Hoppa yfir valmynd
9. september 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Starfshópur um málefni einhverfra fullorðinna tekur til starfa

Starfshópurinn á fyrsta fundi sínum ásamt starfsfólki úr félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur skipað starfshóp um málefni einhverfra fullorðinna einstaklinga. Honum er ætlað að greina þá þjónustu sem einhverfu, fullorðnu fólki stendur til boða í dag og hvernig unnt er að koma betur til móts við þarfir þess. 

Vinna starfshópsins tengist breytingum á örorkulífeyriskerfinu sem Alþingi samþykkti í júní sl. og ráðherra kynnti í Þjóðmenningarhúsinu í vor undir merkjunum Öll með.

Einhverft fólk er stækkandi hópur í samfélaginu. Það skýrist meðal annars af aukinni þekkingu á fjölbreytileika einhverfurófsins og fjölgun þeirra sem fá greiningu á unglings- eða fullorðinsárum. Stór hópur fullorðinna er einnig án greiningar en með hamlandi einkenni einhverfu og þarfnast handleiðslu og stuðnings við daglegt líf.

Áskoranir einhverfra birtast víða, til dæmis við nám og störf. Bent hefur verið á að skortur á einstaklingsmiðaðri þjónustu, svo sem viðtölum, fræðslu og öðrum hagnýtum stuðningi við daglegt líf, geti haft slæmar afleiðingar fyrir hópinn og dregið verulega úr virkni hans, ekki síst í námi og starfi.

Auk þess að greina umfang og samsetningu hópsins er starfshópnum sem fyrr segir ætlað að kortleggja þá þjónustu sem fullorðnum, einhverfum einstaklingum stendur til boða, svo sem greiningu, fræðslu, ráðgjöf og stuðning. Þá er honum ætlað að greina þörf fyrir aðkomu hins opinbera að þjónustu við hópinn og leggja fram tillögur að aðgerðum til úrbóta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta