Hoppa yfir valmynd
19. september 2015 Utanríkisráðuneytið

2 milljörðum króna varið í aðstoð við flóttafólk og hælisleitendur

Ríkisstjórn Íslands mun leggja til við Alþingi að 2 milljörðum króna verði varið í aðstoð við flóttafólk og hælisleitendur á þessu ári og því næsta til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin vegna straums flóttamanna frá Sýrlandi. Stefnt er því að verja einum milljarði króna til aðgerða strax á þessu ári og einum milljarði króna á því næsta. Ríkisstjórnin leggur til að fénu verði varið til þrenns konar verkefna:

  1. Til fjárstuðnings við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök sem vinna með flóttafólki erlendis, s.s. Flóttamannastofnun, Barnahjálp, Neyðarsjóð og Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna. Fé verði m.a. varið til kaupa á mat, lyfjum og hjálpartækjum og til stuðnings við verkefnið „heilsugæsla á hjólum“ sem Rauði kross Íslands hefur staðið að.
  2. Til móttöku flóttafólks og hælisleitenda til Íslands, þar sem áhersla verði lögð á að hjálpa fólkiað koma sér vel fyrir hér á landi, aðlagast samfélaginu og hefja hér nýtt líf. Er þar bæði gert ráð fyrir flóttamönnum sem hingað kæmu fyrir milligöngu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og þeim sem koma til landsins eftir öðrum leiðum. Vinna við móttöku flóttafólks er hafin í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og búist er við fyrsta hópnum úrflóttamannabúðum í Líbanon í desember á þessu ári.
  3. Til aðgerða sem umbylt geta og hraðað afgreiðslu hælisumsókna hérlendis og til að bregðast við mikilli fjölgun þeirra, þannig að úrvinnsla þeirra taki ekki eins langan tíma og hingað til, með þeirrióvissu og óþægindum sem af því leiðir.

Ráðherranefnd um málefni flóttafólks og innflytjenda mun fela fimm manna verkefnastjórn, skipaðri sérfræðingum, að vinna með nefndinni að ítarlegum tillögum að skiptingu fjárins og skulu þær liggja fyrir áður en önnur umræða fer fram á Alþingi um fjárlagafrumvarp ársins 2016. Þá verður í fjárlagagerð á næsta ári vegna ársins 2017 tekið mið af fjárþörf aðgerðanna. Einnig verði einum milljarði króna skv. fjáraukalögum þessa árs varið til að taka á móti fyrsta hópi flóttafólks frá Sýrlandi, til fjárstuðnings við alþjóðastofnanir og borgarasamtök á vettvangi og til að bregðast við óvenjumikilli fjölgun hælisleitenda á þessu ári en fyrir liggur að umtalsverður hluti þeirra hlýtur stöðu flóttamanna hér á landi.

Samþykki Alþingi ofangreindar tillögur ríkisstjórnarinnar verður Ísland meðal þeirra þjóða sem mest leggja af mörkum til aðstoðar flóttafólki vegna vandans í Sýrlandi (sjá ítarefni). Ríkisstjórnin mun hvetja aðrar þjóðir til að fylgja fordæmi Íslands og hyggst á næstunni taka upp málefni flóttafólks á alþjóðavettvangi. Forsætisráðherra mun meðal annars ræða þau á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York í næstu viku, þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fer þar fram.

Ráðherranefndin var skipuð þann 1. september sl. og hefur að undanförnu unnið með fagfólki á ýmsum sviðum að því að kortleggja vandann og móta tillögur að aðgerðum. Stjórnvöld hafa verið í góðum samskiptum við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og ítrekað vilja Íslendinga til að hjálpa. Þá hafa stjórnvöld verið í sambandi við sveitarfélög í landinu um getu þeirra og vilja til að taka á móti fólki úr hópi hælisleitenda og flóttafólks. Ríkisstjórnin fagnar þeim mikla áhuga sem þau og einstaklingar hafa sýnt á að aðstoða flóttafólk, með ýmsum hætti.

Ítarefni

Athyglisvert er að bera tillögur ríkisstjórnarinnar saman við aðgerðir annarra þjóða eins og þær birtast í gögnum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þau sýna svo ekki verður um villst að framlag Íslands er veglegt og ætti að nýtast vel í aðstoð við Sýrlendinga sem nú flýja neyðarástand í landi sínu.

Ríkisstjórnin leggur til að einn milljarður króna af fjárlögum ársins 2016 verði nýttur til málefnisins. Ljóst er að verulegur hluti þess fjármagns fer í beinan stuðning við Flóttamannastofnun SÞ í löndunum í kring um Sýrland. Þar með verða Íslendingar sú þjóð sem styður sérstaklega aðgerðir stofnunarinnar á svæðunum í kringum Sýrland næst mest allra þjóða heims (miðað við höfðatölu). Hlutfallslega mestur er fjárhagsstuðningurinn frá Kúvæt eða sem nemur rúmum milljarði króna á hverja 330 þúsund íbúa Kúvæt. 

Fjárstuðningur við Flóttamannastofnun SÞ vegna landa í kring um Sýrland mældur í milljónum íslenskra króna á hverja 330 þús. íbúaFjárstuðningur við Flóttamannastofnun SÞ vegna landa í kring um Sýrland mældur í milljónum íslenskra króna á hverja 330 þús. íbúa

Ef helmingur fjárins sem áætlað er á árinu 2016 (500 milljónir króna) rennur til starfs Flóttamannstofnunar Sameinuðu þjóðanna í löndunum í kring um Sýrland yrði framlag Íslands tíunda stærsta þjóðarframlagið sem sértaklega er varið til flóttamannavanda á því svæði, óháð höfðatölu. Rétt er minna á, að Íslendingar eru aðeins tæplega 0,005% af íbúum jarðar.

Fjárstuðningur við Flóttamannastofnun SÞ vegna landa í kring um Sýrland mældur í milljónum íslenskra krónaFjárstuðningur við Flóttamannastofnun SÞ vegna landa í kring um Sýrland mældur í milljónum íslenskra króna

Í gögnum úr skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna dags. 9. september 2015 kemur fram, að Noregur er sú þjóð sem tekið hefur á móti hlutfallslega langflestum sýrlenskum flóttamönnum fyrir milligöngu stofnunarinnar frá ársbyrjun 2013. Þannig hafa Norðmenn tekið á móti eða lofað að taka á móti 576 sýrlenskum flóttamönnum á hverja 330 þúsund íbúa. Hlutfallslega höfðu næst flestir flóttamenn farið til smáríkisins Lichtenstein, sem hafði tekið á móti eða lofað að taka á móti 25 flóttamönnum. Það jafngildir 221 flóttamanni á hverja 330 þúsund íbúa. Rétt er að taka fram, að ekki er í skýrslunni tekið mið af þeim ákvörðunum sem stjórnvöld í Þýskalandi, Bretlandi, Danmörku og víðar hafa tekið frá 9. september.

Fjöldi sýrlenskra flóttamanna sem 27 lönd hafa tekið við frá ársbyrjun 2013 til 9. september 2015 á hverja 330 þúsund íbúaFjöldi sýrlenskra flóttamanna sem 27 lönd hafa tekið við frá ársbyrjun 2013  til 9. september 2015 á hverja 330 þúsund íbúa

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta