Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 182/2018 Endurupptaka - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptaka máls nr. 182/2018

Miðvikudaginn 3. apríl 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með bréfi, dags. 17. október 2018, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 182/2018 þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. febrúar 2018 um að synja kæranda um ellilífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Þann 16. janúar 2018 barst Tryggingastofnun erindi frá B um athugun á umsókn kæranda um ellilífeyri á grundvelli EES-samningsins og reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa (E 204). Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. febrúar 2018, var kæranda synjað um ellilífeyri á þeim grundvelli að hann hafi aldrei verið með skráð lögheimili á Íslandi. Fram kemur að samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 þurfi kærandi að hafa verið með skráð lögheimili á Íslandi í að minnsta kosti eitt ár til þess að öðlast rétt til ellilífeyris.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. maí 2018. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 3. október 2018. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um ellilífeyri þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði um að hafa verið með lögheimili á Íslandi.

Endurupptökubeiðni [...] barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. október 2018. Þá barst beiðnin á íslensku 3. desember 2018. Með bréfi, dags. 25. janúar 2019, var kæranda tilkynnt um að fallist hefði verið á endurupptöku málsins og úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir því við kæranda að hann legði fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. Með bréfi, dags. 12. febrúar 2019, bárust viðbótargögn frá kæranda.

II.  Sjónarmið kæranda

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 182/2018.

Í beiðni um endurupptöku fjallar kærandi um ábyrgð vinnuveitenda hans um að sjá um skráningu lögheimilis hans þegar hann starfaði sem [...] á Íslandi. Fram kemur að þeir hafi [...].

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæranda hafi verið synjað um ellilífeyrisgreiðslur frá stofnuninni þar sem hann hafi aldrei verið með skráð lögheimili hér á landi en kærandi hafi verið skráður á utangarðsskrá samkvæmt skráningu hjá Þjóðskrá. Kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi frá Tryggingastofnun, dags. 16. febrúar 2018, að réttur væri ekki til staðar þar sem kærandi hafi aldrei verið skráður með lögheimili hér á landi. Kæranda hafi jafnframt verið bent á að hann hafi síðast greitt í C og ætti því að setja sig í samband við fyrrnefndan lífeyrissjóð til frekari upplýsinga um réttindi hans.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar miðist réttur til ellilífeyris við þá sem hafi verið búsettir á Íslandi í að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. 

Með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili nema sérstakar aðstæður leiði til annars, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 2. gr. laganna.

Líkt og fram komi í dómi Hæstaréttar nr. 61/2013 sé ríkjum í sjálfsvald sett hvernig þau skipuleggi, byggi upp og fjármagni velferðarkerfi sín og ráðist fyrirkomulag í hverju ríki um sig meðal annars af sögulegum og efnahagslegum ástæðum. Ísland byggi kerfið sitt á búsetu sem meginreglu varðandi tryggingavernd og veitingu almannatryggingaréttinda. Líkt og fram komi í lögum um almannatryggingar sé búseta grunnskilyrði tryggingarverndar. Með búsetu átt við skráningu á lögheimili hjá Þjóðskrá Íslands. Réttur til ellilífeyris ávinnist því við búsetu í skilningi lögheimilislaga og bótaréttur sé bundinn við hlutfallslegan réttindatíma í samræmi við lögheimilistíma á Íslandi. Búseta í 40 ár veiti fullan rétt en sé um skemmri tíma að ræða greiðist lífeyrir í hlutfalli, eða pro rata, við búsetutímann. Ekki sé gerð krafa um atvinnu og ekki sé krafist sérstakrar skráningar (nema skráningar á lögheimili), umsóknar eða greiðslu iðgjalds til þess að opna á rétt og/eða ávinna sér réttindi í umræddu kerfi.

Kærandi sé skráður með kennitölu á utangarðsskrá. Samkvæmt upplýsingum sem komi fram á heimasíðu hjá Þjóðskrá sé tilgangur með utangarðsskráningu að tryggja opinberum aðilum númer til þess að auðkenna einstaklinga sem ekki séu skráðir í Þjóðskrá. Skráning á utangarðsskrá sé eingöngu fyrir einstaklinga sem dvelji skemur en 3 til 6 mánuði á Íslandi eða hafi litla sem enga viðdvöl á landinu. Skráningin veiti engin réttindi á Íslandi.

Öllum einstaklingum á vinnumarkaði á Íslandi sé skylt að greiða iðgjald til lífeyrissjóðs, sbr. lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Íslenska lífeyrissjóðskerfið sé fjármagnað með iðgjöldum sjóðfélaga og vinnuveitanda. Kærandi hafi hugsanlega áunnið sér réttindi hjá lífeyrissjóði sínum en kærandi hafi síðast greitt í C samkvæmt upplýsingum frá Greiðslustofu. Tryggingastofnun hvetji kæranda til að hafa samband þangað.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að synjun stofnunarinnar á ellilífeyrisgreiðslum til kæranda hafi verið réttmæt miðað við fyrirliggjandi gögn.

III.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. febrúar 2018 á umsókn kæranda um ellilífeyri.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Samkvæmt 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telst kæra nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.

Kæra á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. febrúar 2018, barst úrskurðarnefnd velferðarmála með pósti 23. maí 2018. Á umslagi bréfsins er póststimpill með dagsetningunni 15. maí 2018. Af framangreindu verður ráðið að bréfið var afhent pósti áður en þriggja mánaða kærufrestur var liðinn og því verður kæran tekin til efnislegrar meðferðar, sbr. 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir svo:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir greiðslu ellilífeyris að umsækjandi hafi verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár. Búseta í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins getur einnig komið til skoðunar þegar metið er hvort búsetuskilyrði 17. gr. laga um almannatryggingar sé uppfyllt, sbr. 68. gr. laga um almannatryggingar og 6. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012. Tryggingastofnun er þó heimilt að gera kröfu um að viðkomandi hafi að minnsta kosti verið búsettur á Íslandi í eitt ár, sbr. 1. mgr. 57. gr. reglugerðar nr. 883/2004, sem hljóðar svo:

„Þrátt fyrir ákvæði b-liðar 1. mgr. 52. gr. er stofnun í aðildarríki ekki skylt að veita bætur vegna tímabila sem lokið er samkvæmt þeirri löggjöf sem hún starfar eftir og tekið er tillit til þegar áhættan kemur fram, ef:

— umrædd tímabil eru ekki lengri en eitt ár,

og

— þessi tímabil ein og sér nægja ekki til að viðkomandi eigi rétt til bóta samkvæmt þeirri löggjöf.

Í þessari grein merkir hugtakið „tímabil“ öll tryggingatímabil, starfstímabil launþega, starfstímabil sjálfstætt starfandi einstaklings eða búsetutímabil sem annaðhvort eru tekin gild vegna viðkomandi bóta eða hækka þær beint.“

Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili nema sérstakar aðstæður leiði til annars, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um lögheimili er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu.

Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá er kærandi skráður utangarðs. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram á heimasíðu Þjóðskrár er tilgangurinn með utangarðsskráningu að tryggja opinberum aðilum númer til þess að auðkenna einstaklinga sem ekki eru skráðir í Þjóðskrá. Þá segir að skráning á utangarðsskrá sé eingöngu fyrir einstaklinga sem dvelji skemur en 3 til 6 mánuði á Íslandi eða hafi litla sem enga viðdvöl á landinu. Skráningin veiti engin réttindi á Íslandi. Af gögnunum verður því ráðið að kærandi hafi aldrei verið með skráð lögheimili á Íslandi. Í kæru óskaði kærandi eftir því að fá greiddan ellilífeyri fyrir þann tíma sem hann starfaði á Íslandi. Samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar ávinnst réttur til ellilífeyris með búsetu á Íslandi. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til að taka tillit til starfstímabils kæranda á Íslandi við mat á því hvort hann hafi áunnið sér rétt til ellilífeyris.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála má ráða af beiðni kæranda um endurupptöku að hann byggi á því að hann hafi í raun verið með fasta búsetu á Íslandi. Þar sem um nýja málsástæðu var að ræða taldi úrskurðarnefndin rétt að endurupptaka málið og rannsaka það betur. Með endurupptökubeiðni kæranda fylgdi [...]. Með bréfi, dags. 25. janúar 2019, veitti úrskurðarnefndin kæranda kost á að upplýsa nefndina um hvort hann hefði einhvern tímann haft fasta búsetu á Íslandi og ef svo væri leggja fram gögn því til stuðnings. Kærandi lagði fram upplýsingar um tekjur sínar og gjöld á Íslandi á tímabilinu X til X, auk læknisfræðilegra upplýsinga. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af framangreindum gögnum að kærandi hafi dvalið hér á landi í X mánuði á hverju ári á framangreindu tímabili. Aftur á móti verður ekki ráðið af gögnunum að kærandi hafi verið með fasta búsetu á Íslandi í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga um lögheimili á framangreindu tímabili.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um ellilífeyri.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um ellilífeyri er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta