Þúsund tonn af sprengiefni fyrir Vaðlaheiðargöng
Sprengivinna vegna Vaðlaheiðarganga hófst formlega í dag þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, gangsetti fyrstu sprenginguna við gangamunnann Eyjafjarðarmegin í fjarveru innanríksráðherra. Sprengivinna Fnjóskadalsmegin hefst næsta vor og gert er ráð fyrir að göngin verði tilbúin í árslok 2016.
Ráðherrar, þingmenn og sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi voru viðstaddir athöfnina og í ávörpum þeirra kom fram að samstaða heimamanna og stuðningur þingmanna hefði gert þetta verkefni mögulegt. Töldu ræðumenn göngin tvímælalaust samgöngubót og að þau myndu meðal annars gera byggðarlögin beggja vegna ganganna að einu atvinnusvæði.
Vaðlaheiðargöng liggja undir Vaðlaheiði og tengja Eyjafjörð og Fnjóskadal milli bæjanna Halllanda og Skóga. Miðað við legu Hringvegarins um Víkurskarð styttist leiðin um 16 km. Alþingi samþykkt í júní 2012 heimild fyrir ríkissjóðs að lána Vaðlaheiðargöngum hf. allt að 8,7 milljörðum króna og er félagið sjálft, eignir þess og tekjustreymi af veggjöldum talin vera fullnægjandi trygging fyrir láninu. Áætluð umferð um Vaðlaheiðargöng við opnun eru 1.400 bílar á sólarhring.
Hlutafélagið Vaðlaheiðargöng er verkkaupi en félagið er í eigu Vegagerðarinnar (51%) og Greiðrar leiðar ehf. (49%), félags í eigu heimamanna. Ósafl annast gangagerðina fyrir ÍAV og Marti Contractors sem buðu lægst fjögurra aðila í verkið. Uppfært tilboðið er 9,3 milljarðar króna og að meðtöldum kostnaði við rannsóknir, undirbúning og fleira er heildarkostnaður áætlaður um 11,5 milljarðar króna.
Sjá einnig á vef Vaðlaheiðarganga.
Nokkrar tölur:
- Fyrsta nefnd skipuð: 2002
- Stofnfundur Vaðlaheiðarganga hf.: 2011
- Heildarlengd tengivega: 4,1 km
- Lengd ganga: 7,17 km
- Vegskáli í Eyjafirði: 84 m
- Vegskáli í Fnjóskadal: 224 m
- Gröftur úr jarðgöngum: 500.000 rúmmetrar
- Vörubílahlöss úr göngum: 30 til 40 þúsund
- Sprengiefni: 1.000 tonn
- Afköst við sprengingar: 40 til 70 m á viku
- Stytting Hringvegar: 16 km
- Heildarkostnaður: 11,5 milljarðar