Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Óvissa í öryggismálum í Evrópu aðalumræðuefnið á fundi Þórdísar Kolbrúnar og Stoltenbergs

Óvissa í öryggismálum í Evrópu aðalumræðuefnið á fundi Þórdísar Kolbrúnar og Stoltenbergs - myndAtlantshafsbandalagið

Óvissa í öryggis- og varnarmálum Evrópu, framferði Rússlands gagnvart Úkraínu og spenna í samskiptum þess við Vesturlönd voru meðal umræðuefna á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, í Brussel í dag.

„Umfang hernaðaruppbyggingar Rússlands á landamærunum við Úkraínu á sér ekki hliðstæðu frá lokum kalda stríðsins. Það er áhyggjuefni að Rússar viðhafi ógnandi tilburði gagnvart fullvalda ríki. Kjarninn í utanríkisstefnu Íslands er virðing fyrir alþjóðalögum og friðhelgi landamæra og lögsögu. Við stillum okkur algjörlega upp með bandalagsríkjum í vörn um þau gildi,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún undirstrikar að ágreiningsmál í alþjóðasamskiptum beri að leysa með friðsamlegum hætti. Kröfum rússneskra stjórnvalda sem beint var til bandalagsríkja hafi verið svarað með skriflegum hætti í síðasta mánuði. Bandalagið hefur lýst vilja til að ræða við Rússland á vettvangi NATO-Rússlandsráðsins. Stigmögnun spennu getur falið í sér sjálfstæða áhættu og því leggur Ísland áherslu á að fundnar séu leiðir til þess að draga megi úr spennu og togstreitu. Ráðherra undirstrikaði að bandalagið væri mikilvægasta stoð varnar- og öryggismála í Evrópu og að þar skiptu sköpum sterk tengsl við ríki Norður-Ameríku.

„Atlantshafsbandalagið er varnarbandalag sem ógnar ekki öryggi Rússlands. Aðildarríki bandalagsins eru frjáls og fullvalda. Þau hafa gengið í Atlantshafsbandalagið af eigin frumkvæði og vilja. Kröfur Rússlands fela í sér afturhvarf til þess tíma þegar fullveldi ríkja Austur-Evrópu var markað skorður af afskiptum Kremlar. Það er ekki heillandi framtíðarsýn að heimurinn færist aftur í þá átt,“ segir Þórdís Kolbrún.

Á fundinum var einnig rætt um áherslur íslenskra stjórnvalda í öryggis- og varnarmálum, viðbúnað og eftirlit á Norður-Atlantshafi, málefni norðurslóða og afvopnunarmál. Þá var undirbúningur næsta leiðtogafundar sem fer fram í Madríd í júní næstkomandi til umræðu en þar verður ný grunnstefna bandalagsins samþykkt.

Þórdís Kolbrún sækir fund varnarmálaráðherra bandalagsins sem hefst á morgun.

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Jens Stoltenberg frkvstj. Atlantshafsbandalagsins - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta