Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 5/2019

Hinn 2. mars 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 5/2019:

 

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmálsins nr. S-606/2015:

Ákæruvaldið

gegn

Gunnari Jóhannssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

  1. Beiðni um endurupptöku
    1. Með erindi, dags. 13. mars 2019, fór Gunnar Jóhannsson þess á leit að héraðsdómsmálið nr. S-606/2015, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. mars 2016, yrði endurupptekið.
    2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um beiðnina. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Gizur Bergsteinsson og Hrefna Friðriksdóttir.
  2. Málsatvik
    1. Með ákæru útgefinni 13. október 2015 var endurupptökubeiðanda gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79/1997 með því að hafa verið sem skipstjóri rækjubátsins DRÖFN RE-35 á ólöglegum togveiðum á Eldeyjarsvæði án tilskilins veiðileyfis.
    2. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2016 í máli nr. S-606/2015 var endurupptökubeiðandi fundinn sekur um að hafa brotið gegn 1., sbr. 2. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr., sbr. 17. gr. laga nr. 79/1997, sbr. 1. gr., sbr. 7. gr. reglugerðar um rækjuveiðar innfjarða nr. 258/2012. Endurupptökubeiðanda var gert að greiða 200.000 króna sekt í Landhelgissjóð Íslands en sæta ella fangelsi í 14 daga. Þá var endurupptökubeiðanda gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns að fjárhæð 818.400 krónur.

     

     

  3. Grundvöllur beiðni
    1. Endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á því að fram hafi komið ný gögn sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk, sbr. a-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá byggir endurupptökubeiðandi á því að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. b-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Að endingu byggir endurupptökubeiðandi beiðni sína á því að þau sönnunargögn, sem hafi verið færð fram í málinu, hafi verið rangt metin þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.
    2. Endurupptökubeiðandi reifar í endurupptökubeiðni að með bréfi Fiskistofu, dags. 18. ágúst 2016, hafi verið boðuð álagning gjalds vegna ólögmæts sjávarafla. Álagningin hafi m.a. tekið mið af veiðum DRAFNAR RE-35 á Eldeyjarsvæði sem endurupptökubeiðandi var sakfelldur vegna. Umrædd álagning hafi verið kærð til Fiskistofu og síðar til sérstakrar úrskurðarnefndar sem starfar samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992 um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Úrskurði nefndarinnar hafi síðar verið skotið til héraðsdóms, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-324/2017, þar sem álagning Fiskistofu hafi verið talin lögmæt. Þá segir í endurupptökubeiðni að dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-324/2017 hafi verið áfrýjað til Landsréttar, sbr. dóm Landsréttar 19. desember 2018 í máli nr. 221/2018. Í þeim dómi hafi Landsréttur fellt úr gildi téðan úrskurð nefndar samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992.
    3. Þá vísar endurupptökubeiðandi til þess að í rökstuðningi í dómi Landsréttar hafi m.a. sagt að enginn fyrirvari hafi verið gerður í bráðabirgðaákvæði II í reglugerð nr. 503/2015 um að sérstakt leyfi Fiskistofu hafi þurft til veiðanna. Af orðalagi ákvæðisins yrði því ekki önnur ályktun dregin en að rækjuveiðar á Eldeyjarsvæðinu hafi verið heimilar á tilgreindu tímabili að því gefnu að viðkomandi skip hefði aflamark í tegundinni og að til veiðanna hafi ekki þurft sérstakt leyfi Fiskistofu. Endurupptökubeiðandi telur þetta mat Landsréttar hafa myndað grundvöll að niðurstöðu réttarins um að fella úr gildi álagningu sérstaks gjalds á ólögmætan sjávarafla í samræmi við 1. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1993, sbr. tölul. 13 í dómi Landsréttar í máli nr. 221/2018.
    4. Endurupptökubeiðandi telur ljóst að hann hafi verið sakfelldur samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-606/2015 fyrir að hafa haldið skipi til veiða á Eldeyjarrækju án sérstaks leyfis Fiskistofu um veiðarnar, en Landsréttur hafi í dómsmáli er varðaði sömu veiðiferð komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið til staðar leyfisskylda samkvæmt þeim reglum sem sakfellingin hafi hvílt á. Að mati endurupptökubeiðanda fáist slík staða vart staðist í réttarríki og leitar endurupptökubeiðandi því eftir leiðréttingu mála sinna.
    5. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að fram sé kominn dómur Landsréttar þar sem fram komi önnur skýring þeirra reglugerðarákvæða sem lágu til grundvallar við útgáfu ákæru og sakfellingu samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-606/2015. Þetta megi fella undir a., c., eða d-liði 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.
    6. Þá telur endurupptökubeiðandi að samkvæmt a-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 megi draga þá ályktun að ef dómur Landsréttar hefði legið fyrir hefði það leitt til þess að hvorki hefði verið gefin út ákæra, né sakfelling talin tæk. Vísar endurupptökubeiðandi til þess að dómur áfrýjunardómstóls hafi t.a.m. réttaráhrif skv. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Dómurinn hafi því fullt gildi um þau málsatvik þar sem fjallað væri um stöðu leyfisskyldu veiðanna. Fordæmisgildi dómsins er að mati endurupptökubeiðanda afdráttarlaust þar sem fjölskipaður áfrýjunardómstóll hafi fjallað um sömu réttarheimild og reyndi á í refsimáli endurupptökubeiðanda.
    7. Jafnframt vísar endurupptökubeiðandi til þess að ljóst sé að dómari hafi í máli endurupptökubeiðanda metið ranglega atvik máls samkvæmt fyrirliggjandi sönnunargögnum um að forsendur væru til sakfellingar, sbr. c-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Enn fremur hafi verið brotið gegn d-lið 1. mgr. 228. gr. laganna þar sem sá ágalli hafi verið á málsmeðferð sakamáls endurupptökubeiðanda að dómur hafi ekki lagt mat á og greint réttarheimildir sem meint brot endurupptökubeiðanda áttu að hafa falið í sér.
    8. Endurupptökubeiðandi bendir á að í ákæru málsins sem krafist er endurupptöku á hafi verið vísað til brota endurupptökubeiðanda á lögum nr. 79/1997 með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 13. september 2015, sem skipstjóri, verið með rækjubátinn DRÖFN RE-35, á ólöglegum togveiðum á Eldeyjarsvæði þar sem báturinn var að rækjuveiðum án tilskilins veiðileyfis. Landhelgisgæslan hafi komið að skipinu við veiðar um kl. 22:00 téð kvöld. Tilgreint hafi verið í ákæru að brotið varði við 1., sbr. 2. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr., sbr. 17. gr. laga nr. 79/1997, sbr. 1. gr., sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 258/2012. Með þessum hætti hafi verið vísað til 1. gr. reglugerðar nr. 258/2012, þar sem fram hafi m.a. komið að allar rækjuveiðar innfjarða hafi verið óheimilar nema að fengnum sérstökum leyfum Fiskistofu og að hvert leyfi væri bundið við veiðar á einu tilteknu svæði, þ.m.t. Eldeyjarsvæði. Ákvæðið hafi að mati endurupptökubeiðanda verið grundvöllur þess að um brot á leyfisskyldu gæti verið að ræða. Í ákærunni hafi hins vegar ekki verið vísað til breytingarreglugerða en sérstök ástæða hafi verið til þess vegna breytingarreglugerðar nr. 503/2015, sem varðaði veiðar á Eldeyjarrækju á viðkomandi tímabili. Íreglugerðinni hafi verið að finna bráðabirgðaákvæði II sem hafi heimilað rækjuveiðar á Eldeyjarsvæðinu frá gildistöku reglugerðarinnar til 31. desember 2015.
    9. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-606/2015 komi ekkert fram um tilvist eða þýðingu reglugerðar nr. 503/2015 sem þó hafi varðað heimildir til veiðanna. Málsmeðferðin hafi að þessu leyti verið háð ágalla, sbr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um hvað skuli koma fram í ákæru. Í 10. tölul. í dómi Landsréttar hafi verið skírskotað til þessara atriða, þ.e. að í refsimálinu hafi ekki komið fram umfjöllun um þýðingu reglugerðar nr. 503/2015.
    10. Að öðru leyti styður endurupptökubeiðandi beiðni sína við grunnrök sakamálaréttarfars sem komi m.a. fram í þeirri meginreglu að ákærendur skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar, sbr. 18. gr. laga nr. 88/2008. Að mati endurupptökubeiðanda eigi eðli málsins samkvæmt hvorki dómstólar, ákæruvald né aðrir að una við að röng sakfelling standi óleiðrétt.
    11. Enn fremur vísar endurupptökubeiðandi til meginreglna um þrepaskiptingu dómsvalds og þeirra markmiða sem áfrýjunardómstólum er ætlað að þjóna, að endurskoða dóma og ályktanir lægra settra dómstóla, og stuðla þannig að samræmdri réttarframkvæmd. Þá víkur endurupptökubeiðandi að því að refsidómurinn hafi reynst endurupptökubeiðanda þungbær eftir að hafa stundað skipstjórnarstörf í áraraðir í sátt við lög og menn.
  4. Viðhorf gagnaðila
    1. Með bréfi, dags. 4. apríl 2019, óskaði endurupptökunefnd eftir því að ríkissaksóknari léti nefndinni í té viðhorf sitt til beiðninnar. Þann 14. apríl bárust athugasemdir ríkissaksóknara.
    2. Í athugasemdum ríkissaksóknara er tekið undir röksemdir endurupptökubeiðanda að því marki að ljóst virðist vera að viðhorf Landsréttar til túlkunar á umræddum ákvæðum tilgreindra reglugerða hafi verið með þeim hætti að dómurinn telji að veiðar þær á Eldeyjarrækju, sem endurupptökubeiðandi hafi verið sakfelldur fyrir að hafa stundað án sérstaks leyfis, hafi ekki verið leyfisskyldar eins og gengið er út frá í dómi héraðsdóms í máli nr. S-606/2015. Því hafi grundvöllur sakfellingar í málinu verið rangur að gengnum dómi Landsréttar, að mati ríkissaksóknara.
    3. Ríkissaksóknari telur þó vafa vera uppi um hvort heimild sé til endurupptöku. Vísað er til þess í athugasemdum ríkissaksóknara að í beiðni endurupptökubeiðanda hafi verið vísað til a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um að fram séu komin ný gögn, þ.e. dómur Landsréttar, sem skipt hefði verulegu máli fyrir niðurstöðu héraðsdóms hefði hann legið fyrir áður en dómur var upp kveðinn í sakamálinu. Að mati ríkissaksóknara sé þetta ekki allskostar tæk skýring enda hafi það verið röng túlkun laga sem olli hinni röngu niðurstöðu. Erfitt sé að taka undir röksemdir endurupptökubeiðanda um að dómur Landsréttar í máli nr. 221/2018 hafi fullt sönnunargildi um málsatvik, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991, enda hafi það ekki verið málsatvik sem hafi ráðið úrslitum heldur túlkun lagaákvæða. Óumdeilt hafi verið að endurupptökubeiðandi hafi ekki haft sérstakt leyfi til veiðanna, en það hafi oltið á lagatúlkun hvort sú háttsemi hafi verið refsinæm, sem hún hafi ekki verið samkvæmt Landsrétti.
    4. Þá telur ríkissaksóknari erfitt að komast að þeirri niðurstöðu að sönnunargögn hafi verið rangt metin, sbr. c-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, þar sem niðurstaða héraðsdóms hafi ekki byggst á mati á sönnunargögnum. Enn fremur telur ríkissaksóknari ekki hafið yfir vafa að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Að mati ríkissaksóknara sé torsótt að flokka ranga lagatúlkun sem galla á málsmeðferð.
    5. Ríkissaksóknari bendir á að fordæmi Landsréttar í máli nr. 221/2018 hafi gildi fyrir héraðsdóm eftir 17. mars 2016 en þess hafi ekki notið við þegar dómur gekk í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-606/2015. Að mati ríkissaksóknara verði því að líta svo á að þótt nú liggi fyrir nýrra fordæmi þá sé dómur í máli nr. S-606/2015 endanlegur og réttur eins og honum var unað af endurupptökubeiðanda þegar hann var kveðinn upp. Breyting á dómaframkvæmd skapi almennt ekki rétt til endurupptöku dæmdra mála séu dómar í þeim orðnir aðfararhæfir.
    6. Með vísan til framangreinds telur ríkissaksóknari ekki heimild til endurupptöku dómsins í 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 og ekki verði komist hjá því að hafna beiðninni.
  5. Athugasemdir endurupptökubeiðanda
    1. Þann 14. maí 2019 bárust endurupptökunefnd athugasemdir endurupptökubeiðanda við athugasemdir ríkissaksóknara.
    2. Í bréfinu hafnar endurupptökubeiðandi þeirri lögskýringu ríkissaksóknara að dómur Landsréttar teljist ekki vera nýtt gagn og að ekki sé um að ræða að sönnunargögn hafi verið rangt metin. Endurupptökubeiðandi vísar í því sambandi til stjórnskipulegra lögskýringarsjónarmiða og annarra skýringarsjónarmiða.
    3. Að mati endurupptökubeiðanda verði við skýringu endurupptökuákvæða að líta til 69. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið sé á um að engum verði gert að sæta refsingu nema viðkomandi hafi gerst sekur um þá háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Endurupptökubeiðandi telur ljóst að dómur Landsréttar, sem hafi varðað sömu veiðiferð og sakamál endurupptökubeiðanda, hafi tekið af allan vafa um að endurupptökubeiðandi hafi framið refsiverða háttsemi. Þetta sé að mati endurupptökubeiðanda grundvallaratriði við skýringu endurupptökuheimilda enda hafi tilgangur þeirra verið að vera varnagli um þessi stjórnarskrárvörðu réttindi. Endurupptökubeiðandi telur að lagasjónarmið um að dómur Landsréttar hafi einungis þýðingu eftir uppkvaðningu og sem fordæmi þaðan frá fáist ekki staðist. Þá fáist ekki staðist að beita þröngri lögskýringu varðandi skýringu hugtaksins „ný gögn“ eða hvað falli undir mat á sönnunargögnum.
    4. Enn fremur hafnar endurupptökubeiðandi sjónarmiðum ríkissaksóknara um að dómur varðandi sömu atvik og refsimál hafi varðað falli ekki undir það að vera „gagn“ í sakamáli í skilningi a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Endurupptökubeiðandi telur augljóst að dómur Landsréttar hefði verið „gagn“ í sakamálinu ef hann hefði legið fyrir á þeim tíma. Að mati endurupptökubeiðanda sé með engum hætti forsvaranlegt að komast að þeirri niðurstöðu að dómur Landsréttar teldist ekki gagn í sakamáli þar sem fjallað væri um sömu atvik.
    5. Jafnframt telur endurupptökubeiðandi að sakfelling Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-606/2015 hafi í grunninn hvílt á því að upplýsingar um leyfisleysi DRAFNAR RE-35 við veiðar á Eldeyjarrækju hafi verið metnar þannig að forsendur hafi verið til refsingar. Þótt ekki hafi verið deilt um leyfisleysi skipsins í sakamálinu verði ekki séð að rétt sé að taka vísun c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um „mat á sönnunargögnum“ úr því samhengi að sönnun sé tengd við það að fella háttsemi undir lagareglu varðandi refsinæmi. Að mati endurupptökubeiðanda eru ekki forsendur fyrir þeirri þröngu lögskýringu sem ríkissaksóknari byggir á. Þá bendir endurupptökubeiðandi á að endurupptökuheimild c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 hafi þá tilætlan að endurupptaka eigi mál ef líkur séu á að röng niðurstaða hafi fengist.
    6. Að endingu vísar endurupptökubeiðandi til sjónarmiða í endurupptökubeiðni varðandi d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 varðandi galla á málsmeðferð. Endurupptökubeiðandi ítrekar að það hljóti að teljast til verulegs galla á ákæru og forsendum dóms að ekki hafi verið vísað til þeirrar réttarreglu sem var í gildi um veiðar Eldeyjarrækju haustið 2015, þ.e. reglugerðarbreytingar nr. 503/2015. Endurupptökubeiðandi bendir á að skýring ákvæða þeirrar reglugerðar hafi verið grundvöllur niðurstöðu Landsréttar um að veiðarnar hafi ekki verið leyfisskyldar. Að mati endurupptökubeiðanda verði að líta til þess að misbrestur á því að ákæra hafi ekki vísað til reglugerðar nr. 503/2015 hafi falið í sér verulegan galla á málsmeðferð, sbr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um efni ákæru, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Þetta eigi einkum við þar sem í umfjöllun héraðsdómsins hafi heldur ekki verið vikið að þýðingu reglugerðarinnar.
  6. Niðurstaða
  1. Beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. S-606/2015 er tekin til úrskurðar endurupptökunefndar á grundvelli XXXIV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 228. gr. laganna segir að nú hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur sé liðinn og geti þá endurupptökunefnd orðið við beiðni manns, „sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið“, um að málið verði endurupptekið í héraði ef einhverju þeirra skilyrða, sem nánar eru tilgreind í stafliðum a til d, er fullnægt.
  2. Þau skilyrði sem koma fram í stafliðum a til d eru svohljóðandi:
    1. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
    2. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
    3. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
    4. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
  3. Samkvæmt fyrri málsl. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 7. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, verður engum gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað.
  4. Ríkissaksóknari hefur fallist á með endurupptökubeiðanda að grundvöllur sakfellingar í máli nr. S-606/2015 hafi verið rangur samkvæmt mati Landsréttar á lögmæti refsiheimilda í máli nr. 221/2018.
  5. Fyrir liggur að í tíð laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála taldi Hæstiréttur Íslands skilyrði til að endurupptaka opinbert mál þegar niðurstaða í því var ósamrýmanleg síðari réttarframkvæmd þar sem atvik voru hliðstæð, sbr. dóm Hæstaréttar frá 1. desember 1997 í máli nr. 374/1995. Efnislega hafa skilyrði fyrir endurupptöku sakamáls ekki breyst.
  6. Í dómi Landsréttar í málinu nr. 221/2018 reyndi á lögmæti refsiheimilda vegna sömu atvika og lágu til grundvallar dómi í máli nr. S-606/2015 sem beiðst er endurupptöku á. Telja verður að niðurstaða Landsréttar hefði skipt sköpum fyrir niðurstöðu í máli endurupptökubeiðanda ef hún hefði legið fyrir áður en dómur gekk.
  7. Að mati endurupptökunefndar má eins og hér stendur á líta svo á að skilyrði a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 sé uppfyllt. Með hliðsjón af ofangreindu er niðurstaða endurupptökunefndar því sú að skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi.

Úrskurðarorð

Beiðni Gunnars Jóhannssonar um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. S-606/2015, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. mars 2016, er samþykkt.

 

 

Haukur Örn Birgisson formaður

 

 

Gizur Bergsteinsson

 

 

Hrefna Friðriksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta