Niðurstöður starfshóps um kjararáð
Starfshópur um málefni kjararáðs sem forsætisráðherra skipaði hinn 23. janúar sl. hefur lokið störfum. Í skýrslu hópsins er að finna samanburð fyrirkomulags við launaákvarðanir hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og æðstu embættismönnum á Íslandi og í nágrannalöndunum, greining á úrskurðum kjararáðs og samanburður við launaþróun annarra starfsgreina. Þá var hópnum falið að gera tillögur að breyttu fyrirkomulagi og úrbótum.
Helstu niðurstöður starfshópsins eru:
1) Launaákvarðanir hafa ítrekað skapað ósætti og leitt til óróa á vinnumarkaði. Lögbundin viðmið Kjaradóms og síðar kjararáðs hafa verið óskýr og ósamrýmanleg. Alþingi hefur ítrekað hlutast til um endurskoðun úrskurða. Starfshópurinn telur margt mæla með því að gjörbreyta núgildandi fyrirkomulagi.
2) Gagnsæi og fyrirsjáanleika skortir um launaákvarðanir og raunveruleg laun.
3) Samanburður á launum æðstu embættismanna, dómara og kjörinna fulltrúa bendir ekki til þess að þau víki verulega frá því sem er í samanburðarlöndunum.
4) Í nágrannalöndunum eru ákvarðanir um laun kjörinna fulltrúa nánast undantekningarlaust teknar einu sinni á ári. Endurskoðun fylgir skilgreindri launaþróun næsta ár á undan.
5) Launaþróun þeirra sem eiga undir kjararáð víkur ekki merkjanlega frá almennri þróun launa á tímabilinu 2006-2017, sbr.:
Margfeldi af meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna 2006 2013 2016 2017
Forsætisráðherra 3,47 2,82 3,53 3,31
Ráðherrar 3,13 2,54 3,19 2,99
Þingfararkaup 1,75 1,44 1,93 1,80
Hæstaréttardómarar, heildarlaun 3,17 3,01 3,22 3,02
Héraðsdómarar, heildarlaun 2,49 2,42 2,47 2,31
6) Á því tímabili sem kveðið er á um í rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisins, þ.e. 2013-2018, hafa laun þeirra sem eiga undir kjararáð hækkað um 35-64% en almenn þróun launa virðist liggja á bilinu 43-48%.
Tillögur starfshópsins
Fyrirkomulag launaákvarðana
1) Í meginatriðum verði hætt að úrskurða um laun æðstu manna samfélagsins eftir óskýrum viðmiðunum. Launafjárhæðir eiga að vera aðgengilegar og auðskiljanlegar almenningi og einnig þeim sem störfunum gegna.
2) Í lögum verði ákveðin launafjárhæð (krónutala) sem endurskoðuð er með árs millibili eftir skýrum mælikvarða sem starfshópurinn álítur þróun reglulegra launa ríkisstarfsmanna vera. Nokkrar starfgreinar og embætti sem eiga undir kjararáð fái ýmist samningsrétt um kjör sín eða taki laun samkvæmt almennu fyrirkomulagi sem gildir um ríkisstarfsmenn.
Úrskurðir kjararáðs
3) Starfshópurinn telur það ekki færa leið að setja lög um afturvirka endurskoðun ákvarðana kjararáðs sem hefði í för með sér endurgreiðslukröfu.
4) Meirihluti starfshópsins telur heldur ekki fært eða efnislegar forsendur fyrir því að lækka almennt laun þeirra sem eiga undir kjararáð til framtíðar. Meirihlutinn bendir á að ef laun þeirra verða óbreytt til ársloka 2018 myndi kjararáðshópurinn að meðaltali taka hækkunum sem ekki eru í ósamræmi við almenna launaþróun. Fulltrúi ASÍ í starfshópnum telur það færa leið að lækka með lögum laun embættismanna og kjörinna fulltrúa.
Helstu röksemdir starfshópsins fyrir breyttu fyrirkomulagi
1) Breytingar á launum æðstu embættismanna ríkisins verða ekki leiðandi. Með því fyrirkomulagi að laun taki endurskoðunum eftir að launaþróun næstliðins árs liggur fyrir er komið í veg fyrir ósamræmi á milli launaþróunar þeirra og annarra.
2) Þróun á launum verður jafnari. Ekki mun koma til þess að endurskoðun dragist og hækkanir verði í stórum stökkum.
3) Laun æðstu embættismanna ríkisins verða gagnsærri og fyrirsjáanlegri. Í núgildandi fyrirkomulagi eru laun embættismanna og dómara hvergi aðgengileg almenningi og illskiljanleg meðal annars vegna þess að stór hluti launa er greiddur í formi eininga og laun og önnur kjör þingmanna og ráðherra hafa verið ákveðin af tveimur aðilum.
4) Mælikvarðar og tímamörk endurskoðunar á launum verða öllum ljós. Þeir sem launin þiggja geta áttað sig á því hvernig endurskoðun verður háttað og ríkissjóður getur áætlað útgjöld vegna launanna á skipulegan hátt.
5) Komið er í veg fyrir óskýrar launaákvarðanir. Þau störf sem um ræðir (þjóðkjörnir fulltrúar, ráðherrar, dómarar o.fl.) eru stöðug í þeim skilningi að þeir sem þeim gegna koma og fara en störfin eru hin sömu. Ekki er um að ræða framgang innan sömu embætta eða breytingar sem kalla á sérstakt mat á starfsmönnum eða störfunum sjálfum eftir að hæfileg laun eru ákveðin í eitt skipti fyrir öll.
6) Samræmi um launaákvarðanir. Með því að launaákvarðanir um fleiri starfsgreinar fari eftir 39. gr. a) í lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og verði á hendi eins aðila má ætla að eðlilegra samræmi og samfella verði í starfsmati og kjörum.
Í dag afhenti starfshópurinn forsætisráðherra ítarlega skýrslu um vinnu sína og tillögur ásamt talnaefni. Hér meðfylgjandi eru nokkrar yfirlitsmyndir um helstu stærðir og hlutföll.