Nr. 322/2017 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 22. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 322/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU17030058
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 30. mars 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...], (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. mars 2017, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi lagði ekki fram greinargerð í málinu en af kæru hennar má ráða að hún krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið þann 9. september 2016. Kærandi hafi lagt fram bréf með umsókn sinni þar sem fram hafi komið að einkadóttir kæranda hafi öðlast íslenskan ríkisborgararétt árið 2014 og hafi gifst íslenskum ríkisborgara. Kærandi vilji eiga í nánari samskiptum við barn sitt og barnabörn sem fædd [...]. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. mars 2017, var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi kærði ákvörðunina þann 30. mars 2017. Kærunefnd hefur ekki borist greinargerð frá kæranda.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga geti útlendingur í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þrátt fyrir að hafa ekki dvalist hér á landi þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiði til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið séu til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra. Var það mat Útlendingastofnunar, með hliðsjón af gögnum málsins og aðstæðum kæranda í heild, að kærandi hefði ekki svo sérstök tengsl við Ísland að réttlátt væri að beita fyrrnefndri undantekningarreglu 78. gr. laga um útlendinga. Stofnunin taldi að í málinu væru ekki umönnunarsjónarmið sem réttlættu veitingu leyfis.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í bréfi kæranda sem lagt var fram með umsókn hennar um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun kemur fram að einkadóttir kæranda hafi flutt til Íslands vegna náms árið 2009, hún hafi hitt eiginmann sinn og búið hér síðan þá. Kærandi sakni dóttur sinnar og myndi vilja eyða ævi sinni með henni og fjölskyldu hennar. Kærandi hafi aldrei hitt barnabörn sín, fædd [...].
Einnig var lagt fram með umsókn kæranda bréf frá dóttur hennar, [...]. Þar kemur fram að dóttir kæranda hafi búið á Íslandi síðan 2009 og verið íslenskur ríkisborgari frá 2014. Hún sé gift íslenskum ríkisborgara, [...]. Hún hafi átt erfitt á Íslandi frá árinu 2012 þegar hún og eiginmaður hennar hafi [...]. Þessi reynsla hafi verið þeim erfið og þau hafi ekki fengið mikinn stuðning. Hún hafi þá séð hversu mikils virði það sé að hafa foreldra sína nálægt sér. Hún sé mjög náin þeim og þau hafi hjálpað henni mikið í gegnum allt, en það sé erfitt að geta eingöngu talað við þau í gegnum lélegt internet.
Í bréfinu kemur einnig fram að eiginmaður kæranda hafi [...]. Kærandi og eiginmaður hennar eigi búð sem selji verkfæri og varahluti í bíla. Þau eigi líka einbýlishús og hafi kostað skólagöngu og uppihald dóttur sinnar þar til hún hafi gift sig. Dóttir kæranda telji bestu lausnina eftir allt sem hafi dunið á fjölskyldunni vera að foreldrar hennar flytji til landsins til að geta verið með þeim og tekið þátt í lífi þeirra og barnanna. Dóttir kæranda og eiginmaður hennar séu bæði í fullri vinnu og þurfi oft hjálp með börnin en fjölskylda eiginmanns hennar sjái sér ekki fært um að aðstoða þau. Foreldrar hennar séu duglegt og reynslumikið fólk sem séu tilbúin að vinna fyrir sér og aðstoða fjölskyldu hennar.
Með umsókn kæranda til Útlendingastofnunar var einnig lagt fram læknisvottorð frá [...]að það sé mikilvægt vegna veikinda og félagslegrar stöðu fjölskyldunnar að kærandi og eiginmaður hennar flytji til Íslands til að styðja við fjölskylduna og umönnun barnanna. Það myndi hafa verulega þýðingu til að fyrirbyggja og/eða minnka líkur á frekari veikindum hjá dóttur kæranda.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geta m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.
Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess., t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum um 78. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að ákvæðið geti t.d. átt við þegar einstaklingur er einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnist umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búi hér á landi. Ákvæði 4. mgr. 78. gr. laganna er samkvæmt orðalagi sínu undantekning frá þeirri almennu reglu að sérstök tengsl myndist á meðan á löglegri dvöl stendur. Ber að mati kærunefndar að túlka ákvæðið þröngt.
Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi, sem er [...], hefur aldrei dvalist hér á landi nema sem ferðamaður. Þegar útlendingur, sem hefur ekki dvalist hér á landi, sækir um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið verður að leggja heildstætt mat á aðstæður viðkomandi, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í slíkum málum geta þannig komið til álita ytri aðstæður útlendings í heimaríki sem yrðu ekki lagðar til grundvallar við úrlausn um dvalarleyfi ef viðkomandi hefði dvalist hér á landi, en við þær aðstæður eru aðeins metin tengsl viðkomandi við landið, sbr. 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.
Af fyrirliggjandi gögnum málsins má ráða að kærandi sé, ásamt eiginmanni sínum, búsett í [...]. Kærandi starfi hjá fyrirtæki eiginmanns síns en hann rekur verslun sem selur verkfæri og varahluti í bíla. Þau búi í eigin húsnæði í heimaríki. Dóttir kæranda sé einkadóttir hennar. Í bréfi kæranda kemur m.a. fram að hún hafi aldrei hitt barnabörn sín og vilji sameinast dóttur sinni og fjölskyldu hennar hér á landi. Dóttir hennar þurfi á aðstoð þeirra að halda við umönnun barnanna og heimilisins. Þá hafi eiginmaður hennar [...] og vilji þau því eyða ævinni með nánustu fjölskyldu sinni. Meðal gagna málsins er vottorð frá [...]. Í vottorðinu kemur fram það mat læknis að mikilvægt sé vegna veikinda og félagslegrar stöðu fjölskyldunnar að kærandi og eiginmaður hennar flytji til Íslands til að styðja við fjölskylduna og umönnun barnanna. Það myndi hafa verulega þýðingu til að fyrirbyggja og/eða minnka líkur á frekari veikindum hjá dóttur kæranda.
Eins og að framan greinir hefur kærandi aldrei dvalist hér á landi. Þótt kærunefnd fallist á að það yrði til hagsbóta fyrir heilsu og félagslega stöðu dóttur kæranda og fjölskyldu hennar að kærandi fengi leyfi til dvalar hér á landi er það mat nefndarinnar að allt að einu liggi ekki fyrir rík umönnunarsjónarmið, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, í máli þessu. Hefur kærunefnd m.a. litið til þess að samkvæmt gögnum málsins eru dóttir kæranda og tengdasonur bæði í fullri vinnu og benda gögn málsins að mati kærunefndar ekki til þess að fjölskylda kæranda hér á landi sé háð umönnun kæranda.
Fyrir liggur að kærandi er vinnufær og býr ásamt eiginmanni sínum í [...] þar sem þau hafa trygga framfærslu og húsnæði. Þótt kærandi eigi dóttur, sem [...], og barnabörn hér á landi er það mat kærunefndar, þegar málsatvik eru virt heildstætt, að það geti ekki talist bersýnilega ósanngjarnt að veita kæranda ekki dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Að mati nefndarinnar séu aðstæður hennar að öðru leyti ekki þess eðlis að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 1 og 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framangreindu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Athygli kæranda er vakin á því að í 72. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi fyrir foreldra en þar segir m.a. í 2. mgr. að heimilt sé að veita útlendingi sem er 67 ára eða eldri dvalarleyfi eigi hann uppkomið barn hér á landi. Þegar kærandi uppfyllir aldursskilyrði framangreinds ákvæðis getur hann sótt um dvalarleyfi á þeim grundvelli.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason