Tæplega sextán milljónir barna fá skólamáltíðir daglega
Ísland var fyrst framlagsríkja heims til að eiga samstarf við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, WFP, um heimaræktaðar máltíðir fyrir skólabörn. Börn í skólum í Mangochi, samstarfshéraði Íslands í Malaví, voru þau fyrstu sem fengu daglegar skólamáltíðir árið 2012. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir heimsótti í ferð sinni til Malaví í desember síðastliðnum skóla þar sem nemendur hafa í rúmlega tíu ár fengið heimaræktaðan mat með stuðningi frá Íslandi. WFP veitir 15,5 milljónum barna í 78 löndum skólamáltíðir daglega.
Í dag, annan fimmtudag í mars, er alþjóðlegur dagur skólamáltíða. WFP segir í tilefni dagsins að á hverjum degi fari milljónir barna um allan heim í skóla á fastandi maga – svengd hafi áhrif á einbeitingu þeirra og getu til að læra. „Það eru líka milljónir barna - sérstaklega stúlkur - sem einfaldlega fara ekki í skóla vegna þess að fjölskyldur þeirra þurfa á þeim að halda til að hjálpa á ökrunum eða sinna heimilisstörfum. Í löndum þar sem átök geisa eru börn tvöfalt líklegri til að vera utan skóla en jafnaldrar þeirra í öðrum löndum - 2,5 sinnum líklegri þegar um stúlkur er að ræða,“ segir í grein frá stofnuninni.
WFP hefur sex áratuga reynslu af stuðningi við skólamáltíðir og heilsuverkefni og vinnur með meira en hundrað löndum til að því að koma á fót sjálfbærum innlendum áætlunum um skólamáltíðir. Lokamarkmið WFP er að hvetja til og auðvelda eignarhald ríkisins á þessum áætlunum - umskipti sem þegar hafa átt sér stað í 48 löndum.