Hoppa yfir valmynd
31. desember 2001 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs árið 2001. Greinargerð 13. febrúar 2002.

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs árið 2001. (PDF 31K)

Nú liggja fyrir tölur um greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrir árið 2001. Uppgjörið hér á eftir sýnir sjóðhreyfingar og er það sambærilegt við almenn sjóðstreymisyfirlit. Tölurnar eru því ekki samanburðarhæfar við rekstraryfirlit ríkisreiknings eða fjárlög ársins sem eru sett fram á rekstrargrunni.

Heildaryfirlit
Árið 2001 var handbært fé frá rekstri neikvætt um 1S milljarð króna, samanborið við 12,1 milljarðs jákvæða stöðu árið áður. Meginástæðu versnandi afkomu ríkissjóðs má rekja til þeirra umskipta sem urðu í efnahagsmálum á árinu sem birtust bæði í samdrætti tekna og auknum útgjöldum vegna meiri verðlags- og gengisbreytinga. Tekjurnar hækka um 13,2 milljarða milli ára, eða 6S%. Tekjurnar voru að mestu í samræmi við áætlun fjárlaga fyrir utan tekjur af sölu eigna. Þær urðu um 14 milljörðum króna lægri, þar sem áform um sölu á hlut ríkisins í Landssímanum og ríkisbönkunum gengu ekki eftir á árinu.

Heildarútgjöld hækka um 25,9 milljarða milli ára. Þar munar mestu um áhrif kjarasamninga, gengisþróunar og almenna verðlagsþróun sem má meta á tæplega hluta hækkunarinnar. Að auki eru ný verkefni og sérstök tilvik, s.s. greiðslur fæðingarorlofs, sérstakar greiðslur til öryrkja, auk raunhækkunar til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og vegna búvörusamnings. Gjöldin urðu 10,3 milljörðum króna umfram fjárlög og skýra verðlagsbreytingar um hluta af umframgjöldunum. Afgangurinn skýrist að mestu af sérstökum greiðslum til öryrkja og hækkun bóta í samræmi við ný lög um almannatryggingar sem tóku gildi á miðju árinu, auk hærri vaxtagreiðslna.


Hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 25,7 milljarða króna. Meginskýringin er, að í ár var sérstöku erlendu láni að fjárhæð 25 milljarðar króna ráðstafað til Seðlabanka Íslands, til að bæta eiginfjárstöðu bankans og til að styrkja gjaldeyrisstöðuna. Þá hefur umtalsverðum fjárhæðum verið varið á undanförnum árum til þess að lækka framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs með sérstökum greiðslum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Á árinu námu þessar greiðslur 12S milljarði króna og samanlagt frá árinu 1998 um 25 milljörðum króna.

Tekjur
Innheimtar heildartekjur ríkissjóðs árið 2001 námu 220,9 milljörðum króna, eða 15 milljörðum minna en í áætlun fjárlaga. Þetta stafar, sem fyrr segir, alfarið af því að tekjur af sölu eigna skiluðu sér ekki nema að litlu leyti. Aðrar tekjur voru í takt við áætlanir. Þannig námu innheimtar heildarskatttekjur 203,3 milljörðum króna, eða 1 milljarði undir áætlun. Frávikið nemur tæplega S%. Innbyrðis samsetning tekna varð hins vegar talsvert önnur en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þannig skiluðu tekjuskattar einstaklinga og tryggingagjöld 6 milljörðum króna umfram áætlanir en veltuskattar voru 7 milljörðum undir áætlun.

Þessi þróun endurspeglar þau efnahagslegu umskipti sem hér hafa orðið á tiltölulega skömmum tíma. Í stað mikillar uppsveiflu undangengin 3-4 ár sem skilaði umtalsverðum tekjum í ríkissjóð gætir nú samdráttar, einkum í innlendri eftirspurn, sem aftur leiðir til minnkandi tekna hjá ríkissjóði. Breytingar skatttekna milli ára gefa glögga mynd af þessari þróun. Á milli áranna 1998-1999 jukust skatttekjur um 15%, milli 1999-2000 um 10% og á síðasta ári var tólf mánaða hækkunin komin niður í 5%.


Skattar á vörur og þjónustu námu tæplega 107 milljörðum króna árið 2001, eða S milljarði króna lægri fjárhæð en árið 2000 og 7 milljörðum minna en gert var ráð fyrir í fjárlagaáætlun. Þetta er sama þróun og gætti allt síðasta ár og endurspeglar um 6% samdrátt að raungildi milli ára. Sem fyrr má einkum rekja þessa þróun til veru-legs sam-dráttar í neysluútgjöldum milli ára, ekki síst í kaupum á bílum og ýmsum varanlegum neysluvörum, svo sem heimilistækjum. Stærstu frávik frá fjárlögum koma fram í virðisaukaskatti en hann varð 4 milljörðum króna lægri. Þá lækkuðu vörugjöld af bifreiðum um 40% milli ára, eða um 2 milljarða króna.

Á móti minnkandi tekjum af veltusköttum vó aukin innheimta skatta af launatekjum einstaklinga, bæði tekjuskatta einstaklinga og tryggingagjalds. Þessi þróun endurspeglar umtalsverða hækkun launa milli áranna 2000-2001 sem meðal annars birtist í því að launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 8,8%.

Tekjuskattar lögaðila og fjármagnstekjuskattur eru hins vegar í takt við áætlanir fjárlaga. Sama máli gegnir um eignarskatta, jafnt einstaklinga sem lögaðila, sem og um aðrar tekjur ríkissjóðs, að frátöldum tekjum af sölu ríkiseigna, svo sem arðgreiðslur ríkisfyrirtækja, vaxtatekjur og ýmsar sértekjur.

Gjöld
Heildargreiðslur ríkissjóðs í fyrra námu 221,3 milljörðum króna. Gjöldin hækka um 25,9 milljarða frá fyrra ári, eða rúm 13%. Mestu munar hækkanir vegna kjarasamninga, gengisþróunar og almennrar verðlagsþróunar sem meta má á tæplega hluta hækkunarinnar. Að auki eru ný verkefni og ýmis sérstök tilvik, s.s. 2,8 milljarða króna greiðslur til fæðingarorlofssjóðs sem hófust árið 2001 og rúmlega 1 milljarðs króna hækkun framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þá námu sérstakar greiðslur til öryrkja 1,3 milljörðum króna, auk þess sem ný lög um almannatryggingar leiddu til 700 m.kr. raunhækkunar gjalda á árinu. Loks eru aukin framlög hjá framhaldsskólum og í heilbrigðis- og samgöngumálum.


Almenn mál. Útgjöld til almennra mála, hækka um tæpar 800 m.kr. sem er aðeins 3,2%. Hærri frávik koma þó fram á einstökum liðum innan málaflokksins. Af einstökum tilefnum munar mestu um kaup á nýjum upplýsingakerfum ríkisins en um 550 m.kr. voru greiddar vegna þeirra. Á móti vega 300 m.kr. lægri greiðslur til æðstu stjórnar ríkisins.

Félagsmál. Rúmlega 60% af greiðslum ríkisins á árinu runnu til ýmissa félagsmála, svo sem fræðslu- menningar-, heilbrigðis- og tryggingamála. Útgjöld til þessa málaflokks hækka í heild um 18 milljarða króna milli ára. Hækkun vegna fræðslumála nam 4,1 milljarði króna. Þar af hækka greiðslur til framhalds- og sérskóla um 2,4 milljarða eða 34,3%, sem m.a. skýrist að mestu af launahækkunum í kjölfar kjarasamnings í ársbyrjun 2001, auk viðbótaryfirvinnu eftir lok verkfalls framhaldsskólakennara. Af öðrum málum munar mestu um 410 m.kr. hækkun greiðslna til Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Framlög til heilbrigðismála nema 56S milljarði króna og hækka um 5 milljarða króna milli ára. Þar munar mestu um rekstrarframlög til sjúkrastofnana sem hækka um 3 milljarða króna, eða 10,7% milli ára. Þar af eru 2,1 milljarður hjá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík og á Akureyri. Hlutfallslega er þó mesta hækkunin hjá öldrunar- og endurhæfingarstofnunum, 1,1 milljarður króna, eða 13,3%. Er það að mestu í samræmi við áætlanir fjárlaga þar sem ný hjúkrunarheimili bættust við á tímabilinu, auk þess sem daggjöld hafa hækkað.

Greiðslur almannatrygginga hækka um 7,2 milljarða, eða 20,7%, sem er verulega umfram almenna þróun verðlags og launa. Þar af hækka greiðslur vegna lífeyristrygginga og bóta skv. lögum um félagslega aðstoð um 3,3 milljarða sem skýrist m.a. af áður greindri 1,3 milljarða króna greiðslu vegna dóms Hæstaréttar í málefnum öryrkja, auk víðtækra breytinga á lögum um almannatryggingar sem leiddu til um 700 m.kr. frekari hækkunar á árinu. Ný lög um fæðingarorlof hafa leitt til 2.760 m.kr. greiðslu það sem af er árinu, en á móti falla niður útgjöld samkvæmt eldra kerfi.

Atvinnumál. Útgjöld til atvinnumála hækka samtals um 4S milljarð króna, sem er 15,2% hækkun frá því í fyrra. Greiðslur til samgöngumála hækka um 1,9 milljarða króna. Þar af er 1,4 milljarða króna hækkun til Vegagerðarinnar og 700 m.kr. til Siglingastofnunar. Á móti vegur lækkun greiðslna til flugmála. Hækkanirnar eru í samræmi við vega- og hafnaáætlanir. Greiðslur landbúnaðarmála hækka um 1,7 milljarða. Af einstökum tilefnum munar mestu um uppkaup ríkisins á fullvirðisrétti bænda, en 800 m.kr. eingreiðsla fór til þess verkefnis í ársbyrjun.

Vaxtagreiðslur hækka um 700 m.kr., eða 4,3%. Mestu munar um áhrif gengislækkunar krónunnar, en vaxtagreiðslur vegna erlendrar lántöku hækka um 1,4 milljarða króna. Á móti vega 0,8 milljarða lægri greiðslur vaxta spariskírteina.

Önnur útgjöld hækka um tæpa 2 milljarða króna milli ára, eða 24,3% að mestu vegna tveggja tilefna. Greiðslur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækka um 1,2 milljarða og greiðslur uppbóta á lífeyri sem renna til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hækka um rúmar 700 m.kr.

Lánahreyfingar
Fjármunahreyfingar voru neikvæðar um 24,2 milljarða króna árið 2001, en árið áður voru þær jákvæðar um 4,5 milljarða. Munar mestu um ráðstöfun á 25 milljörðum króna til Seðlabanka Íslands. Af þeirri fjárhæð voru 9 milljarðar nýttir til að bæta eiginfjárstöðu bankans. Er það í samræmi við ný lög um Seðlabankann sem kveða á um lágmarkseiginfjárhlutfall, en 16 milljarðar fóru til þess að bæta gjaldeyrisstöðuna í formi lánveitingar til bankans.

Afborganir lána ríkissjóðs námu 22,4 milljörðum króna og eru tæplega 15 milljarðar vegna erlendra lána. Í febrúar var á innlausn flokkur spariskírteina frá árinu 1990 og nam innlausnarvirðið um 9 milljörðum króna, en þar af voru afborganir 5 milljarðar. Auk þess hafa spariskírteini verið forinnleyst úr þremur spariskírteinaflokkum fyrir 4,1 milljarð króna að innlausnarvirði. Þar af nema afborganir 2,5 milljörðum. Uppkaup með þessum hætti beinast að þeim flokkum spariskírteina sem ekki eru nægilega seljanlegir á eftirmarkaði eða stutt eftir að gjalddaga þeirra.

Eins og undanfarin ár var ákveðið að ráðstafa hluta lánsfjárafgangs ríkissjóðs til greiðslu lífeyrisskuldbindinga hans hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Greiðslur til sjóðsins námu 12,5 milljörðum króna á árinu samanborið við 7 milljarða í fyrra.

Lántökur ríkisins námu alls um 61,4 milljörðum króna, en þar af voru erlendar lántökur 48,7 milljarðar. Eins og fram hefur komið var 25 milljarða króna lán var tekið í október til þess að styrkja erlenda stöðu Seðlabankans. Önnur erlend lántaka hefur runnið til endurfjármögnunar erlendra skulda og vaxtagreiðslna. Það sem af er árinu hefur stofn ríkisvíxla stækkað um 6 milljarða króna, auk þess sem seld hafa verið ríkisbréf í nýjum 6 ára flokki fyrir um 6,6 milljarða króna.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta