Nr. 178/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 14. maí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 178/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20030014
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 10. mars 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. febrúar 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. nóvember 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 15. nóvember 2018, 18. febrúar 2019 og 4. september 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 24. febrúar 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 10. mars 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 25. mars 2020. Viðbótargögn bárust þann 14. maí 2020.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna samansafns ástæðna.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til frásagnar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 4. september 2019. Þar hafi kærandi greint frá ástæðum þess að hann hafi neyðst til að flýja heimaríki sitt. Kærandi sé fæddur og uppalinn í [...] í Nígeríu og hafi búið þar þangað til hann hafi neyðst til að flýja land. Þá hafi hann einnig um tíma dvalið í höfuðborginni Lagos. Faðir kæranda, [...], sé efnaður og eigi landareignir í [...]. Móðir hans sé þriðja eiginkona föður hans og hann sé þeirra elsti sonur. Fyrsta og önnur eiginkona föður kæranda og börn þeirra hafi farið að ofsækja kæranda í kjölfar þess að faðir hans hafi ákveðið að kærandi skyldi erfa allar eignir hans. Systkini hans hafi hótað honum lífláti afsali hann sér ekki arfinum. Þá hafi að ósekju verið komið sök á kæranda um vörslu fíkniefna auk þess hafi hann orðið fyrir skotárás. Þá telji kærandi bróður sinn, [...], hafa drepið vin sinn, [...], sem hafi starfað hjá lögreglunni og ætlað að handtaka [...] þar sem hann hafi talið hann vera leigumorðingja. Kærandi hafi svo komist að því að lögreglan væri að leita sín að því er virtist vera vegna dauða [...]. Kærandi hafi í kjölfarið flúið til Lagos og dvalið hjá föðurbróður sínum um tíma þar til hann hafi einnig verið myrtur. Kærandi hafi frétt af því að sömu aðilar væru að leita að honum og hygðust myrða hann líka. Vegna hættunnar sem hafi stafað af systkinum hans hafi kærandi ekki getað snúið aftur heim og því séð sig knúinn til að flýja land. Lögreglan hafi leitað hans eftir flóttann og yfirheyrt eiginkonu hans. Kærandi hafi þá greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi verið haldinn geðsjúkdómi síðan hann hafi lent í slysi þar sem hann hafi hlotið alvarlegt höfuðhögg og í kjölfarið legið meðvitundarlaus í nokkrar vikur. Hann hafi verið í meðferð hjá geðlækni í Nígeríu og kvaðst [...] og átt erfitt með svefn. Þá hafi kærandi lýst samfélagslegri útskúfun og mismunun sem hann hafi orðið fyrir vegna veikinda sinna. Kærandi hafi í öðru viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá slæmu andlegu heilsufari, hann glími við erfið andleg veikindi og svefnleysi. Hann [...], dreymi illa og [...]. Kærandi hafi leitað á geðdeild hér á landi og fengið greininguna [...].
Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki hans sem og heilbrigðismál þar í landi. Kveður kærandi að ástand mannréttindamála sé afar slæmt. Aftökur án dóms og laga séu meðal helstu vandamála á sviði mannréttinda í Nígeríu, einnig geðþóttahandtökur, varðhald, pyndingar, skortur á réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum, afskipti framkvæmdarvalds af dómsvaldinu, brot gegn friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsi, ofbeldi gegn konum og börnum og þvinguð hjónabönd. Gróf spilling innan stjórnsýslunnar sé alvarlegt vandamál og lögreglan sé sú stofnun í Nígeríu þar sem mútugreiðslur þrífist í mestum mæli. Heimildir bendi þá til þess að aðstæður í fangelsum og í varðhaldi séu afar slæmar og hreinlega lífshættulegar. Samkvæmt heimildum sé þjónusta við geðfatlaða afar takmörkuð í Nígeríu. Geðsjúkir einstaklingar verði fyrir fordómum, misneytingu og mismunun. Miklir fordómar séu í Nígeríu gagnvart geðsjúkum og margar fjölskyldur leyni geðsjúkdómum innan heimilisins eða kenni bölvunum eða álögum um geðsjúkdóma fjölskyldumeðlima. Í stað þess að fá meðhöndlun á sjúkrahúsum eða geðheilbrigðisstofnunum séu þeir sem glími við geðsjúkdóma vistaðir á hælum innan fangelsa og fái þar enga meðferð. Skýrslur gefi til kynna skort og ójafna dreifingu á læknisaðstöðu og heilbrigðisstarfsfólki víðsvegar um Nígeríu, auk þess sem takmarkaður aðgangur sé að læknismeðferðum. Þá skorti rúmlega 60% íbúa Nígeríu aðgang að lyfjum.
Í greinargerð kæranda koma fram ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. við þá umfjöllun stofnunarinnar að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem séu til þess fallin að sanna á honum deili og að kærandi geti leitað verndar hjá lögreglunni í Nígeríu. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við umfjöllun stofnunarinnar um geðheilbrigðisþjónustu í Nígeríu og aðgengi að henni.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, með vísan til þess að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir. Þær ofsóknir sem kærandi hafi orðið fyrir séu ítrekaðar hótanir, ofbeldi og morðtilraunir. Beri að líta svo á að um sé að ræða endurteknar athafnir sem feli í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá hafi vinir hans og ættingjar verið myrtir. Verði kæranda gert að snúa aftur til Nígeríu séu því líkur á áframhaldandi ofsóknum gegn honum. Af framangreindum ástæðum megi ótti hans teljast ástæðuríkur. Vegna þessa ítrekaða ofbeldis gegn kærandi, hættu á að hann verði fangelsaður að ósekju og þeirrar mismununar og illu meðferðar sem hann standi frammi fyrir vegna geðsjúkdóms sé á því byggt að um sé að ræða samsafn athafna, skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá séu stjórnvöld á eftir honum vegna glæpa sem hann hafi ekki framið, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Byggir kærandi á því að stjórnvöld í Nígeríu hafi hvorki getu né vilja til að veita honum þá vernd sem hann þarfnist. Samkvæmt framangreindu sé kærandi flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum alþjóðlega vernd á Íslandi, skv. 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Með því að senda kæranda til Nígeríu yrði enn fremur brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. SBSR og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi, skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í tengslum við aðalkröfu kæranda sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimalandi sínu.
Til þrautavara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, m.a. með vísan til geðrænna vandamála. Með vísan til þeirrar meðferðar sem kærandi hafi sætt í Nígeríu og áður hefur verið lýst telji hann að um sé að ræða viðvarandi mannréttindabrot í heimaríki hans sem yfirvöld veiti honum ekki vernd gegn, þ. á m. ofbeldisbrot og glæpir. Hann hafi upplifað samfélagslega útskúfun bæði vegna andstöðu fjölskyldunnar við sig og vegna geðrænna veikinda sinna. Í kjölfar þeirra atburða sem kærandi hafi lýst búi hann, eiginkona hans og barn nú við fátækt og öryggisleysi í heimaríki hans. Fram hefur komið að kærandi hafi greininguna [...] og hafi dvalið á geðdeild. Þá hafi kærandi sýnt greinileg merki um afar slæmt andlegt ástand í viðtölum hjá Útlendingastofnun og hjá Rauða krossinum. Samkvæmt heimildum séu aðstæður geðsjúkra í Nígeríu afar slæmar og geðheilbrigðisþjónusta lítil sem engin. Af öllu framangreindu sé ljóst að kærandi sé í raunverulegri hættu á að búa við afar slæmar aðstæður sem einstaklingur með geðsjúkdóm í Nígeríu verði honum gert að snúa þangað aftur. Þá telur kærandi rétt að litið verði til áhrifa Covid-19 faraldursins í heimaríki hans.
Til þrautaþrautavara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. október 2018, þ.e. fyrir meira en 18 mánuðum síðan. Í málinu liggi fyrir að skýrsla hafi verið tekin af kæranda, sbr. a-liður 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Hvað varðar auðkenni kæranda leiki ekki vafi á því hver kærandi sé, sbr. b-liður 2. mgr. 74. gr. sömu laga. Þá liggi ekki fyrir ástæður sem leitt geti til brottvísunar kæranda og rétt sé að líta svo á að kærandi hafi með framburði sínum og framlögðum gögnum veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins, sbr. c- og d-liður 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem væri til þess fallið að sanna á honum deili. Leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats. Það var mat Útlendingastofnunar að engin ástæða væri til að draga í efa að hann sé nígerískur ríkisborgari. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé nígerískur ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Nígeríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Amnesty International Report 2017/18 – Nigeria (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
- Country Policy and Information Note – Nigeria: Actors of Protection (U.K. Home Office, 28. mars 2019);
- Country Policy and Information Note – Nigeria: Medical and Healthcare issues (U.K. Home Office, janúar 2020);
- EASO COI Meeting Report – Nigeria – Practical Cooperation Meeting 12-13 June 2017 – Rome (European Asylum Support Office, 21. ágúst 2017);
- EASO Country Guidance – Nigeria – Guidance note and common analysis (European Asylum Support Office, febrúar 2019);
- EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Actors of Protection (European Asylum Support Office, 25. nóvember 2018);
- EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Country Focus (European Asylum Support Office, 4. júní 2017);
- EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Security Situation (European Asylum Support Office, 25. nóvember 2018);
- EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Targeting of individuals (European Asylum Support Office, 25. nóvember 2018);
- Freedom in the World 2019 – Nigeria (Freedom House, 4. febrúar 2019);
- Mental health disorders in Nigeria: A highly neglected disease (Ann Nigerian Med, 15. maí 2017);
- Nigeria 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
- Nigeria 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
- Nigeria 2018 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, maí 2019);
- Nigeria: People with mental health conditions chained, abused (Human Rights Watch, 11. nóvember 2019);
- The World Factbook – Nigeria (Central Intelligence Agency, 20. apríl 2020) og
- World Report 2020 – Nigeria (Human Rights Watch, janúar 2020).
Nígería er sambandslýðveldi með um 214 milljónir íbúa. Nígería var nýlenda Bretlands fram að sjálfstæði þess árið 1960 og sama ár gerðist Nígería aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1993. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991. Ríkið fullgilti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2001 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2009. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um trúfrelsi frá árinu 2019 er talið að um helmingur íbúa landsins séu múslimar og hinn helmingurinn kristinn. Þar kemur fram að trúfrelsi sé verndað í stjórnarskrá Nígeríu og einnig sé að finna ákvæði sem banni stjórnvöldum að koma á ríkistrú. Flestir íbúar svæða í Norður-Nígeríu séu múslimar og í Suður-Nígeríu séu kristnir í meirihluta. Bæði kristnir og múslimar hafi greint frá mismunun á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta.
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Alþjóðasambands sakamálalögreglu (e. Interpol) er löggæsla ríkisins aðallega í höndum ríkislögreglu Nígeríu sem talin er samanstanda af rúmlega 350.000 lögregluþjónum. Ríkislögreglan annist löggæslustörf í öllum 36 fylkjum Nígeríu og höfuðborginni Abuja. Hlutverk ríkislögreglunnar sé að vernda einstaklinga og eignir, koma í veg fyrir afbrot, upplýsa og rannsaka glæpi auk þess að sækja afbrotamenn til saka. Samkvæmt skýrslu EASO frá 2017 séu nokkrar sérhæfðar deildir innan ríkislögreglunnar sem annist sértæk brot. Ríkislögreglan hafi verið gagnrýnd fyrir spillingu og mannréttindabrot af ýmsum rannsakendum og samtökum. Dæmi séu um að lögregluþjónar hafi orðið uppvísir af því að kúga fé af almennum borgurum og sleppa sakborningum gegn mútugreiðslum. Þá hafi mannréttindasamtök greint frá því að u.þ.b. 100.000 lögregluþjónar hafi veitt efnamiklum einstaklingum persónulega þjónustu. Þá sé mikill skortur á lögreglumönnum í ríkinu, auk þess sem þjálfun á lögreglumönnum sé ábótavant og skortur sé á fjármagni frá ríkinu. Í ríkinu séu þó til staðar formlegar kvörtunarleiðir vegna misferlis lögreglu í starfi eða spillingar en þó tíðkist í miklum mæli að leysa slík mál á óformlegan hátt. Þá skorti skilvirkar leiðir til að eiga við, rannsaka og refsa vegna ofbeldis eða spillingar öryggissveita. Mútuþægni sé víðfeðmur vandi í ríkinu og samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 hafi stofnanir sem annist kvörtunarmál í ríkinu greint frá uppsögnum lægra settra lögreglumanna vegna kvartana almennings um fjárkúganir af hálfu lögreglu. Þó hafi fá mál verið rannsökuð eða farið fyrir dómstóla. Fram kemur í ofangreindum gögnum að töluverð spilling sé innan dómskerfisins, auk þess sem skortur sé á þjálfun dómara. Þó kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2019 að þrátt fyrir veikleika í stjórnkerfinu standi þeim sem óttist einstaklinga sem starfi ekki fyrir ríkið almennt til boða skilvirk vernd. Komið hafi verið á fót embætti umboðsmanns í Nígeríu árið 2004 (e. The Public Complaints Commission) en um sé að ræða sjálfstæða og óháða stofnun sem taki á móti kvörtunum borgara og tryggi rétt þeirra gagnvart nígerískum stjórnvöldum endurgjaldslaust. Hægt sé að nálgast skrifstofur umboðsmanns í öllum 36 fylkjum Nígeríu og er almennt talið að um sé að ræða skilvirkt úrræði fyrir borgara Nígeríu. Þá kemur fram að opinberar eftirlitsnefndir (The National Human Rights Commission (NHRC) og The Public Complaints Commission) hafi eftirlit með störfum dómstóla landsins og nígeríska lögregluráðið (e. The Nigerian Police Council) og framkvæmdarstjórn lögreglunnar (e. Police Service Commission) hafi eftirlit með störfum lögreglunnar.
Samkvæmt ofangreindum gögnum er heilbrigðiskerfinu í Nígeríu skipt í fyrsta, annað og þriðja stig og skiptist jafnframt í opinberan- og einkageira. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins sé starfrækt á vegum sveitarfélaga, annað stigið sé starfrækt á vegum ráðuneyta í hverju og einu fylki og þriðja stigið sé starfrækt á vegum alríkisins. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins feli í sér almenna heilbrigðisþjónustu fyrir borgara Nígeríu og fái jafnframt minnsta fjármagnið af stigunum þremur. Því sé almenn heilbrigðisþjónusta almennt illa skipulögð og innviðir hennar veikburða. Aðgengi sé þá ekki gott sökum skorts á heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki víða um Nígeríu. Þá sé lækniskostnaður almennt hár og aðgengi að lyfjum slæmt. Heilbrigðisþjónusta sé fjórfalt aðgengilegri í þéttbýli heldur en í strjálbýli. Heilbrigðisþjónusta innan einkageirans sé almennt betri og skipulagðari en lækniskostnaður sé að meðaltali hærri en hjá opinbera geiranum. Þá kemur fram í tímaritsgrein frá árinu 2010 að talið sé að allt að 60% íbúa Nígeríu hafi ekki haft fullnægjandi aðgang að lyfjum. Þá kemur fram að heilbrigðisþjónusta sé töluvert aðgengilegri í suðurhluta landsins en í norðurhluta þess.
Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2020 kemur fram að í Nígeríu séu átta sjúkrahús sem sérhæfð séu í taugageðlækningum staðsett víðsvegar um landið. Geðdeildir séu jafnframt á öllum háskólasjúkrahúsum, auk þess sem starfrækt séu sex opinber geðsjúkrahús í mismunandi fylkjum í landinu. Þá kemur fram að meðferð við geðsjúkdómum sé aðgengileg á almennum sjúkrahúsum og í Nígeríu sé meðferð í boði við öllum geðsjúkdómum. Um 300 geðlæknar starfi í Nígeríu en skortur virðist vera á geðheilbrigðisstarfsfólki og fjöldi þeirra ekki í samræmi við íbúafjölda landsins. Almennir heilbrigðisstarfsmenn hafi þó fengið þjálfun í greiningu algengra geðsjúkdóma og á fjölda opinberra og einkarekinna sjúkrahúsa hafi sjúklingar aðgengi að geðlæknum, geðhjúkrunarfræðingum og sálfræðingum, ráðgjöf og lyfjameðferð. Þá sé einnig boðið upp á meðferð í búsetuúrræðum og heimaþjónustu. Veruleg misskipting sé á fjölda geðheilbrigðisstarfsfólks milli landshluta en talið sé að norðaustur hluti landsins eigi undir högg að sækja hvað það varðar samanborið við aðra landshluta. Geðræn veikindi séu þó ennþá fordæmd í Nígeríu og fjölskyldur eigi það til að fela veikindin eða telji þau stafa af bölvunum eða göldrum. Í skýrslu frá EASO kemur einnig fram að andlega veikir einstaklingar verði fyrir mismunun og félagslegri skömm og að flestir þeirra njóti engrar heilbrigðisaðstoðar. Þá bera gögnin einnig með sér að andlega veikir einstaklingar hafi verið lokaðir inni á stofnunum og orðið fyrir alvarlegri misnotkun. Slíkum stofnunum hafi þó í einhverjum mæli verið lokað af lögreglu.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá því í mars 2020 kemur fram að aðstæður í fangelsum í Nígeríu séu almennt mjög slæmar. Fangar hafi m.a. ekki aðgengi að helstu nauðsynjavörum eða heilbrigðisþjónustu og hreinlæti sé ábótavant. Þá kemur fram að almennt séu fangar með geðræn vandamál vistaðir með öðrum föngum og fái enga sérhæfða þjónustu þó finna megi þess einstaka dæmi að fangelsi bjóði föngum með geðræn vandamál sérstaka aðstöðu.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir umsókn sína á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sem rekja megi til samsafns athafna m.a. vegna ítrekaðs ofbeldis sem hann hafi orðið fyrir, þeirrar hættu á að vera fangelsaður að ósekju og þeirrar mismununar og illu meðferðar sem hann standi frammi fyrir vegna þess geðsjúkdóms sem hann sé haldinn.
Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kærenda.
Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að faðir hans væri [...] í Nígeríu. Kærandi sé elsti sonur föður síns og því erfingi krúnu hans og eigna. Síðan faðir hans hafi tilkynnt honum væntanlegan arf hafi systkini hans ekki virt hann viðlits og hótað honum lífláti afsali hann sér ekki arfinum. Dag einn hafi lögregla gert húsleit hjá kæranda. Við leit í herbergi hans hafi fundist fíkniefni sem hafi komið kæranda á óvart enda væri hann hvorki fíkniefnaneytandi né fíkniefnasali. Hann hafi í kjölfarið verið settur í fangageymslu og að lokum verið ákærður. Nokkrum dögum síðar hafi kærandi verið skotinn í hægri fótlegg og nokkrum dögum eftir það lent í alvarlegu slysi sem olli meðvitundarleysi í nokkra daga. Nokkrir félagar hans hafi látist í slysinu. Nokkru síðar hafi vinur kæranda verið myrtur og blóðugur fatnaður og byssukúla fundist við húsleit hjá kæranda. Kærandi hafi eftir það farið til föðurbróður síns í Lagos. Föðurbróðir hans hafi svo verið myrtur nokkrum dögum síðar. Kæranda hafi þá ekki átt í neitt hús að venda og flúið til Líbýu.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram það mat Útlendingastofnunar að frásögn kæranda af aðdraganda og ástæðum flótta hans frá heimaríki hafi verið ótrúverðug og hafi hún ekki verið lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Í ákvörðuninni er vísað til þess að misræmi hafi verið í frásögn kæranda m.a. um aldur hans og hvenær hann hafi orðið fyrir fyrrnefndri skotárás. Þá hafi Útlendingastofnun ekki fundið gögn eða upplýsingar um að faðir kæranda væri konungur í [...] heldur þvert á móti sýni gögn fram á að konungur eða Oba í [...] væri maður að nafni [...] og forveri hans hafi verið [...]. Kærandi hafi ennfremur byggt á því að hann standi frammi fyrir því að vera fangelsaður að ósekju í heimaríki sínu, m.a. vegna vinar hans, [...], sem hafi verið myrtur. Til stuðnings þeirri frásögn sinni lagði kærandi fram ljósmyndir sem hann kvað tengjast morðinu. Leiddi rannsókn Útlendingastofnunar í ljós að þær myndir sé auðvelt að finna á internetinu og virðast þær ekki tengjast frásögn kæranda á nokkurn hátt.
Kærunefnd telur ekkert í rannsókn sinni eða gögnum málsins gefa ástæður til þess að bera brigður á ofangreint mat Útlendingastofnunar. Misræmi á milli frásagnar kæranda og framlagðra gagna hans, einkum hvað varðar tímalínu atburða og stöðu föður hans, eru að mati kærunefndar ekki til þess fallin að styrkja trúverðugleika hennar. Skýringar kæranda í greinargerð m.a. á því af hverju hann lagði fram fyrrgreindar myndir eru að mati kærunefndar ekki til þess fallnar að bæta úr trúverðugleika. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að hans bíði fangelsisvist í Nígeríu eða sem styðja við frásögn hans að öðru leyti. Að mati kærunefndar er ekki ósanngjarnt að ætla að kærandi hafi á þeim tíma sem liðinn er frá þeim atburðum sem hann greinir frá getað aflað gagna til að styðja við frásögn sína. Að mati kærunefndar leiða framangreind atriði til þess að frásögn kæranda af þeim atvikum sem leiddu til flótta hans verði talin ótrúverðug í heild sinni og verður hún því ekki lögð til grundvallar í málinu.
Er það því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sætt ofsóknum eða að hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Kærandi telur lögregluna í Nígeríu þó spillta og hefur borið fyrir sig að stjórnvöld í Nígeríu geti ekki og vilji ekki veita honum vernd gegn ofsóknum og þá sé erfiðara fyrir hann en aðra að fá vernd sökum geðrænna veikinda sinna. Þrátt fyrir að fallast megi á að einhver spilling sé til staðar innan lögreglu og dómstóla landsins kemur fram í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar að borgurum landsins standi almennt skilvirk vernd yfirvalda til boða þurfi þeir á slíkri aðstoð að halda. Þá séu eftirlitsnefndir sem hafi eftirlit með störfum dómstóla og lögreglu og umboðsmaður sem borgarar landsins geta leitað til telji þeir á rétti sínum brotið. Er það því mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi því raunhæfa möguleika á að leita ásjár stjórnvalda í heimaríki sínu telji hann sig þurfa þess.
Þær heimildir sem kærunefnd hefur skoðað bera með sér að andlega veikir einstaklingar eigi undir högg að sækja í Nígeríu og dæmi séu um að þeir sæti illri meðferð vegna veikinda sinna. Hafi andlega veikir einstaklingar til að mynda verið lokaðir inni á meðferðarheimilum í langan tíma gegn vilja sínum. Samkvæmt The Human Right Watch virðist þessum meðferðarheimilum þó í einhverjum mæli nú hafa verið lokað og samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2020 eiga íbúar Nígeríu kost á meðferð við öllum geðrænum veikindum þar í landi líkt og að framan greinir. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram vottorð frá heilbrigðisstofnun í Nígeríu, dags. 17. janúar 2016, þar sem fram kemur að hann hafi fengið viðeigandi meðferð og lyf vegna andlegra veikinda sinna þar í landi. Þótt gögn um heimaríki beri samkvæmt framangreindu með sér að einstaklingar sem glími við andleg veikindi kunni að mæta fordómum í samfélaginu hefur rannsókn kærunefndar ekki leitt í ljós að þeir einstaklingar sæti kerfisbundinni mismunun sem geti fallið undir hugtakið ofsóknir í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Hefur kærandi auk þess ekki borið fyrir sig að hafa sætt neinni meðferð vegna veikinda sinna sem gæti fallið undir síðastnefnt ákvæði.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringagagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunni að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væri ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Í gögnum málsins eru m.a. komunótur frá Göngudeild sóttvarna, dags. 29. nóvember 2018 til 28. janúar 2019, þar sem fram kemur að kærandi sé hraustlegur og almennt heilbrigður, en glími þó við andlega vanlíðan. Í gögnum málsins liggur einnig fyrir samskiptaseðill geðdeildar, dags. 24. janúar 2019 til 15. janúar 2020, þar sem fram kemur að kærandi hafi í nokkur skipti á því tímabili leitað á bráðamóttöku geðdeildar og [...]. Þann dag hafi kærandi verið skráður með greininguna [...]. Samkvæmt útskriftarnótu geðdeildar, dags. 15. janúar 2020, kemur fram að kærandi hafi greininguna svörun við mikilli streitu. Þá liggur fyrir samkvæmt gögnunum að kæranda hafi verið ávísað lyfjum við veikindum sínum. Í ljósi framangreinds er því lagt til grundvallar að kærandi glími við geðræn veikindi.
Þrátt fyrir að í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar komi fram að fordómar ríki í garð einstaklinga með geðraskanir í heimaríki kæranda og að skortur sé á geðheilbrigðisstarfsfólki þá standi íbúum landsins almennt geðheilbrigðisþjónusta til boða. Íbúar hafi aðgengi að geðlæknum, geðhjúkrunarfræðingum og sálfræðingum, ráðgjöf og lyfjameðferðum á fjölda opinberra og einkarekinna sjúkrahúsa. Þá kemur fram að í Nígeríu séu meðferð í boði vegna allra almennra vandamála tengdum geðheilsu. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu í þéttbýli sé talsvert betra en á strjálbýlli svæðum og þá sé aðgengi að geðheilbrigðisstarfsfólki betra í suðurhluta landsins en norðurhluta þess. Liggur fyrir að kærandi var búsettur í [...] Nígeríu. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2020 er að finna lista yfir aðgengileg lyf í Nígeríu. Þau lyf sem kærandi hefur fengið uppáskrifuð hér á landi samkvæmt framlögðum heilsufarsgögnum er að finna á þeim lista. Þá hefur kærandi lagt fram vottorð frá heilbrigðisstofnun í Nígeríu þar sem fram kemur að kærandi hafi fengið meðferð og lyf vegna geðrænna veikinda í 12 vikur á tímabilinu 27. nóvember 2015 til 15. janúar 2016. Meðfylgjandi vottorðinu er lyfseðill. Af framangreindu er ekki að sjá að kærandi þurfi á meðferð að halda sem talin sé svo sérhæfð að hann geti einungis hlotið hana hérlendis né að ef hún yrði rofin yrði það til tjóns fyrir hann verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Ljóst sé að kærandi geti fengið aðstoð heilbrigðisyfirvalda eða annarra aðila í heimaríki vegna þeirra andlegu veikinda sem hann glímir við. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd af heilbrigðisástæðum.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má ráða að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kæranda þá teljist svæðið þar sem kærandi hafði búsetu öruggt svæði. Þá standi borgurum Nígeríu almennt til boða skilvirk vernd yfirvalda. Kærandi kveðst hafa upplifað samfélagslega útskúfun bæði vegna andstöðu fjölskyldunnar við sig og vegna geðrænna veikinda sinna. Eins og áður greinir bera gögn um heimaríki kæranda með sér að einstaklingar sem glími við geðsjúkdóma mæti fordómum í samfélaginu og geti átt erfitt uppdráttar. Kærandi kvaðst í viðtölum sínum hjá Útlendingastofnun hafa búið hjá foreldrum sínum ásamt eiginkonu sinni og barni og hafi m.a. notið stuðnings þeirra vegna veikinda sinna. Þá hafi hann stundað nám í vélaverkfræði og átt vini og kunningja. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um geðheilbrigðismál í Nígeríu og mats á trúverðugleika kæranda er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að félagslegar aðstæður sem bíði kæranda í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.
Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir og sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendinga sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d- lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.
Kærandi sótti um vernd þann 8. nóvember 2018. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 14. maí 2020, eru liðnir rúmlega 18 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Eins og að framan greinir hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að auðkenni kæranda sé ekki upplýst. Að mati kærunefndar hefur kærandi jafnframt ekki veitt aðstoð við úrlausn málsins, m.a. þar sem hann hefur ekki veitt viðhlítandi upplýsingar og skýringar á auðkenni sínu, verið ótrúverðugur og lagt fram gögn í þeim tilgangi að villa um fyrir yfirvöldum. Að mati kærunefndar eru skilyrði b- og d-liðar 2. mgr. 74. gr. því ekki uppfyllt.
Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að víkja frá ákvæðum 3. mgr. greinarinnar en þar eru raktar nokkrar ástæður sem gætu útilokað veitingu dvalarleyfis á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laganna. Engin heimild er til að víkja frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. Kærunefnd telur því ljóst að þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði b- og d-liða 2. mgr. 74. gr. laganna sé ekki hægt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með vísan til þess tíma sem mál hans hefur tekið.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands þann 8. nóvember 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. laganna.
Fram hefur komið að kærandi glími við andleg veikindi. Að öðru leyti er kærandi við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 305/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvalið hefur hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 1. júní 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir
Bjarnveig Eiríksdóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir