Beinum sjónum að styrkleikum fólks og byggjum á því
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ávarpaði ársfund VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs og ræddi þar meðal annars um frumvarp til laga um starfsendurhæfingu sem nú liggur fyrir Alþingi. Ráðherra sagði til mikils að vinna að forða sem flestum frá örorku og stuðla að virkni fólks eins og kostur er á öllum æviskeiðum.
„Það er til mikils að vinna að forða sem flestum frá örorku og að stuðla að virkni fólks eins og nokkur kostur er á öllum æviskeiðum. Við höfum í gegnum tíðina horft um of á það sem fólk skortir til fullrar þátttöku í samfélaginu. Örorka hefur byggst á þessu vangetumati sem er afar neikvæð, óheppileg og niðurbrjótandi nálgun. Hið skynsamlega og rétta er að beina sjónum að styrkleikum hvers og eins og byggja upp úrræði til að efla getu viðkomandi í samræmi við það“ sagði ráðherra meðal annars í ávarpi sínu.
Ráðherra gerði að umtalsefni þá breytingu sem orðið hefur á viðhorfum til starfsendurhæfingar á liðnum árum þar sem rutt hefði sér til rúms hugmyndafræði sem byggist á virkri velferðarstefnu. Í því felist að í stað þess að leggja megináherslu á að tryggja fólki með skerta starfsgetu fjárhagslega framfærslu og láta þar við sitja, sé horft til þess efla virkni fólks og getu til þátttöku í samfélaginu, ekki síst atvinnuþátttöku.
Guðbjartur ræddi um tengsl atvinnuleysis og örorku, þau væru vel þekkt og því hefði þörfin fyrir virka velferðarstefnu hér á landi aldrei verið meira knýjandi:
„Þegar þrengir að á vinnumarkaði hafa þeir minnsta fótfestu sem stríða við heilsufarsleg eða félagsleg vandamál, þeir sem eiga skemmsta skólagöngu að baki og hafa stutta starfsreynslu og eins þeir sem eru komnir fram á seinni hluta starfsævinnar. Þetta eru hópar sem þarf að huga sérstaklega að. Eins vitum við að langtímaatvinnuleysi hefur neikvæð áhrif á heilsu fólks og er líklegt til að leiða til örorku ef ekki er gripið inn í með virkum aðgerðum.
Nýja lagafrumvarpið um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða snýst einmitt um þetta. Frumvarpið markar tímamót þar sem miðað er við að tryggja rétt allra til starfsendurhæfingar óháð fyrri þátttöku á vinnumarkaði, uppfylli þeir almenn skilyrði fyrir þátttöku í slíkum úrræðum. Þessi skilyrði snúast um að viðkomandi búi við heilsubrest sem hindrar atvinnuþátttöku en stefni á aukna atvinnuþátttöku eða inn á vinnumarkaðinn á nýjan leik og hafi vilja og getu til að nýta sér starfendurhæfingu í þessu skyni.“
Samkvæmt frumvarpinu er miðað við að gerðir verði samningar milli velferðarráðuneytisins og starfsendurhæfingarsjóða um þjónustu við þá sem standa utan vinnumarkaðar og verða slíkir samningar eitt af skilyrðum fyrir viðurkenningu á starfsemi sjóðanna. Á þennan hátt er stefnt að því að tryggja heildstætt kerfi endurhæfingar fyrir alla sem á þurfa að halda og uppfylla almenn skilyrði til þátttöku í slíkum úrræðum.
Ráðherra lagði í ávarpi sínu þunga áherslu á virka velferðarstefnu því hann væri ekki í vafa um að hugmyndafræðin þar að baki sé grundvallaratriði við uppbyggingu samfélagsins eftir reiðarslagið haustið 2008 og mikilvægur þáttur í því að verja velferðina til skemmri og lengri tíma litið.