Styrkveitingar vegna kaupa á hreinorkubílum taka gildi um áramót
Um áramót tekur gildi nýtt styrkjafyrirkomulag varðandi kaup á hreinorkubílum. Hægt verður að sækja um styrki til kaupa á hreinorkubílum sem kosta undir 10 milljónum króna til Orkusjóðs frá og með 2. janúar 2024. Beinir styrkir taka þar með við af skattaívilnunum og er þeim ætlað að hvetja til kaupa á ökutækjum er ganga fyrir hreinni endurnýjanlegri orku, í þeim tilgangi að hraða orkuskiptum í samgöngum með það að megin markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Við framkvæmd styrkveitinganna er haft að leiðarljósi að mæta hugmyndafræði um réttlát umskipti. Er það gert með ýmsum hætti, t.a.m. eru styrkir óháðir kaupverði og fá því ódýrustu bílarnir hlutfallslega hæstu styrkina, auk þess sem þak er sett á kaupverð bílanna. Þá er tekið tilliti til þeirra er kaupa innflutt notuð ökutæki, sem og þeirra sem festa kaup á bílum sem eru sérútbúnir fyrir fólk með fötlun.
Orkusjóður mun annast afgreiðslu styrkjanna. Umsækjendur sækja um með stafrænum hætti á Mínum síðum á Ísland.is. Allar nánari upplýsingar um styrkafgreiðslu er að finna á vef Orkusjóðs og á Ísland.is.
Samkvæmt nýju fyrirkomulagi er gert ráð fyrir að styrkur vegna hreinorku fólksbíla sem kosta undir 10 m.kr. verði 900 þ.kr. árið 2024 og er styrkhlutfall vegna ódýrari bíla þar með hærra en dýrari bíla. Enginn styrkur verður greiddur vegna fólksbíla sem kosta meira en 10 m.kr. Styrkir vegna innfluttra notaðra bíla verða lægri og ná einungis til nýlegra bíla. Gert er ráð fyrir að styrkumsóknir fái skjóta afgreiðslu þegar nýr hreinorkubíll hefur verið skráður á nýjan eiganda og að styrkupphæð verði að jafnaði greidd út innan tveggja daga.
Styrkupphæðir til vörubíla (flokkar N2 og N3) og hópferðabíla (flokkar M2 og M3) ráðast af stærð bíls og fara umsóknir vegna þeirra í gegnum umsóknarferli Orkusjóðs að undangenginni auglýsingu.