Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 49/2004

Mál nr. 49/2004

Þriðjudaginn, 25. janúar 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 5. nóvember 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 2. nóvember 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 7. október 2004 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars.:

„Þar sem ég stundaði nám frá því er grunnskóla lauk, við B-framhaldsskólann og svo við D-framhaldsskólann. Útskrifaðist af E-braut í desember 2001, hélt svo áfram námi á vorönn 2002 við F-nám. Ákvað svo í framhaldi af því að fara til G-lands og sækja þar um skóla. Sem hefði þá hafist haustið 2003. En vegna fjölda umsókna voru kröfurnar hertar til inngöngu, og fékk ég því ekki inni. Kom svo aftur heim jólin 2003 og hóf nám á H-braut í I-framhaldsskólanum og hef nú sótt um í F-námi í D-framhaldsskólanum eftir áramót. Og ég tel því að ég eigi frekar rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður en húsmóðir.“

 

Með bréfi, dagsettu 1. desember 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 23. desember 2004. Í greinargerðinni segir meðal annars:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).

Kærandi sótti með umsókn, dags. 24. júní 2004, sem móttekin var 25. júní 2004, um fæðingarstyrk námsmanna. Umsókn hennar var vegna barns, sem fætt er 19. júlí 2004, en áætlaður fæðingardagur þess var 4. ágúst 2004.

Með umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 15. júní 2004, staðfesting I-framhaldsskólans, dags. 15. júní 2004 og námsferilsáætlun kæranda við skólann.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 4. ágúst 2004, var kæranda tilkynnt að ekki væri hægt að afgreiða umsókn hennar þar sem gögn vantaði um námsframvindu hennar á haustönn 2003 og var kæranda gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn.

Þann 8. september 2004 bárust lífeyristryggingasviði sömu gögn og fylgdu umsókn kæranda varðandi nám hennar í I-framhaldsskólanum. Enn fremur bárust upplýsingar um að kærandi hefði fengið greidda sjúkradagpeninga tímabilið 1. júní til 18. júlí 2004, þ.e. eftir að vorönn framhaldsskólans lauk og fram að fæðingu barns hennar.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 7. október 2004, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrðið um 6 mánaða samfellt nám á síðustu 12 mánuðunum fyrir fæðingardag barns hennar.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Kærandi stundaði fullt nám í skilningi ffl. í I-framhaldsskólanum á vorönn 2004. Vorönn skólans hefst í ársbyrjun og lýkur með prófum í maí og telst því að hámarki vera fimm mánuðir. Með námi sínu á vorönn 2004 nær kærandi ekki að fullnægja skilyrðunum um að hafa verið í 75-100% samfelldu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðunum fyrir fæðingu barns hennar og nægir það því ekki til að veita henni rétt til fæðingarstyrks námsmanna.

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. a-lið 2. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn sem barn fæðist, sbr. 2 mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 969/2001, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 14. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Í 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002, segir að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getið stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda var ekki talið að nokkur þessara undanþáguheimilda, frá skilyrðinu um að foreldri skuli hafa verið í 75–100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ætti við um aðstæður kæranda. Var í því sambandi sérstaklega til þess litið hvort réttur kæranda til sjúkradagpeninga gæti veitt henni rétt til fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 1. mgr. reglugerðar nr. 969/2001, þar sem til samfellds starfs telst, skv. b-lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldrið látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum.

Kærandi fékk greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður í framhaldi af annarlokum vorið 2004 en ekki sökum þess að hún hefði látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Telur lífeyristryggingasvið því ekki unnt að fallast á að sjúkradagpeningagreiðslur þær sem kærandi fékk á tímabilinu 1. júní til 18. júlí 2004 geti veitt henni þann rétt sem kveðið er á um í 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 969/2001.

Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 19. gr. ffl. Athygli er vakin á að í bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 7. október 2004, kemur fram að hún fái greiddan lægri fæðingarstyrk í 6 mánuði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 27. desember 2004. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Í 7. mgr. sömu greinar segir að ráðherra sé heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Samkvæmt upplýsingum frá I-framhaldsskólanum er almennt miðað við að fullt nám á önn sé 17,5 einingar.

Kærandi elur barn 19. júlí 2004. Með hliðsjón af því er tólf mánaða viðmiðunartímabilið frá 19. júlí 2003 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki skráð í nám á haustönn 2003, hún var skráð í 16 einingar á vorönn 2004, hún fékk síðan metið nám frá öðrum skóla sem varð til þess að hún þurfti ekki að taka tvær einingar og lauk því önninni með 14 einingum. Samkvæmt því var hún í fullu námi á vorönn 2004 sem nægir ekki til að uppfyllt sé skilyrði um 6 mánaða samfellt nám. Frá 1. júní til 18. júlí 2004 fær hún greidda sjúkradagpeninga vegna óvinnufærni.

Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 969/2001 er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 14. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 telst til samfellds starfs sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- og slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Framangreind 5. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er undantekningarákvæði sem túlka ber þröng eftir almennum lögskýringarsjónarmiðum. Kærandi lagði ekki niður launað starf og verður ákvæðið því ekki talið eiga við um hennar aðstæður.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi því ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta