Hoppa yfir valmynd
29. september 2023

Sendiherra afhenti forseta Austurríkis trúnaðarbréf

Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Vín og forseti Austurríkis, dr. Alexander van der Bellen. - mynd

Helga Hauksdóttir sendiherra afhenti í gærmorgun trúnaðarbréf til forseta Austurríkis, dr. Alexander van der Bellen. Athöfnin fór fram í Hofburg, forsetahöllinni í Vín.

Á fundi sendiherra með forsetanum ræddu þau vinsamleg samskipti Íslands og Austurríkis og forsetinn minntist með ánægju heimsóknar sinnar til Íslands í tilefni af leiðtogafundi Evrópuráðsins í maí síðastliðnum. Þá ræddu þau um kynjajafnrétti, umhverfismál og nýtingu náttúruauðlinda, svo sem jarðhita og auðlinda sjávar. Mikilvægi grænna umskipta, sérstaklega á tímum orkukreppu í Evrópu, bar einnig á góma.

Afhending trúnaðarbréfs er mikilvæg athöfn í upphafi starfs hvers sendiherra á nýrri starfsstöð. Það er fyrst eftir afhendingu trúnaðarbréfs sem að sendiherra getur beitt sér formlega sem fulltrúi ríkis. Trúnaðarbréfið er undirritað af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, og afhent þjóðhöfðingja gistiríkis.

Tvíhliða sendiráð Íslands í Austurríki var opnað að nýju, eftir nokkurt hlé, fyrir ári síðan. Auk Austurríkis, er sendiráðið jafnframt sendiráð Íslands gagnvart Króatíu, Slóvakíu, Slóveníu og Ungverjalandi. Sendiskrifstofan í Vín er einnig fastanefnd gagnvart alþjóðlegum stofnunum sem hafa aðsetur í Vín, það er Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (OSCE), Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA), skrifstofu samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO), skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Vín (UNOV) og fíkniefna- og afbrotaskrifstofu SÞ (UNODC).

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta