Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2013 Innviðaráðuneytið

Hópur um stefnumótun í net- og upplýsingaöryggi stofnaður

Hópur um stefnumótun í net- og upplýsingaöryggi hefur verið settur á fót á vegum innanríkisráðuneytisins. Aðal verkefni hópsins er að móta stefnu stjórnvalda um net- og upplýsingaöryggi og vernd upplýsingainnviða er varða þjóðaröryggi. Í starfshópnum sitja fulltrúar innanríkisráðuneytis, Ríkislögreglustjóra, Póst- og fjarskiptastofnunar og utanríkisráðuneytisins.

Verkefnisstjórihópsins er Sigurður Emil Pálsson, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, og aðrir í hópnum eru Ottó V. Winther, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, Páll Heiðar Halldórsson, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu og Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Jón F. Bjartmarz frá Ríkislögreglustjóra, Hrafnkell V. Gíslason forstjóri og Stefán Snorri Stefánsson frá Póst- og fjarskiptastofnun og Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í utanríkisráðuneytinu.

Aðal verkefni hópsins er að móta langtímastefnu stjórnvalda í netöryggis- og upplýsingaöryggi. Hópurinn á að setja fram langtímastefnu fyrir tímabiliði 2014-2025 og aðgerðaáætlun 2014-2017 varðandi net- og upplýsingaöryggi. Verkefnaáætlun hópsins miðar að því að aðgerðaáætlunin og langtímastefnan verði tilbúnar fyrir lok júní á næsta ári. Þá á hópurinn að hafa samráð um framkvæmd verkefna er falla undir viðfangsefni hópsins og sem eru tilgreind í framangreindum áætlunum og stofnanir fulltrúa í hópnum koma að.

Aukið öryggi einstaklinga og þjóðfélagshópa

Samfélagsleg markmið hópsins eru annars vegar að auka og öryggi einstaklinga og þjóðfélagshópa með því að efla  net- og upplýsingaöryggi og hins vegar að stuðla að órofa virkni mikilvægra samfélagsinnviða á þessu sviði með því að auka áfallaþol net- og upplýsingakerfa. Einnig á hópurinn að stuðla að því að efla samstarf og samhæfingu stjórnvalda hér á landi og á alþjóðavettvangi um net- og upplýsingaöryggi.

Í nánari lýsingu á verkefni hópsins segir meðal annars:

Stafræn upplýsingakerfi eru á tiltölulega fáum árum orðin grunnur nútíma samfélags sem er vel sýnilegt í aukinni notkun Netsins á öllum sviðum þjóðlífsins, viðskiptum og nýtingu opinberrar þjónustu. Stafræn upplýsingakerfi eru einnig að verða undirstaða ómissandi innviða samfélagsins svo sem orkudreifingar, samgangna, heilsugæslu, öryggismála og fjarskipta.

Við nýtingu nýrra sóknarfæra sem stafræn upplýsingatækni býður upp á verður að hafa hugfast að henni fylgja einnig ógnir sem taka verður á. Stór hluti þróunar síðustu ára hefur falist í samtengingu mismunandi kerfa og samþættingu þjónustu. Við samþættinguna getur verið erfiðara fyrir einn aðila að hafa heildarsýn yfir notkunina og þegar tæknin bregst geta afleiðingar orðið verri og víðtækari en búist var við. Þá má búast við aukinni notkun á nettengdum örtölvum í venjulegum heimilistækjum.

Á síðari árum hefur einnig orðið ör þróun í netglæpum og árásum á stafræn upplýsingakerfi. Þetta getur birst með ýmsum hætti, allt frá dreifingu á ólöglegu efni til árása á mikilvæga hagsmuni einstaklinga, fyrirtækja og stofnana, ýmist til að afla gagna, t.d. iðnaðarnjósnir, valda beinu tjóni eða kúga fé með hótun um skaða. Tenging Netsins við ýmis kerfi ómissandi innviða, t.d. í orkudreifingu og fjarskiptum, skapar þannig viðkvæmni gagnvart árásum.

Greina þarf hvaða þættir geta verið viðkvæmir gagnvart áföllum, til hvaða mótvægisaðgerða og viðbúnaðar unnt er að grípa og hvernig stuðla megi að því að mikilvæg starfsemi geti sem fyrst komist í gagnið verði hún fyrir áfalli.

Viðfangsefnið er margþætt og þurfa margir að koma að því. Markmið íslenskra stjórnvalda er að smíða ramma sem tryggir á sem bestan hátt öryggi upplýsinga- og netkerfa. Fyrirtæki sem bjóða þjónustu á sviði upplýsingatækni þurfa að vera með og einnig þau sem eru háð henni vegna starfsemi sinnar og leita þarf samstarfs við menntastofnanir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta