síðan segir í 3. mgr. að til að heimilt sé að taka til greina starfstímabil í öðrum ríkjum innan EES-svæðisins skuli foreldri afhenda Tryggingastofnun ríkisins staðfesta yfirlýsingu (E-104) sem sýnir hvaða tryggingatímabilum foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir.

Eins og fram er komið er barn kæranda fætt 14. apríl 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 14. október 2003 til fæðingardags barns. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir lágu þegar umsókn kæranda var til afgreiðslu hjá lífeyristryggingasviði flutti hann til B-lands í febrúar 2003 og hætti þá störfum sínum á Íslandi. Hann var því ekki við vinnu á Íslandi frá því í febrúar 2003 og fram að fæðingu barns hans þann 14. apríl 2003 eða u.þ.b. tvo síðustu mánuðina fyrir fæðingu barnsins. Kærandi afhenti Tryggingastofnun ríkisins ekki staðfesta yfirlýsingu (E-104) þess efnis að tryggingatímabili hans væri lokið erlendis og engar upplýsingar hníga í þá átt að kæranda hafi verið útsendur starfsmaður.

Lífeyristryggingasvið hefur litið svo á að eigi að taka til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkum verði foreldrið að hafa unnið a.m.k. síðasta mánuðinn fyrir upphafsdag fæðingarorlofs hér á landi og að foreldri sé ekki á innlendum vinnumarkaði nema það hafi lokið umræddu sex mánaða tímabili hér á landi. Telur líftryggingasvið að ekki sé nægjanlegt að foreldri hafi unnið einhvern af mánuðunum sex hér á landi, því ljúki foreldrið hinu sex mánaða viðmiðunartímabili með starfi í öðru ríki sé það á vinnumarkaði þess ríkis. Sömu afstöðu er að finna í áðurnefndu ákvæði 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sem gengur greinilega út frá því að tryggingatímabili foreldris í öðru EES-ríki sé lokið og er í samræmi við meginreglur milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að, þ.e. EES-samningsins og Norðurlandasamningsins, sem eru þess efnis að launþegi teljist tryggður í því landi sem hann stundar starf sitt í.

Þar sem kærandi var ekki á innlendum vinnumarkaði síðustu tvo mánuðina fyrir fæðingu barns hans og þar sem lífeyristryggingasvið telur að óheimilt sé að taka til greina starfstíma í öðrum ríkum EES-svæðisins nema tryggingatímabili starfsmanns sé lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir og að lagt hafi verið fram E-104 vottorð því til staðfestingar, telur Tryggingastofnun ríkisins með vísan til alls framangreinds að rétt hafi verið að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Rétt þykir að vekja athygli á vegna fullyrðinga kæranda um að hann eigi ekki rétt á fæðingarorlofi í B-landi að staðfestingar þær sem kærandi hefur lagt fram frá B-lenskum yfirvöldum, annars vegar útprentun frá tryggingastofnuninni í sveitarfélaginu F og hins vegar staðfesting frá tryggingastofnuninni í sveitarfélaginu G, bera með sér að kærandi hefur ekki fengið greitt fæðingarorlof í B-landi. Í staðfestingum þessum kemur á hinn bóginn ekkert fram um það hvort kærandi hafi átt eða eigi rétt til fæðingarorlofsgreiðslna í B-landi. Þá hefur af hálfu kæranda engin tilkynning verið lögð fram um töku fæðingarorlofs né önnur staðfesting á að hann hafi tekið fæðingarorlof, þ.e. leyfi frá launuðum störfum vegna fæðingar barns hans, sbr. skilgreiningu 1. mgr. 7. gr. ffl.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 1. desember 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 27. desember 2004, þar sem kærandi áréttar að hann hafi fengið rangar upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins svo og að hann eigi engan rétt í B-landi og leggur fram gögn því til staðfestingar.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

Krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður eigi byggð á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hins vegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Í 1. mgr. 1. gr. ffl. segir um gildissvið laganna að þau taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Til að heimilt sé að taka til greina starfstíma í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins skv. 1. mgr. skal foreldri afhenda Tryggingastofnun ríkisins staðfesta yfirlýsingu (E-104) sem sýnir hvaða tryggingatímabilum foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrir undir, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Barn kæranda er fætt 14. apríl 2003. Viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er frá 14. október 2002 til fæðingardags barns. Kærandi starfaði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að hann fluttist til B-lands í febrúar 2003, þar sem hann hóf störf.

Með hliðsjón af framangreindu lítur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála svo á að kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingaorlofssjóði þar sem hann hefur ekki sýnt fram á lok tryggingatímabils samkvæmt erlendri löggjöf, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 909/2000, og var ekki á innlendum vinnumarkaði við fæðingu barns.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta