Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2022 Forsætisráðuneytið

1056/2022. Úrskurður frá 3. febrúar 2022

Hinn 3. febrúar 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1056/2022 í máli ÚNU 21040012.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 20. apríl 2021, kærði A réttindagæslumaður, f.h. B, ófullnægjandi afgreiðslu hjúkrunarheimilisins Dyngju á beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Heilbrigðisstofnun Austurlands (hér eftir HSA) annast rekstur hjúkrunarheimilisins.

Með erindi til Dyngju, dags. 4. nóvember 2020, óskaði kærandi eftir því að umbjóðandi sinn fengi aðgang að vaktaskýrslum til að sjá hverjir væru á vakt á hjúkrunarheimilinu þar sem hún býr. Í svari Dyngju, dags. 2. desember 2020, kom fram að B fengi upplýsingar um starfsmenn á vakt í upphafi hverrar vaktar. Það sé gert að fengnu áliti persónuverndarfulltrúa HSA. Í svari kæranda, dags. sama dag, var óskað eftir aðgangi að bréfi frá persónuverndarfulltrúa HSA, sem fjallar um mál B, auk bréfa til starfsfólks Dyngju um málefni B og eiginmanns hennar.

Í framhaldi af samskiptum kæranda við Dyngju hafði kærandi samband við forstjóra HSA. Niðurstaða þess samtals var sú að fá úrskurð Persónuverndar með leiðbeiningum um hvernig unnt væri að haga upplýsingagjöf til B innan ramma persónuverndarlöggjafarinnar. Kvörtun kæranda var vísað frá Persónuvernd, þar sem stofnunin gæti aðeins tekið til meðferðar kvartanir sem stöfuðu frá þeim sem persónuupplýsingar vörðuðu.

Í kæru er úrskurðarnefnd um upplýsingamál beðin um að taka afstöðu til þess hvort yfirmönnum Dyngju sé heimilt að takmarka upplýsingar til B um það hverjir séu í þjónustu við hana og krefjast þess að B biðji þrisvar sinnum á sólarhring um upplýsingarnar, í stað þess að B séu einfaldlega veittar upplýsingarnar einu sinni á sólarhring án þess að hún þurfi að biðja um þær sérstaklega. Þá er í kæru óskað eftir að fá aðgang að gögnum sem óskað var eftir við Dyngju með tölvupósti, dags. 2. desember 2020, þ.e. bréfi frá persónuverndarfulltrúa HSA, sem fjallar um mál B, auk bréfa til starfsfólks Dyngju um málefni B og eiginmanns hennar.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt HSA með erindi, dags. 26. apríl 2021, og stofnuninni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var skorað á HSA að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni um afhendingu þeirra gagna sem tilgreind eru í kærunni og óskað var eftir hinn 2. desember 2020. HSA brást við áskorun úrskurðarnefndarinnar og afhenti kæranda hinn 10. maí 2021 afrit af þeim gögnum sem óskað hafði verið eftir.

Í umsögn HSA, dags. 17. maí 2021, kemur fram að um tíma hafi sérsniðnar upplýsingar verið teknar upp úr vaktaplönum stofnunarinnar, þ.e. áætlanir um vaktir starfsmanna næstkomandi sólarhring, og afhentar B og eiginmanni hennar. Kvartanir hafi hins vegar borist í kjölfar þess að eiginmaður B gerði athugasemdir við starfsmenn eða aðstandendur þeirra, ef viðkomandi starfsmaður mætti ekki til vinnu. Því hafi verið látið af þessu fyrirkomulagi og B þess í stað greint frá því í upphafi hverrar vaktar hverjir væru mættir á vaktina. HSA hafnar því að fyrirkomulagið feli í sér takmörkun á upplýsingarétti B.

Í umsögn HSA kemur fram að í kæru til úrskurðarnefndarinnar sé í raun verið að óska eftir lagalegu áliti nefndarinnar á réttarstöðu umbjóðanda kæranda, með tilliti til persónuverndarlaga og út frá umdeildum forsendum sem fram koma í kæru. HSA telur að það sé ekki í verkahring úrskurðarnefndarinnar að leysa úr slíku álitaefni og því sé óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá nefndinni.

Þá telur HSA að það sé ekki ágreiningur um það að starfsfólk Dyngju eigi að afhenda umbjóðanda kæranda upplýsingar í upphafi hverrar vaktar um hverjir séu á vakt. B eigi ekki að þurfa að biðja um þessar upplýsingar þrisvar sinnum á sólarhring.

Loks telur HSA að heimilt sé að synja um aðgang að þessum upplýsingum með vísan til þess að um sé að ræða gögn sem varði starfssambandið að öðru leyti, sbr. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, gögnin séu vinnugögn í skilningi 8. gr. sömu laga, auk þess sem þau varði einkahagsmuni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari.

Umsögn HSA var kynnt kæranda með bréfi, dags. 18. maí 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust hinn 26. maí 2021. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er óskað eftir áliti úrskurðarnefndar um upplýsingamál á því hvort yfirmönnum hjúkrunarheimilisins Dyngju sé heimilt að takmarka upplýsingar til umbjóðanda kæranda um það hverjir séu í þjónustu við hana og krefjast þess að umbjóðandi kæranda biðji þrisvar sinnum á sólarhring um upplýsingarnar.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga kemur fram að sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpinu sem varð að upplýsingalögum er réttur þessi útskýrður með nánari hætti. Kemur þar fram að réttur til aðgangs að gögnum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál óskar kærandi eftir því að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess hvernig hún verði til framtíðar upplýst um það hverjir muni sinna þjónustu við hana í stað þess að hún þurfi að óska eftir slíkum upplýsingum þrisvar sinnum á sólarhring. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál bundin við synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum og synjun á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Það er því ekki á valdsviði nefndarinnar að leggja mat á hvort viðvarandi upplýsingagjöf til einstaklings sé í samræmi við persónuverndarlöggjöf eða hvernig slíkri upplýsingagjöf skuli hagað til framtíðar. Slíkt kemur eftir atvikum í hlut annarra stjórnvalda á borð við umboðsmann Alþingis.

Úrskurðarnefndin veitir því hins vegar athygli að á meðal gagna málsins er skjal sem inniheldur vaktaáætlun mánuð fram í tímann. Í tilefni af þessu tekur úrskurðarnefndin fram að kæranda er heimilt að óska eftir fyrirliggjandi vaktaáætlunum og eftir atvikum kæra synjun á slíkri beiðni til nefndarinnar.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál biðst velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á meðferð þessa máls.

Úrskurðarorð

Kæru A, f.h. B, dags. 20. apríl 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta