Ísland leiðir kjördæmastarf átta ríkja í Alþjóðabankanum
Í skýrslu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál kom fram að á næsta ári komi Ísland til með að leiða kjördæmisstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Alþjóðabankanum til tveggja ára. Í því felst annars vegar að Ísland mun eiga aðalfulltrúa í stjórn Alþjóðabankans, sem gegnir starfinu fyrir hönd kjördæmisins, og hins vegar mun deild fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu í þróunarsamvinnuskrifstofu leiða samræmingu á málefnastarfi kjördæmisins í höfuðborgum kjördæmislanda.
Utanríkisráðherra mun eiga sæti í þróunarsamvinnunefnd Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) fyrir hönd kjördæmisins árið 2019. Undirbúningur fyrir þessi umfangsmiklu verkefni er þegar hafinn innan ráðuneytisins.
Eins og kunnugt er tekur Ísland virkan þátt í fjölþjóðastarfi Alþjóðabankans í gegnum kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna en ríkin átta deila stjórnarsæti í bankanum og samræma því málflutning sinn og afstöðu til málefna.
Stór hluti framlaga Íslands til Alþjóðabankasamsteypunnar (World Bank Group) fer til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) sem er sú stofnun bankans sem veitir fátækustu löndum heims styrki og lán á hagstæðum kjörum, auk ráðgjafar. Þá veita íslensk stjórnvöld stuðning til sömu ríkja í gegnum áætlun Alþjóðaframfarastofnunarinnar um niðurfellingu á skuldum fátækustu ríkjanna.
Tvíhliða samstarf Íslands við bankann hefur aukist talsvert á síðustu árum þar sem sérstök áhersla er lögð á samstarf á sviði jarðhita, fiskimála, jafnréttis- og mannréttindamála. Ísland veitir framlög í orkusjóð bankans (ESMAP). Ísland hefur fjármagnað stöðu jarðhitasérfræðings hjá bankanum um árabil. Síðasti samningur við sjóðinn var endurnýjaður árið 2016 til fjögurra ára í samræmi við nýja stefnu sjóðsins sem hefur sterka skírskotun til heimsmarkmiðanna. ESMAP hefur reynst einn mikilvægasti vettvangur bankans í greiða fyrir fjárfestingum á sviði jarðhita og vinna að því að efla markaði á þessu sviði víðsvegar í heiminum.
Ráðgjöf á sviði jarðhitamála
Utanríkisráðuneytið kom nýverið á fót samstarfi við ESMAP um ráðgjöf á sviði jarðhitamála en með samstarfinu er viðskiptalöndum bankans gert kleift að fá sérfræðiráðgjöf tengda jarðhitaverkefnum til að vinna að afmörkuðum þáttum innan stærri verkefna. Unnið er að því að koma sams konar fyrirkomulagi á fót á sviði fiskimála en sérstakur kynningarfundur var haldinn nýverið í utanríkisráðuneytinu fyrir áhugasama ráðgjafa. Samstarfið samræmist vel tillögum í Utanríkisþjónustu til framtíðar þar sem lögð er áhersla á að nýta íslenska sérþekkingu og koma henni á framfæri í verkefnum innan alþjóðastofnana. Þá hafa Ísland og ESMAP að undanförnu unnið að mótun aukins samstarfs á sviði gagnamála og jarðhita annars vegar og jafnréttis– og jarðhitamála hins vegar.
Á síðasta ári gerði Ísland samning til fimm ára (2017-2021) við sjóð Alþjóðabankans á sviði fiskimála, PROFISH, sem settur var á laggirnar árið 2005 með það að markmiði að styrkja sjálfbæra fiskveiðistjórnun, stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum, byggja upp fiskistofna og auka afrakstur þeirra. Ísland hefur um árabil lagt áherslu á að Alþjóðabankinn beini sjónum sínum í meira mæli að verkefnum á sviði fiskimála.
Íslenskur sérfræðingur í Gana
Því til viðbótar fjármagnar Ísland stöðu sérfræðings á sviði fiskimála í Gana og tók sérfræðingur til starfa við fiskiverkefni bankans í Vestur-Afríku. Ísland veitir framlög í sérstakan jafnréttissjóð (UFGE) innan bankans en á síðastliðnu ári var gerður nýr samningur við sjóðinn til fimm ára (2018-2022). Meginmarkmið sjóðsins er að auka þekkingu á jafnréttismálum innan Alþjóðabankans en sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki í stefnumótun bankans á þessu sviði. Sjóðurinn hefur skilað góðum árangri og byggir ný jafnréttisstefna bankans fyrir árin 2017-2023 meðal annars á rannsóknum og verkefnum á vegum UFGE-sjóðsins.
Ísland veitir einnig framlög til norræns mannréttindasjóðs sem ætlað er að auka veg mannréttindamála innan bankans og verkefna hans. Úttekt á sjóðnum lauk í byrjum árs 2018 og stendur nú yfir mótun á framtíð sjóðsins. Niðurstöður úttektarinnar eru almennt jákvæðar og benda til þess að þrátt fyrir smæð sína hafi sjóðurinn átt þátt í að skapa aukna vitund um samspil mannréttinda og þróunarsamvinnu innan bankans.
Þessa dagana standa yfir í Washington vorfundir Alþjóðabankans.
Í myndbandinu með fréttinni er rætt við Emil Breka Hreggviðsson fulltrúa Íslands í Alþjóðabankanum.
Alþjóðabankastofnanirnar fimm og samstarf Íslands við bankann, eftir Þórarinnu Söebech/ Heimsljós
Mikill áhugi á samstarfi við Alþjóðabankann á sviði fiskimála/ Heimsljós